Vorferð Epsilonsystra í Borgarnes
Formaður Deltadeildar, Theódóra Þorsteinsdóttir, bauð systur velkomnar. Margrét Guðmundsdóttir formaður Epsilondeildar kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og þar með var fundur settur og dagskráin hófst.
Sigríður Guðnadóttir úr Epsilondeild las „örsögu“ um búðarráp í Smáralind og ævintýri sem hún rataði í þar.
Margrét Guðmundsdóttir flutti Orð til umhugsunar og lagði út frá einkunnarorðum Delta Kappa Gamma um vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Þau væru grunnurinn að góðum samskiptum og vináttuþeli kvenna í leik og starfi. Hún hefði auðlast dýrmæta reynslu sem formaður Epsilondeildar, sjálftraustið eflst og styrkur til að takast á við krefjandi verkefni með góðum samskiptum og samvinnu Epsilonsystra og annarra kvenna í hennar lífi.
Theodóra sagði frá Landnámssetrinu sem er til húsa í tveimur af elstu húsum Borgarness - og frá neðri bænum í Borgarnesi. Landnámssetrið var stofnað 13. maí 2006. Í Landnámssetrinu eru tvær sýningar önnur segir frá sögu Landnámsins og í hinni er rakinn söguþráður Egilssögu.
Theodóra var skólastjóri og söngkennari í þrjátíu ár við Tónlistarskólann í Borgarnesi og síðar í Borgarbyggð. Hún var spurð út í hið fjölbreytta og skemmtilega tónlistarstarf sem hún hafði gegnt þessi ár. Líflegar umræður spruttu upp úr þessu um hve tónlistarstarf hefur þroskandi áhrif á börn.
Og þá var komið að því að æfa nýjan afmælissöng DKG sem samin var í tilefni af 50 ára afmæli samtakanna á Íslandi. Theodóra Þorsteinsdóttir og Jónína Erna Arnardóttir, úr Deltadeild, eru höfundar lags og texta. Systur sungu lagið nokkrum sinnum yfir þar til þær voru nokkuð öruggar með sig.
Þá var komið að borðhaldi. Á meðan á matnum stóð var dregið í happdrættinu og vinninginn hlaut Espilonsystirin Harpa Björnsdóttur.
Fundi var slitið með því að slökkva á kertum. Systur úr Epsilon- og Deltadeild voru ánægðar með þennan sameiginlega fund sem var jafnframt síðasti fundur vetrar.