Fundargerð 1. nóvember 2023
Fundargerð 1. nóvember 2023
Fundur Alfadeildar 1. nóvember 2023
Annar félagsfundur Alfadeildarinnar á haustönn 2023 var haldinn í Tækniskólanum í Reykjavík og hófst kl. 15:00. 20 félagskonur voru mættar. Ólafur Sveinn Jóhannesson deildarstjóri markaðs- og kynningardeildar tók á móti hópnum en síðan tók Hildur Ingvarsdóttir skólameistari við með kynningu um skólann. Tækniskólinn var stofnaður árið 2008 þegar Iðnskólinn í Reykjavík og Fjöltækniskólinn (Stýrimannaskólinn og Vélskólinn) sameinuðust. Tækniskólinn tók yfir rekstur og hlutverki Iðnskólans í Hafnarfirði með gildistöku frá og með 1. ágúst 2015. Tækniskólinn er stærsti framhaldsskóli landsins með yfir 3000 nemendur. Þar af eru um 2300 í dagskóla. Starfsmenn eru tæplega 300 og skólinn er staðsettur í 8 byggingum á fimm stöðum. Einkunnarorð skólans eru alúð framsækni og fjölbreytileiki. Kennsla fer að mestu fram á framhaldsskólastigi (2. og 3. þrep) en sumt er á 4. þrepi þ.e. á háskólastigi. Undirskólar Tækniskólans eru sjö; byggingatækniskólinn, endurmenntunarskólinn, hönnunar- og handverksskólinn, raftækniskólinn, skipsstjórnarskólinn, tæknimenntaskólinn, upplýsingatækniskólinn og véltækniskólinn. Mikil fjölgun hefur orðið í umsóknum í iðnnám á síðustu árum, sérstaklega í raftækni og byggingatækni og getur skólinn ekki tekið á móti öllum. Vel hefur gengið að manna kennarastöður, líka í iðnnáminu. Talsverður fjöldi nemenda 200- 300 er með annað móðurmál en íslensku og er brugðist við því með námi á íslenskubrautinni sem hefur mælst mjög vel fyrir. Annað nýmæli er nám í jarðvirkjun þar sem nemendur eru m.a. í hermum í jarðvinnu. Fram kom í máli Hildar að ruglings gætir stundum með nafn Tækniskólans sem sumir halda að sé Tækniskóli Íslands sem var á háskólastigi og sameinaðist Háskólanum í Reykjavík undir merkjum þess síðarnefnda 2005. Félagsskonur höfðu um margt að spyrja, m.a. hvernig gengi að koma nemendum á samning og er það leyst af skólanum ef ekki tekst að koma fólki á samning hjá meistara. Jafnframt var rætt um aðgengi að háskólanámi en ótrúlega oft mæta nemendur með iðnnám hindrunum við að sækja um háskólanám. Fjölbreytileiki í skólastarfi var líka til umræðu og margt fleira bar á góma. Tækniskólinn bauð upp á kaffi, kleinur og ávexti meðan á fundi stóð og að loknu erindi Hildar gafst Alfa-konum færi á að ganga um skólann.
Formaður afhenti Hildi og Ólafi rauðu rósina sem þakklætisvott fyrir þeirra framlag.
Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 17.00.
Ritari:Málfríður Þórarinsdóttir
Síðast uppfært 24. feb 2025