Inntaka nýrra félaga

Guðríður, Aðalbjörg, Margrét og Ásgerður.
Guðríður, Aðalbjörg, Margrét og Ásgerður.

Fundurinn hófst með því að formaðurinn okkar, Ingibjörg Þorgerður, kveikti á kertunum þremur: Vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Fundurinn var með hefðbundnu sniði með einni undantekningu þó – inntöku nýrra félaga. Áður en sá sá liður hófst var Gunnvör Kolbeinsdóttir með Orð til umhugsunar þar sem hún vitnaði í bókina: Listinn að stjórna eigin lífi – virkjaðu þinn eigin kraft. Spekin sem Gunnvör las úr bókinni, sem byggist á tilfinningagreind, fjallaði um viðhorf okkar og hvernig við getum öðlast meiri sálarró og bætt sambönd okkar við annað fólk – gott að líta í eigin barm.

Fjórar systur gengu til liðs við okkur: Aðalbjörg Bragadóttir íslenskufræðingur, kennari við ML, Guðlaug Ásgerður Eiríksdóttir leikskólakennari, sérkennslustjóri við leikskólann Brimver á Eyrarbakka, Guðríður Egilsdóttir matreiðslumeistari og framhaldsskólakennari, fagstjóri matvælagreina við FSu og Margrét Guðmundsdóttir leikskólakennari við Jötunheima á Selfossi.

Helga G. Halldórsdóttir í Gamma-deild og landsstjórn kom á fundinn      í tilefni af inntökunni. Það var engin tilviljun að hún var fulltrúi landsstjórnar, því hún var einn af stofnendum Epsilon-deildar og fyrsti formaður hennar. Henni til aðstoðar úr stjórninni voru: Ingibjörg Þorgerður, Sigfríður og Kristín. Athöfnin var hátíðleg og falleg - og eins og formaðurinn komst að orði þá er mikill mannauður í þessum glæsilegum konum sem gengu til liðs við Epsilon-deild á fyrsta fundi vetrar.

Eftir að fundi lauk var farið á Hótel Selfoss þar sem beið okkar dásamlegt kjúklingasalat.

Hér eru myndir frá fundinum.