Epsilonsystur funda í FSu 24. sept. 2025

Nemendur af matvælabraut FSu úbjuggu kjötsúpu fyrir Epsilonsystur.
Nemendur af matvælabraut FSu úbjuggu kjötsúpu fyrir Epsilonsystur.

Ásgerður Eiríksdóttir las upp fundargerðir frá fundunum sem haldnir voru í Hafinu Bláa og Borgarnesi.

Guðrún Sigríks var með Orð til umhugsunar. Hún fjallaði um vináttuna sem er eitt af einkunnarorðum Dkg. Eftir að hún hafði talað um vináttuna frá ýmsum sjónarhornum uppljóstraði hún því að hún hefði notað gervigreindina til að skrifa pistilinn. Þetta gerði hún til að velta upp spurningunni: Hvað gera kennarar nú? Gervigreindin er vissulega áskorun fyrir kennara en hún er jafnframt spennandi. Kennarar þurfa  að breyta kennsluháttum sínum með gervigreindina í huga.

Margrét var með sannkallaðan fréttapakka af starfinu framundan. Fór yfir fundina fram að jólum hvar og hvenær þeir yrðu haldnir. Málþingið verður 30. okt. Hún sagði frá að óskað hefði verið eftir því að  Epsilondeildin tæki að sér samskipta- og útgáfunefnd samtakanna. Ásborg, Katla Eydís og Ingibjörg Þorgerður hafa tekið það verkefni að sér. Margrét sagði frá kröftugum og hvetjandi framkvæmdaráðsfundi sem hún og Eydís Katla (f.h. samskipta- og upplýsinganefndar) fóru á fyrir stuttu. Á þeim fundi bar margt á góma m.a. að fjölga þyrfti í deildum. Í Epsilondeild eru 28 konur af þeim hafa 15 lokið störfum en 13 eru enn að störfum. Það kom fram hjá Margréti að þær konur sem hættar væru störfum gegndu jafn mikilvægu hlutverki innan samtakanna og þær sem enn störfuðu. Systur þurfa nú að finna konur sem sinna fræðslustörfum og bjóða á næsta fund. Það þarf að skilgreina hvaða störf teljast til fræðslustarfa. Eins er gott að hafa fjölbreytileikann að leiðarljósi við valið.

Soffía Sveinsdóttir og Guðríður Egilsdóttir kynntu Erasmus-verkefni sem FSu hefur tekið þátt á undanförum árum. Á árunum 2024-2025 voru farnar 12 ferðir til útlanda. Erasmus er erlent samstarf. Lögð er áhersla á að ferðir skili sér í styrkingu mannauðs. Öll verkefnin 12 voru ólík en leiddu öll til faglegs vaxta og aukinnar meðvitundar um evrópska samvinnu að sögn Soffíu.

Í sjóði Erasmus er hægt að sækja um námskeið, skuggakennslu og nemendaheimsóknir.

Guðríður sagði frá tveimur ferðum sem hún fór í. Önnur var með nemendum af matvælabraut sem fóru í kokkaskóla til Vesterås í Svíþjóð. Í hina ferðina fór hún með tveimur samkennurum til Sikileyjar. Á námskeiðinu voru 12 konur frá sex löndum. Áhersla var á Miðjarðarhafsmataræði – sjálfbærni og árstíðarbundið grænmeti. Námskeiðið hét: Góðar venjur byrja í eldhúsinu. Báðar kynningarnar voru afar fróðlegar og skemmtilegar.

Happdrættisvinningar voru tveir að þessu sinni. Bodil og Sigríður G. hnepptu vinningana.

Eftir fundinn var snæddur kvöldverður í sal FSu. Nemendur af matvælabraut sáu um matinn. Á boðstólum var kjötsúpa og  brauð. Í eftirrétti voru sykraðar pönnukökur og rjómapönnukökur: Maturinn var snæddur við hvítdúkuð borð. Glæsilegt í alla staði.

 Epsilonsystur í FSu 24.9.25