Fundargerð 15. febrúar 2024
Fundur Alfadeildar 15. febrúar 2024
Febrúar fundur Alfa deildar var heimsókn í Eddu – hús íslenskunnar og tóku 22 félagskonur þátt. Á móti félagskonum tók Svanhildur Óskarsdóttir en hún hefur starfað hjá stofnuninni og forvera hennar, frá árinu 1999. Hún gegnir starfi rannsóknarprófessors á menningarsviði og vinnur að rannsóknum og útgáfum fornra texta. Hún er í starfshópi um forvörslu Flateyjarbókar, í bókasafnsnefnd stofnunarinnar og í sýningarnefnd opnunarsýningar í Eddu. Svanhildur er einnig varamaður í stjórn Miðaldastofu Háskóla Íslands. Svanhildur fór fyrir hópnum um húsið en í nyrðri hluta þess er Stofnun Árna Magnússonar en starfsemi Íslensku- og menningardeildar Háskóla Íslands er að hluta í syðri hluta hússins. Neðst í miðju byggingarinnar eru handritin og dýrmæt gögn varðveitt en þar fyrir ofan er bókasafnið. Inn í miðju hússins tengist svo margþætt starfsemi, kennslustofur,vinnustofur og lesstofa. Sérstaklega vakti garðsvæði á efri hæðum byggingarinnar athygli félagskvenna en það svæði kallast nú klausturgarðurinn. Sérstaka athygli vakti samskiptasáttmáli Árnastofnunar en með honum vill starfsfólk skapa starfsumhverfi og menningu þar sem starfsfólk er öruggt og líður vel. Er stefnunni m.a. fylgt eftir með markvissum atvikaskráningum og ábendingum um atvik, sem miða að því að læra af og fyrirbyggja endurtekningu. Einkunnarorð sáttmálans eru virðing, umburðarlyndi, hlýja, léttleiki og húmor og traust.
Ritari.Hrund Logadóttir
Síðast uppfært 24. feb 2025