2. fundur

Fundur í Eta-deild þriðjudaginn 11. október 2016
Í Norðlingaskóla kl. 18:00–20.30
 
Dagskrá:
1. Fundur settur
2. Orð til umhugsunar - Hafdís Sigurgeirsdóttir
3. Erindi: Starfsánægja, lífsfylling - Sigríður Hulda Jónsdóttir, framkvæmdastjóri hjá SHJ ráðgjöf 
4. Önnur mál
5. Léttur kvöldverður
 
Hópur 1 undirbjó fundinn en hann skipuðu Hafdís, Jóhanna, Kristín Ágústa, Sif og Sophie. 
 
Fundinn sóttu eftirtaldar Eta-systur: Hafdís Sigurgeirsdóttir, Sophie Kofoed-Hansen, Anna Sigríður Pétursdóttir, Auður Elín Ögmundsdóttir, Bryndís Sigurjónsdóttir,  Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, Kristín Ágústa Ólafsdóttir og Stefanía Valdís Stefánsdóttir.
 
Þetta gerðist:
Setning. Sophie bauð viðstadda velkomna, setti þennan annan fund vetrarins sem haldinn var á dimmu rigningarkvöldi og kveikti á kertum.
Orð til umhugsunar. Hafdís rifjaði upp starf sitt að sérkennslu. Síðustu fjögur ár hefur hún einbeitt sér að lestrarkennslu yngstu barnanna sem hún sagði að hefði verið sérlega gefandi. Nú í haust voru starfslok hjá Hafdísi. Getur hún því gefið áhuga sínum á bókmenntum betri tíma. Hún gat sérstaklega bókarinnar Skuggamyndir úr ferðalagi eftir Óskar Árna Óskarsson og sagði frásagnirnar höfða til sín. Hafdís las tvær frásagnir bókarinnar, „Lárviðarlauf“ og „Njála“, frásögn um kaupmann sem las Njálu fyrir börnin í hverfinu. Taldi trúlegt að hún tengdi svo vel við þessar sögur vegna þess að í þeim endurspeglist virðing, áhugi og hlýja gagnvart börnum.
 
Erindi. Sigríður Hulda Jónsdóttir, náms- og starfsráðgjafi var gestur fundarins. Hún á og rekur fyrirtækið SHJ ráðgjöf (sjá heimasíðuna www.shjradgjof.is og SHJ ráðgjöf á facebook) en þar er boðið upp á fræðslu og ráðgjöf fyrir vinnustaði og aðra hópa, m.a. varðandi starfsánægju, samvinnu eininga, leiðir til að takast á við breytingar, lykilatriði í þjónustu og fleira.
Sigríður byrjaði á að segja okkur að hún væri uppalin í Þingeyjarsýslu og að henni þætti starf sitt skemmtilegt, það hefði kennt henni margt. „Viðhorf“ væri lykilorð í því sem hún vinnur með. Til dæmis gagnvart breytingum. Viðhorf geti haft veruleg áhrif á lífsgæði okkar. Við þyrftum að gæta þess að falla ekki í ákveðinn skýringarstíl svo sem að benda á alla aðra en mann sjálfan sem ástæðu vanlíðunar eða að hafa stöðugt áhyggjur. Hvatti okkur til að skoða við hvað hugsanir okkar dveldu. Við getum valið okkur viðhorf, sagði Sigríður. Hún kvað mikilvægt að þekkja sjálfan sig, hvað veiti manni gleði og hvað auki pirring manns eða vansæld. Við fengum síðan það verkefni, tvær og tvær saman, að segja hvor annarri hvað við vildum gera meira af og hvað minna af.
Sigríður vitnaði til kenningar um fimm lykilþætti hamingju:
Heilsa
Samskipti
Jákvæðni og fegurð
Þakklæti (stakk upp á að halda „þakkardagbók“, skrá þakkarefni dagsins)
Öryggi og tilgangur.
Að loknu erindi og umræðum fundarkvenna út frá því afhenti Sophie Sigríði rauðu rósina og þakkaði sérstaklega áhugaverðan og uppbyggilegan fyrirlestur.
Kvöldverður. Matmóðir Norðlingaskóla hafði útbúið fyrir fundinn „skólastjórasúpu“ sem gældi við bragðlaukana og var seðjandi ásamt ilmandi brauði. Með kaffinu voru svo bornar fram hnallþórur sem hefðu sómt sér í hvaða drottningarveislu sem væri. Matmóðirin fékk einnig rósina rauðu. 
Önnur mál voru ekki á dagskrá. Sophie sleit því fundi að loknu matar- og kaffispjalli fundarkvenna. Að mati fundarritara var fundurinn einkar nærandi fyrir sál og líkama. 
 
Kristín Á. Ólafsdóttir, fundarritari. 

Síðast uppfært 14. maí 2017