Fundargerð 2. október 2024

Fundur Alfadeildar 2.október 2024

Fyrsti fundur haustsins 2024 var haldinn í Bandaríska sendiráðinu að Engjateigi 7 og hófst kl. 14.30. Tuttugu og þrjár félagskonur mættu á fundinn.

Í sendiráðinu tóku á móti okkur Erin Sawyer, varamaður sendiherra, Joanie Simon, political officer og Rebecca Doffing, arctic watcher. Auk þeirra sátu systir Erin og móðir hennar fundinn sem gestir. Auðveldara reyndist að fara í gegnum öryggisráðstafanir sendiráðsins en ætlað var. Alfakonum var fylgt inn í aðalbygginguna og boðið til sætis í móttökusal sendiherrans.

Málfríður formaður alfadeildar setti fundinn og kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Sendiráðið bauð fundarkonum kaffi og smákökur. Erin Sawyer bað fyrir afar góða kveðju frá sendiherra Bandaríkjanna, Carrin Patman, sem því miður gat ekki tekið á móti okkur vegna annarra verkefna á landsbyggðinni. Carrin óskaði eftir því að það kæmi fram við Alfakonur að móðir hennar hafi sjálf verið félagi í Delta Kappa Gamma í Texas og því þætti henni afar vænt um heimsóknina frá okkur. Erin, Joanie og Rebecca héldu áhugaverða kynningu um störf þeirra í ráðuneytinu. Sagt var frá vörumerkjum sem Bandaríkjamenn flytja inn á íslenskan markað svo og íslenskum vörumerkjum sem flutt eru til Bandaríkjanna. Rebecca tjáði okkur að starfsheitið Arctic Watcher væri eina slíka embættið í sendiráði Bandaríkjanna í heiminum eins og stendur. Þær ræddu einnig mikilvægi Íslands sem samráðsvettvangs hagaðila um norðurslóðir. Erin sagði okkur frá stjórnsýslunni í sendiráðinu og upplýsti okkur m.a. um muninn á pólitískt skipuðum embættismönnum og hlutlausum embættismönnum. Carrin Patman er t.d. pólitískt skipuð af núverandi forseta Bandaríkjanna, Joe Biden. Erin sjálf er ekki í pólítísku embætti og heldur því starfi sínu út ráðningartímabilið óháð því hver er forseti. Erin sagði einnig frá öryggisráðstöfunum í sendiráðum Bandaríkjanna og hvernig þær hefðu verið hertar í áranna rás.

Eftir góðar kynningar og margar spurningar voru Alfakonur leystar út með gjöf frá sendiherra Bandaríkjanna. Um var að ræða kryddblöndu frá heimahögum Carrin Patman í Texas.

Formaður afhenti fulltrúum sendiráðsins rauðu rósina sem þakklætisvott fyrir þeirra framlag.

Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 16.30

Ritari: Nanna Kristjana Traustadóttir

 


Síðast uppfært 24. feb 2025