239. fundurinn

Til baka á fundargerðir 

Fundargerð 239. félagsfundar Alfadeildar DKG

Haldinn í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti  6. apríl 2017 kl. 17.30. Mættar voru 13 félagskonur.

Guðrún Hrefna Guðmundsdóttir, skólameistari tók á móti félagskonum ásamt  Stefáni Rafnar Jóhannssyni  fagstjóra húsasmíðabrautar og Nínu Björgu Sigurðardóttur fagstjóra snyrtibrautar.

Formaður setti fundinn sem hófst á nafnakalli og síðan kynntu Guðrún Hrefna, Stefán Rafnar og Nína  skólastarfið. Skólinn er 40 ára og er fyrsti fjölbrautaskóli landsins. Námsbrautir skólans falla undir kennslusvið bóknáms, listnáms, verknáms og stuðningsnáms. Bóknámsbrautir eru Félagsvísindabraut, Hugvísindabraut, Íþróttabraut, Náttúruvísindabraut og Tölvubraut. Verknámsbrautir eru Húsasmiðabraut, Rafvirkjabraut, Sjúkraliðabraut og Snyrtibraut. Listnámsbrautir eru Fata- og textílbraut, Nýsköpunarbraut og Myndlistarbraut. Undirbúnings- og sérnámsbrautir eru Almenn braut, Framhaldsskólabraut og Starfsbraut. Kennsla fer fram bæði í dag- og kvöldskóla 

Farin var kynnisferð um skólann sem er rúmgóður, bjartur og ákaflega snyrtilegur. Litið var inn í ýmsar deildir, sem voru vel búnar tækjum og tólum til kennslu í hinum ýmsu verklegu greinum.  Agi og hreinlæti er greinilega  í fyrirrúmi  á snyrtibrautinni sem Nína fagstjóri kynnti. Litið var inn í kennslustofur í húsasmiða- og rafvirkjadeild og textildeild. Staldrað við í kennslustund á sjúkraliðabraut og sýndi kennarinn okkur verklegu aðstöðuna. Linda Wanders verkefnisstjóri  FabLab Reykjavíkur útskýrði  námið og sýndi ótal tæki og tölvur sem hægt er að láta vinna alls konar flókin verk. Fab Lab er stytting á enska orðinu fabrication laboratory - á íslensku stafræn smiðja - sem er þátttakandi í alþjóðlegu Fab Lab samstarfsneti.

Eftir mjög áhugaverða skoðunarferð um skólann og deildir hans  hófst fundurinn á ný. Kveikt var á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og síðan var snæddur ljúfengur málsverður  sem kokkur skólans  matreiddi fyrir hópinn. Kaffi og súkkulaði með logoi skólans FB á umbúðunum. 

Undir borðhaldi bað formaður fundarkonur að koma með hugmyndir um fundaefni næsta vetrar. Erna Jessen sagði að það væri áhugavert  hvernig HB Grandi stæði að íslenskukennslu fyrir starfsmenn. María Sólveig nefndi menntastefnu hjá fyrirtækjum.  Talað var um VIRK endurhæfingu og Ingibjörg Ósk nefndi að Tækniskólinn væri með sérdeild fyrir duglega nemendur.

Formaður kom með hugmynd um að stundum mættu félagsfundir vera  spjallfundir á rólegri nótum og eins mætti ræða nánar um félagsfundina. Ásta sagði að félagskonur þyrftu að kynnast betur innbyrðis og formaður lagði áherslu á að halda persónulegum tengslum. Það kom fram á fundinum að kynnisfundir víðs vegar eins og undanfarið þykja mjög fræðandi og skemmtilegir.  

Formaður talaði um inntöku nýrra félaga  og ástæða væri til að huga að samsetningu deildarinnar varðandi starfssvið félagskvenna af því tilefni.  Hanna skólameistari í Háaleitisskóla hefur  verið samþykkt á félagsfundi, en ekki verið tekin inn enn þá. 

Umræða varð um mætingar og leiðir til að auka þær.  Næsta skref væri að huga að nýjum félögum og komu nokkrar hugmyndir fram. Einnig um hvar deildin vildi vera  í alþjóða samtökunum og að hvaða markmiðum ætti að stefna. 

Fleira ekki tekið fyrir.

Fundi lauk kl. 19.40

E.P.

 


Síðast uppfært 20. feb 2018