Fundargerð 28. apríl 2023

Fundur 28. apríl 2023

Þriðji félagsfundur Alfadeildar á vorönn var haldinn þann 28.apríl síðastliðinn. Þann dag hittust  14 félagskonur í húsakynnum Keilis á Ásbrú í Reykjanesbæ. Keilir er miðstöð  vísinda, fræða og atvinnulífs sem hefur það að markmiði að byggja upp námsmannasamfélag á Suðurnesjum. Þar er boðið upp á vandað nám með áherslu á nýstárlega kennsluhætti og fyrsta flokks aðstöðu. Nanna Kristjana Traustadóttir, framkvæmdastjóri Keilis tók á móti Alfa konum og kynnti þeim starfsemi setursins. Fjórir skólar eru undir regnhlíf Keilis:  Háskólabrú, Flugakademía Íslands,  Heilsuakademían og Menntaskólinn á Ásbrú. Háskólabrúin er aðfararnám í samvinnu við Háskóla Íslands þar sem boðið er upp á undirbúning fyrir háskólanám. Langflestir nemendur eru í fjarnámi en einn hópur er í staðarnámi. Innan heilsuakdemíunnar er m.a. boðið upp á fótaaðgerðafræði sem er lögverndað starfsheiti á heilbrigðissviði og menntaskólinn undirbýr nemendur undir stúdentspróf í tölvuleikjagerð. Fyrir utan kjarnagreinar í íslensku, stærðfræði, ensku og dönsku eru áfangar í tölvuleikjagerð og frumkvöðlafræði svo eitthvað sé nefnt. Nanna lagði áherslu á að ekki væri nauðsynlegt að hafa spilað tölvuleiki til að komast inn á brautina. Margt fleira er í boði hjá Keili og kom það félagskonum nokkuð á óvart að þar er boðið upp á undirbúningsnámskeið fyrir inntökupróf í læknadeild Háskóla Íslands (læknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði)  og var það fyrst haldið á vordögum árið 2003. Kennsluefnið er uppfært árlega í samræmi við áherslur fyrri inntökuprófa. Góður rómur var gerður að erindi Nönnu og var henni afhent rauð rós í þakklætisskyni.  Einnig var farið í vettvangsferð um skólann þar sem margvísleg aðstaða skólans var skoðuð. Keilir er til húsa þar sem áður var high school á tímum bandaríska hersins á Íslandi. Að lokinni kynningu var ferðinni heitið á Marriot hótelið í Reykjanesbæ þar sem snæddur var kvöldmatur. Vel var tekið á móti hópnum  og áttu félagskonur saman góða stund yfir ljómandi veitingum, bleikju eða lambakórónu og súkkulaðiköku með pistasíuís. 

 Ritari: Málfríður Þórarinsdóttir


Síðast uppfært 22. sep 2023