Fundargerð 25. mars 2025

Fundur Alfadeildar 25. mars 2025 

Annar fundur ársins 2025 var haldinn í Mími og hófst kl. 16.00. Fjórtán félagskonur mættu á fundinn og einn gestur.

Þar tóku á móti okkur Sólveig Hildur Björnsdóttir framkvæmdastjóri, Þórunn Grétarsdóttir fagstjóri námsbrauta og þróunar, Vanessa Monika Isenmann verkefnastjóri ásamt Kristínu Erlu Þráinsdóttur fagstjóra ráðgjafar og raunfærnimats. Girnilegar veitingar voru í boði Mímis og gladdi það mjög félagskonur.

Sólveig Hildur hóf fundinn með ávarpi og kynningu á sögu Mímis. Það er skemmtileg tenging alfadeildar við Mími, en félagskona okkar Ingibjörg Elsa var fyrsti framkvæmdastjóri félagsins og bætti ýmsum fróðleiksmolum inn í kynningu á sögu Mímis. Þar á eftir kynnti Vanessa íslenskukennslu fyrir fólk með erlendan bakgrunn. Hún upplýsti félagskonur um stigskiptingu íslenskukennslunnar, kennsluefni og fjölbreytt úrval fræðslu. Kristín Erla tók við kynningunni og kynnti fagbréf atvinnulífsins fyrir félagskonum, tækifærin í fagbréfum, uppruna þeirra og hvernig tekist hefur að yfirfæra fagbréfin á ólík störf.

Málfríður formaður Alfadeildar ávarpaði að kynningum loknum fundarmenn og þakkaði fulltrúum Mímis fyrir góðar móttökur og frábærar kynningar. Formaður afhenti þeim öllum fjórum rauðu rósina sem þakklætisvott fyrir þeirra framlag. Formaður ítrekaði jafnframt að í stað fleiri viðburða á vordagskrá Alfadeildar eru allar konur deildarinnar eindregið hvattar til þátttöku í hátíðarrástefnunni 10.-11.maí.

Að lokum óskuðu Mímiskonur eftir því að sýna félagskonum húsakynni og lögðu áherslu á það að aðlaðandi lærdómsumhverfi væri mikilvægt fyrir þeirra nemendur. Félagskonur gengu um húsnæðið sem er afar notalega innréttað og áberandi metnaður í því að skapa heimilislegt og afslappað umhverfi.  


Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 17.50

Ritari: Nanna Kristjana Traustadóttir

 


Síðast uppfært 28. apr 2025