245. fundurinn
Aðalfundur Alfadeildar DKG (254. fundurinn) var haldinn 3. maí 2018 að Eiðismýri 30, Seltjarnarnesi, kl. 17. 15 félagskonur mættar.
Formaðurinn Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir setti fundinn, Guðríður Sigurðardóttir kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Elsa Petersen var með nafnakall og las fundargerð síðasta fundar sem var 7. mars sl.
Síðan hófust hefðbundin aðalfundarstörf.
Formaður las skýrslu stjórnar. Hún fór m.a. yfir starfsferla félagskvenna og ræddi um fjölgun í deildinni. Æskilegt er að fjölga yngri félögum.
Ragnhildur Guðjónsdóttir, gjaldkeri, fór yfir reikninga deildarinnar sem voru samþykktir athugasemdalaust.
Formaður kom með uppástungu um óbreytt félagsgjöld, kr. 12.000, og var það samþykkt.
Þá var gengið til kosninga á nýrri stjórn Alfadeildar. Steinunn Ármannsdóttir formaður uppstillinganefndar las upp tillögu nefndarinnar um nýja stjórn.
Kristín Jóhannesdóttir, formaður, Hafdís Bára Kristmundsdóttir, Hrund Logadóttir, Erna Jessen og Steinunn Ármannsdóttir.
Þær voru samþykktar af öllum öðrum fundarkonum með handauppréttingu og lófaklappi.
Kristín Jóhannesdóttir nýkjörinn formaður þakkaði traustið og einnig þakkaði hún fráfarandi stjórn fyrir störf hennar og afhenti fráfarandi stjórnarkonum rauða rós.
ÖNNUR MÁL
Formaður minnti á Vorþingið á Egilsstöðum 5. maí og kom fram að 4 félagskonur ætluðu að sækja þingið. Eins minnti hún á Evrópuþingið sem verður haldinn í Reykjavík 25.-26. júlí 2019 og að enn vantaði konur í hinar ýmsu undirbúningsnefndir og hvatti til þátttöku.
Sjöfn Sigurbjörnsdóttir þakkaði Ingibjörgu Elsu formanni fyrir störf hennar og sérstaklega fyrir að hafa alltaf haft samband við eldri félaga. Einnig kom hún inn á störf í nefndum á vegum DKG erlendis. Hún sagðist sjálf hafa lært mikið af DKG konum með störfum sínum í alþjóðanefndum og setu á fundum í Evrópu og Bandaríkjunum.
Sigríður Ragna Sigurðardóttir sagðist hafa verið í síðustu uppstillinganefnd og var ánægð með störf þeirrar stjórnar og þakkaði henni fyrir vel unnin störf.
Kristín Jóhannesdóttir var með ORÐ TIL UMHUGSUNAR sem voru innihaldsrík og skemmtileg. En hún lagði út af Kanadagæsinni sem hefur viðkomu á Íslandi á leið til varpstöðva sinna.
Fundi slitið og að lokum var boðið upp á léttar veitingar í boði deildarinnar. E.P.
Síðast uppfært 30. maí 2018