212. fundurinn

Til baka á fundargerðir
Þann 3. október 2011 var haldinn 212 félagsfundur Alfadeildar í Gerðubergi. 14  félagskonur mættu ásamt formanni Landssambands DKG Sigríði Rögnu Sigurðardóttur, sem jafnframt er félagi í Alfadeild.

Marta Guðjónsdóttir, formaður opnaði fundinn og bauð félagskonur velkomnar. Hún bað fundarkonur að minnast Sigríðar Valgeirsdóttur með einnar mínútu þögn. Hún fór síðan yfir fundarplanið og sagði að fundartíminn sem settur var vegna vetrarstarfsins gengi ekki upp fyrir margar félagskonur og því yrði að breyta honum. Af undirtektum fundarkvenna að dæma virtist ganga best fyrir flestar að funda fyrsta fimmtudag í mánuði k. 17.00.  Marta sagði frá fyrirætlun um að halda jólafund með fleiri deildum. Hún fór yfir áherslur sambandsins og greindi frá einkunnarorðum þess „frá orðum til athafna“ og áherslunni að gera samtökin sýnilegri.

Sigrún Klara Hannesdóttir og Sjöfn Sigurbjörnsdóttir voru með orð til umhugsunar. Sigrún Klara fór yfir reynslu sína af starfi í DKG í 36 ár og sagði starfið hafa verið gefandi á þremur sviðum:

  1. Persónuleg kynni innan deildar og innan samtakanna.
  2. Tengslanet innanlands og erlendis
  3. Leiðtogaþjálfun og þekkingarmiðlun
  4. Alþjóðatengslin og þátttaka í alþjóðastarfinu, sem fáar konur nýta sér.

Hún sagði frá því að Evrópusvæðið hefði enga starfsemi, nema skipuleggja svæðisráðstefnu, en svæðið gefur möguleika á þátttöku í alþjóðlegum nefndum. Sjálf hefur Sigrún Klara setið í ritnefnd.

Sjöfn greindi frá starfinu í leiðtogaþróuninni og handbók fyrir forseta samtakanna (Sjöfn sýndi möppuna). Hún tók þátt í fundi í október í fyrra og annar fundur verður í febrúar á næsta ári. Þess á milli eru símafundir og mikill tölvupóstur svo og ýmiss verkefni t.d. að fara yfir efni um skyldur deildarforseta.

Sigríður Ragna, forseti sambandsins hvatti til þátttöku á alþjóðaþinginu í New York. Hún skilaði kveðju frá alþjóðaforseta samtakanna og mun kynna efni samtakanna á næsta fundi.

 

 

Þá var komið að kynningu á Reykjavík – bókmenntaborð UNESCO. Marta bar kveðju frá frú Vigdísi Finnbogadóttur, sem lagði sitt af mörkum til að Reykjavík hlyti þessa tilnefningu.

Auður Rán Þorgeirsdóttir sagði verkefnið heyra undir Menningar- og ferðamálasvið. Þetta væri liður í skapandi borgum UNESCO og markmið að tengja borgirnar innbyrðis. Listgreinarnar skapandi eru 7; bókmenntir, kvikmyndir, hönnun, tónlist, matargerð, alþýðumenning og starfræn miðlun. Borgirnar sem taka þátt eru 26 alls. Titillinn er varanlegur og er UNESCO með lista yfir skilyrði til að borg geti hlotið þennan titil. Sviðin sem þarf að uppfylla eru þrjú: Söguleg arfleifð, lifandi bókmenning og metnaður til framtíðar. Bókmenntaborgirnar eru 5; Edinborg frá 2004, Melbourne frá 2008, Iowa City frá 2008, Dublin frá 2010 og Reykjavík frá 2011, en Reykjavík er fyrsta borgin utan enska málsvæðisins.

Á Íslandi starfar stýrihópur ýmissa aðila að verkefninu.

Kristín Viðarsdóttir greindi frá því að viðburðavefur væri nýopnaður. Lestrarhvatning er forgangsverkefni og framundan er að opna miðstöð orðlistar, en undirbúningur er á frumstigi. Meðal verkefna eru bókmenntamerkingar á ýmsa staði. Kynning er í gangi á verkefninu og verður m.a. á bókasýningunni í Frankfurt. Kristín sýndi fundarkonum umsóknina, sem er vegleg og vönduð bók, til bæði á íslensku og ensku og jafnframt á vefnumwww.bokmenntaborgin.is

Að lokinni kynningu urðu umræður og fögnuðu fundarkonur þessu myndarlega framtaki og óskuðu því velgengni.

 

 

 


Síðast uppfært 14. maí 2017