Fundargerð 12. janúar 2023
Fundur 12. janúar 2023
Fyrsti félagsfundur Alfadeildarinnar á nýju ári var haldinn 12. janúar 2023 hjá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins, Skipholti 50b Reykjavík. Fundurinn hófst klukkan 17 og voru 15 félagskonur mættar.
Fjóla María Lárusdóttir þróunarstjóri Fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins tók á móti hópnum.
Hrund Logadóttir formaður setti fundinn og bauð Fjólu Maríu að kveikja á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Fjóla María hélt síðan kynningu um starfsemi Fræðslumiðstöðvarinnar en hún er gjarnan nefnd fimmta menntastoðin. Markhópur stofununarinnar eru þeir sem ekki hafa lokið framhaldsskólanámi og markmiðið er að aðstoða hópinn við að afla sér menntunar og á þann hátt að auka hæfni þeirra í atvinnulífinu. Samstarfsaðilar eru aðilar atvinnulífsins, símenntunarstöðvar innanlands, ráðuneyti og einnig er samstarf við erlenda aðila. Fram kom í máli Fjólu Maríu að það vantar fólk með starfsmenntun á vinnumarkað. Til þess að fjölga fólki með slíka menntun hafa verið þróaðar hæfnigreiningar sem hafa gefist mjög vel þar sem aðkoma atvinnulífsins er hluti af ferlinu. Markmiðið með hæfnigreiningum er að skilgreina lykilhæfni starfa í gegnum starfasprófil sem er grunnur að uppbyggingu náms eða raunfærnimats. Á þann hátt verða hæfnikröfur starfa sýnilegar, og geta stutt við ráðningar og starfsþróun. Unnið er með hæfniramma um íslenska menntun til að raða starfshæfni og sértækri hæfni á rétt þrep innan rammans. Þess má geta að árið 2021 fóru 580 einstaklingar í gegnum raunfærnimat og meðalfjöldi metinna eininga var 55, en allt að 70 í iðngreinum. Ráðgjöf um nám og störf er stór þáttur í starfi Fræðslumiðstöðvarinnar og nýttu 8600 einstaklingar sér þá þjónustu á árinu. Fjóla vakti einnig athygli á heimasíðunni Næsta skref sem hefur að geyma upplýsingar um störf og nám og er mikið sótt.
Margt fleira áhugavert kom fram í máli Fjólu og var gerður góður rómur að erindi hennar.
Að loknu erindi Fjólu voru umræður um næstu fundi deildarinnar en næsti fundur verður 28. febrúar í Fjölbrautaskólanum í Ármúla. Félagskonur eru hvattar til að taka með sér gesti á þann viðburð.
Margrét Gunnarsdóttir Schram var heiðruð í tilefni 90 ára afmælis þann 31. des. s.l. Hrund formaður afhenti henni veglegan blómvönd til að minnast tímamótanna.
Jóna Benediktsdóttir minnti á erindi frá uppstillingarnefnd um meðlimi í stjórn landssamtakanna. Frestur rennur út þann 20. janúar.
Fleira gerðist ekki og var fundi slitið klukkan 18.30.
Ritari: Málfríður Þórarinsdóttir
Síðast uppfært 22. sep 2023