Lykill að líðan barna og unglinga - 30. okt. 2025

Sigríður Munda fundastjóri og Margrét formaður.
Sigríður Munda fundastjóri og Margrét formaður.

 

Margrét Guðmundsdóttir, formaður, setti málþingið og bauð forseta Íslands og aðra gesti velkomna á málþingið „Lykill að líðan barna og unglinga.“ Hún hélt stutta kynningu á samtökunum Delta Kappa Gamma og Epsilondeildinni. Sigríður Munda Jónsdóttir var fundarstjóri.

Sigrún Sigurðardóttir, hjúkrunarfræðingur og prófessor við Háskólann á Akureyri, var fyrst á mælendaskrá. Hún talaði um andlega líðan barna og unglinga, fjallaði um áföll, afleiðingar þeirra og mikilvægi áfallamiðaðrar nálgunar við þróun úrræða. Sigrún kom inn á úrræði sem hafa reynst vel heima og erlendis, hvað við getum lært af þeim og gert betur í okkar samfélagi. Hún sagði einnig frá ACE-spurningalistanum, þar sem spurt er um erfiða upplifun í æsku og mikilvægi hans í starfi fagfólks.

Sgrún býr í Hveragerði og kennir einnig á Heilsustofnun í Hveragerði um áföll og áfallamiðaða nálgun.

Raddir ungmenna heyrðust á málþinginu. Hera Fönn Lárusdóttir, nemandi í 10. bekk í Grunnskólanum í Hveragerði, sagði frá hugmyndum sínum og sýn á hvað þurfi að gera til að styðja við andlega heilsu og vellíðan unglinga. Sigurður Ernir Eiðsson, nemandi í Fjölbrautarskóla Suðurlands, kom með nokkra skemmtilega og innihaldsríka punkta um bætta vellíðan nemenda í FSu, meðal annars að banna ætti síma í skólanum.

Samfélagslöggan Ellert Geir Ingvason kynnti Samfélagslögregluna á Suðurlandi. Samfélagslögregla heimsækir leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla, félagsmiðstöðvar, fyrirtæki, stofnanir og félög til að miðla upplýsingum um öryggi og forvarnir. Markmiðið hjá samfélagslöggunni er að færa lögregluna nær samfélaginu og styrkja tengsl lögreglunnar við ungt fólk.

Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, svaraði nokkrum spurningum Sigríðar Mundu um „Riddara kærleikans,“ sem er hreyfing fólks sem vill efla vitundarvakningu um kærleika, samkennd og samtal. Verkefnið byggir á virðingu fyrir fórnarlömbum ofbeldis og þeirri von að við getum sameinast um að skapa betra og öruggara samfélag fyrir komandi kynslóðir.

Það kom meðal annars fram í svari frú Höllu að símanotkun og sítenging við samfélagsmiðla hafi haft afdrifarík áhrif á andlega heilsu og líðan ungs fólks, dregið úr mikilvægum tíma í návist annars fólks og því hafi einmanaleiki aukist. Ungt fólk lesi minna, verji minni tíma úti í náttúrunni og sofi verr.

Forseti Íslands hefur tekið virkan þátt í að kynna og styðja „Riddara kærleikans.“

Að lokum voru pallborðsumræður. Fyrirlesurum var boðið að koma upp á svið og taka við spurningum úr sal. Þó nokkuð af spurningum var varpað til allra fyrirlesaranna.

Fyrirlesurum var klappað lof í lófa og fengu rós fyrir sitt framlag í lok þingsins. Rósin er tákn Delta Kappa Gamma samtakanna og hefur sérstaka merkingu um vináttu, kærleika og virðingu.

Einnig táknar rósin fegurð, innblástur og sköpunarkraft, eiginleika sem tengjast því að vera kennari, leiðtogi og skapandi manneskja í fræðslu- og menntastarfi. Þetta á sérstaklega vel við Margréti Guðmundsdóttur, Sigríði Mundu Jónsdóttur, Guðríði Aadnegaard og Soffíu Sveinsdóttir, sem undirbjuggu málþingið af kostgæfni.