Fundargerð 25. maí 2023
Fundur 25. maí 2023
Fjórði félagsfundur Alfadeildarinnar á vorönn 2023 var haldinn í Ráðhúsinu í Reykjavík og hófst kl. 17.00. Tuttugu félagskonur voru mættar. Helga Laxdal skrifstofustjóri skrifstofu borgarstjóra og borgarritara og Marta Guðjónsdóttir borgarfulltrúi tóku á móti okkur og var konum boðið í sal borgarstjórnar. Þar sagði Helga okkur ýmislegt um húsið, byggingu þess, en það var tekið í notkun 1994. Hún kom líka inn á breytingar sem gerðar hefðu verið í kjölfar þess að borgarfulltrúum var fjölgað úr fimmtán í tuttugu og þrjá. Smíða þurfti ný borð en í anda þessa gamla og hefur það tekist vel. Ljóst er að húsið er orðið barn síns tíma og ýmis tæknimál t.d. flókin. Vakin var athygli okkar á listaverki á einum veggnum og fram kom að mosinn utanhúss dafnar ennþá vel.
Eftir góða greinargerð og margar spurningar var haldið í vistarverur borgarráðs. Þar kveikti Raggý á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Síðan var boðið upp á léttar veitingar. Sjöfn Sigurbjörnsdóttir var með Orð til umhugsunar og sagði að það væru 45 ár síðan hún tók sæti í borgarstjórn og rifjaði í því sambandi ýmislegt upp frá þeim tíma. Hún gerði svo að umtalsefni veru sína í DKG og hvað það hefði gefið sér mikið að vera í samtökunum, kynnast mörgum þeim ágætu konum sem þar eru og hve ómetanlegt vináttan sem stofnað hefði verið til væri sér.
Að loknum orðum Sjafnar,sem góður rómur var gerður að, greindu Hrund og Malla frá því helsta sem fram fór á Landssambandsþingi samtakanna á Hótel Örk dagana 13. og 14. maí s.l. Þar voru flutt mörg áhugaverð erindi á laugardeginum t.d. um kennaramenntun, skólaþróun, skóla framtíðarinnar og gervigreind svo eitthvað sé nefnt. Þátttakendum varð tíðrætt um gervigreindina og Jóna var ekki lengi að nýta sér hana sem skemmtiatriði frá Alfadeildinni um kvöldið og annað skemmtiatriði deildarinnar var upplestur Ingibjargar Elsu á ljóði eftir Arndísi Þórarinsdóttur. Á sunnudeginum voru svo aðalfundarstörf og ávarp frá forseta Evrópudeildarinnar. Velheppnað þing í alla staði.
Hrund kom inn á að ekki hefðu verið gerðar neinar athugasemdir við þær sjö konur sem ætlunin er að taka inn í deildina og verður þeim nú boðin þátttaka og þær svo í fyllingu tímans teknar inn skv. öllum siðum og reglum.
Að lokum var rætt um starfið næsta vetur og hvað konur vildu gera. Fram kom hugmynd um að heimsækja hús Vigdísar og Eddu, nýtt hús íslenskunnar.
Formaður afhenti Helgu, Mörtu og Sjöfn rauðu rósina sem þakklætisvott fyrir þeirra framlag.
Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 19.00
Ritari: Málfríður Þórarinsdóttir
Síðast uppfært 22. sep 2023