Aðalfundur 18. maí 2022

18. mai 2022

Aðalfundur Alfadeildar DKD var haldinn á heimili Hrundar í Skipholtinu en þaðan er einstaklega gott útsýni yfir borgina og Reykjanesið þar sem jarðskjálftahrina stóð yfir þessa dagana.

Síðastliðið haust hafði stjórnin boðað aðra dagsetningu fyrir aðalfund og til stóð að halda hann utanbæjar. En dagsetningin rakst á við vorþing samtakanna og formaðurinn var að auki laskaður eftir beinbrot og ekki heppilegt að leggja í langferð með hann. Því var bæði fundartíma og staðsetningu breytt með nokkrum fyrirvara.

14 konur mættu til fundarins, skálað var í freyðivíni við komu og „frelsinu“ til fundahalda og vorinu fagnað.

María Sólveig bauð fundarmenn velkomna og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Hún setti fundinn og  tók að sér fundarstjórn og Kristín var fundarritari.

Síðan hófust hefðbundin aðalfundarstörf:

  • Formaður flutti skýrslu stjórnar eða annál frá hausti 2020 fram á vor 2022. Fram kom að Covid – skrattinn hafði sett mikinn svip á félagsstarfið þennan tíma og féllu margar fyrirhugaðar samkomur niður eða voru haldnar í fjarfundarformi.
  • Fjármálin voru næst á dagskrá en Árný Inga, gjaldkeri hafði sent reikningsyfirlit til félagsmanna í tölvupósti svo tækifæri hafði gefist til að kynna sé stöðu fjármála fyrir fundinn. Reikningar voru samþykktir einróma. Eign er um 290.000 auk þess sem enn eiga eftir að koma inn félagsgjöld sem verið er að rukka inn þessa dagana. Árný Inga mun ganga endanlega frá reikningum áður en hún lætur af störfum og kemur þeim í hendur nýs gjaldkera. Í vetur höfðu þær Árný Inga og Erna formaður gengið í það að fá kennitölu fyrir Alfa deildina og stofna bankareikning og fer nú innheimta félagsgjalda fram í gegnum heimabanka. Fundarmenn lýstu almennt yfir mikilli ánægju með þetta frumkvæði og tilhögun.
  • Þá var kosning nýrrar stjórnar deildarinnar á dagskrá. Sigrún Klara hafði starfað sem „uppstillingarnefnd“ og las upp tillögu að næstu stjórn: Hrund Logadóttir formaður. Fjóla María Lárusdóttir, Ragnhildur Björg Guðjónsdóttir og Málfríður Þórarinsdóttir meðstjórnendur. Tillagan var samþykkt einróma. Skv. reglum samtakanna mun stjórnin síðan velja sér nýjan gjaldkera en hann er ekki kosinn. María Sólveig færði Sigrúnu Klöru rauða rós með þakklæti fyrir vasklega unnin störf og lagt var til að Sigrún yrði æviráðin í uppstillingarnefnd vegna framgöngu sinnar en hún afþakkaði kjörið! María Sólveig færði einnig Hrund, nýjum formanni rauða rós. Klappað var bæði fyrir nýrri stjórn sem og þeirri fráfarandi og henni þökkuð störf sín.
  • Önnur mál voru næst á dagskrá:

Sigrún Klara kvaddi sér hljóðs til að vekja athygli á nauðsyn þess að fá ungar konur inn í deildina og hvetja félagskonur til að vinna markvisst að því. Hún gerði grein fyrir athugun sinni á aldri okkar sem leiddi í ljós þá staðreynd að 75% félaganna, 15 konur eru fæddar á árunum ´40 - ´59. 3 konur eru eldri en það og aðeins 4 yngri, þar af aðeins ein fædd eftir 1970.

Kristín Jóhannesdóttir bryddaði upp á umræðu um gildi hinna ýmsu „næla“ og hverjir eigi að bera þær. Ingibjörg Elsa sagði frá nýjum reglum samtakanna en skv. þeim afhendir hver formaður nýjum formanni formannsnælu þ.e. hún á ganga á milli manna. Sýndist sitt hverjum um „næluvesenið!“ Ákveðið var að fela nýrri stjórn að fá reglurnar á hreint og skapa deildinni hefð um nælukaup og flutning næla milli manna.

Þá var rætt um mikilvægi þess að hafa lista yfir félagskonur réttan bæði á síðu deildarinnar og síðu samtakanna. Ákveðið var að fela nýrri stjórn að ganga í það mál að koma listanum í rétt horf og koma honum til umsjónarmanna beggja síðanna en fráfarandi stórn hafði að nokkru hreinsað til í félagatalinu með því að taka burt þær konur sem ekki hafa greitt félagsgjöld undanfarið og/eða gengið úr samtökunum.

Erna formaður minntist Sigríðar Kristjánsdóttur, sem nýlega féll frá á 97. aldursári. Sigríður var stofnfélagi í Alfadeild og sagði Erna frá góðum minningum sínum um Sigríði og tengsl hennar við deildina. Erna las upp ljóðið Á Rauðsgili eftir Jón Helgason sem var í uppáháldi hjá Sigríði.

Erna las jafnframt upp ljóðið Berjalyngið eftir Hannes Pétursson sem minnti hana á Sigríði. Sjöfn fékk orðið og minnstist Sigríðar með fallegum orðum.

Þá var dagskrá tæmd, fyllt var á glösin og boðið upp á snittur og sætindi með drykknum.

Kristín Axelsdóttir, fundarritari. 


Síðast uppfært 07. okt 2022