Skapandi DKG konur

Þriðji fundur haustsins var haldinn 29. nóvember. Að þessu sinni var áherslan lögð á okkar eigin sköpunargleði. Við hittumst í bílskúrnum hjá Aðalbjörgu og hennar ektamanni, Gísla þar sem þau hjón höfðu undirbúið komu okkar með því að klippa niður greinar í jólakransa. Síðan nutum við þess að vefja hvern listakransinn á fætur öðrum og fyrr en varði voru allar komnar með DKG jólakransa til að skreyta heimilið fyrir jólin. Að því loknu fórum við í næstu götu, í stássstofu Eddu og hennar fjölskyldu. Þar nutum við matmikillar súpu með heimabökuðu brauði og héldum hefðbundin félagsfund IOTA deildar. Orð til umhugsunar var Andrea með en hún velti fyrir sér trúarbragðakennslu, ólíkum viðhorfum til trúarbragðakennslu í skólum og sköpuðust skemmtilegar og áhugaverðar umræður um málefnið. Auðvitað bar listir og menningu á góma og svo margt, margt annað. Það voru nærðar og ánægðar DKG konur sem héldu heim að fundi loknum, sem að þessu sinni dróst aðeins framyfir tveggja tíma hefðbundinn fundartíma.