201. fundurinn
Til baka á fundargerðir
Delta Kappa Gamma á Íslandi - Alfa-deild
201. fundur Alfa-deildar
Fundardagur: mánudagur 9. nóvember 2009
Fundarstaður: Álftamýrarskóli
Fundargerð:
1. Formaður, Erna Árnadóttir, setti fund kl. 18.00 og bauð félagskonur velkomnar.
2. María Sólveig Héðinsdóttir, varaformaður, kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
3. Sigrún Klara Hannesdóttir, ritari, las fundargerð 200. fundar Alfa-deildar og hafði nafnakall. Alls voru 23 konur mættar að nýja félaganum meðtöldum.
4. Bryndís Víglundsdóttir flutti orð til umhugsunar og vakti athygli á nauðsyn þess að lesa fyrir börn. Hún sagði frá hljóðbókaútgáfunni Gaman að lifa – gaman að hlusta sem hún stofnaði haustið 2008. Markmið útgáfunnar er að bjóða gott hlustunarefni og fjölskylduvænar sögur. Sögurnar sem út eru komnar eru Sögur af Munda, Benni og ég og Jólabaðið. Jafnframt hafa verið gefnir út fimm diskar með sögum um dýralækninn snjalla, James Herriot. Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðunni: www.gamanadlifa.is
5. Nýr félagi, Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins var tekin inn í Alfa-deild. Formaður og varaformaður sáu um inntökuna, Erna stýrði inntökunni og María Sólveig las markmið og aðrar upplýsingar með formanni.
6. Efni fundarins voru síðan tvö erindi um listsköpun í skólum.
a. Skapandi börn: Kristín Hildur Ólafsdóttir, verkefnisstjóri listasmiðju Leikskólans Sæborgar flutti kynningu á starfi leikskólans. Starfið byggir á hugmyndafræði Reggio Emilia þar sem áhersla er lögð á fjölbreyttar tjáningarleiðir, virka þátttöku barnanna í eigin þekkingaröflun. Tilgangur starfsins er að barnið verði hæfileikaríkur gerandi, verði virkt í námi sínu og að kennarinn sé virkur og leiðandi, umhverfið virki hvetjandi og að listir séu óaðskiljanlegur þáttur í öllu námferlinu. Hún sýndi einnig myndir sem börnin hafa gert.
b. Mikið úr engu: Herdís Egilsdóttir, sem um árabil var kennari í Ísaksskóla, sagði frá því hvernig hún hefur unnið með börnum að því að skapa hvers kyns hluti og listmuni úr því sem aðrir telja einskis virði. Hún sýndi hvernig hægt er að búa til heilar tröllafjölskyldur úr kornflex-pökkum og pappahólkum innan úr klósettpappír og eldhúsrúllum. Börnin njóta þess að skapa sín eigin listaverk með því að gefa hugmyndafluginu lausan tauminn. Félagskonur fengu ljósrit með myndum af tröllum og leiðbeiningar um hvernig hægt væri að breyta gagnslausum hlutum í listaverk.
7. Borin var fram ljúffeng súpa og brauð sem framleitt var í skólanum.
8. Fundi slitið kl. 20.20.
Fundargerð ritaði Sigrún Klara Hannesdóttir, ritari
Síðast uppfært 14. maí 2017