Gammasystur í heimsókn 11. apríl 2024

Í Skyrlandi tók Fjóla Kristinsdóttir bæjarstjóri Árborgar á móti hópnum og fræddi hann um fjölskyldusvið  og skólaþjónustu Árborgar sem hún er afar stolt af enda gróskumikið starf unnið þar.

Sýningin um sögu skyrsins var skoðuð. Sýningin er skemmtilega sett upp og fróðleg. Ofurfæðan skyr nýtur nú vinsældar um allan heim og var boðið upp á smakk í lok sýningar.

Systur röltu síðan yfir í Tryggvaskála þar sem fundurinn fór fram. Margrét Guðmundsdóttir varaformaður Epsilondeildar setti fund og stýrði honum í fjarveru Guðríðar Egilsdóttur formanns. Nafnakall var hjá báðum deildum og stóðu systur upp þegar nöfn þeirra voru lesin. Hrefna Sigurjónsdóttir formaður Gammadeildar stýrði nafnakalli sinnar deildar.

Erna Ingvarsdóttir var með liðinn: Orð til umhugsunar. Hún las um fyrirgefningu úr bókinni Veldu.

Margrét minnti systur á vorráðstefnuna sem haldin verður í Borgarnesi 20. apríl 2024. Yfirskrift ráðstefnunnar er: Listir, læsi, líðan – til farsældar. Systur mega bjóða með sér vinum sem er liður í að gera samtökin sýnilegri.

Um leið og Margrét þakkaði Þorlákshafnardeildinni fyrir skipulagningu á síðasta fundi, sem haldinn var í Þorlákskirkju, minnti hún á aðalfundinn sem haldin verður í Hveragerði 2. maí. Systur í Hveragerði skipuleggja hann. Á þeim fundi ganga þrjár systur úr stjórn: Guðríður, Guðrún Sigríks og Ester. Inn koma: Ásgerður, Guðlaug og Harpa.

Liðurinn önnur mál var í höndum Gammadeildar. Hrefna Sigurjónsdóttir þakkaði fyrir boðið á fundinn. Ingibjörg Einarsdóttir sem rekur Litlu upplestrarkeppni sem fer fram í 4. bekk  sagði systrum frá tilurð hennar. Liður í Litlu upplestrarkeppninni er talkór og hefur hann slegið í gegn. Ingibjörg lét systur lesa Fuglaþulu eftir Kristján Hreinsson „hirðskáld keppninnar“ í talkór. Þetta var frumflutningur á Fuglaþulunni.

Eftir að dregið var í happdrættinu var slökkt á kertum og fundi slitið. Systur settust síðan að snæðingi.

Að mati systra var fundurinn velheppnaður, samveran notaleg og skemmtileg.