Fundargerð 29. október 2024
Fundur Alfadeildar 29.október 2024
Annar fundur haustsins 2024 var haldinn í Menntaskólanum við Hamrahlíð og hófst kl. 16.30. Fjórtán félagskonur mættu á fundinn.
Þar tóku á móti okkur Íris Lilja Ragnarsdóttir námstjóri tungumála og Geir Finnsson enskukennari við skólann og buðu okkur til sætis í kennslustofu nr. 11 í MH.
Málfríður formaður Alfadeildar setti fundinn og bað Nönnu K. Traustadóttur ritara stjórnar um að kveikja á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Erna Jessen fór með Orð til umhugsunar og ræddi þar stöðu tungumálakennslu með sérstakri áherslu á dönskukennslu í menntakerfinu. Erna var m.a. sjálf dönskukennari til fjölda ára, á stóra fjölskyldu búsetta í Danmörku og gift dönskum manni. Hún fór yfir þær breytingar í áherslum dönskukennslu í grunn- og framhaldsskóla sem innleiddar hafa verið á þessari öld og leitt til skerðingar í dönskukennslu - og tungumálakennslu heilt yfir. Erna ræddi af miklu öryggi og þekkingu mikilvægi tungumálakennslu og afleidd áhrif þess að skerða möguleika ungmenna á námi á því sviði.
Eftir góð og umhugsunarverð orð Ernu var Alfakonum boðið kaffi og lagkaka í boði MH. Geir Finnssyni enskukennara var í kjölfarið gefið orðið. Geir er ungur framhaldsskólakennari með sérhæfingu í enskukennslu. Hann hefur upplifað frá fyrstu dögum í kennslu innreið gervigreindar í samfélag okkar allra og ekki síst í kennsluumhverfi í framhaldsskólum. Geir hefur í félagi með kollegum haft frumkvæmi að málstofum og kynningum um notkun gervigreindar í skólastarfi um árabil. Geir fræddi Alfakonur um skilgreiningu gervigreindar, hann tók dæmi um það hvað gervigreindin getur gert og hvaða forrit það eru helst sem aðilar nota til þess. Í kjölfarið upplýsti hann um aðferðir til þess að nýta gervigreindina í kennslustofunni með nemendum, hvað ber að varast og hverjir eru möguleikarnir. Hann lagði ríka áherslu á að vinna verður að notkun gervigreindar í samráði við nemendur hverju sinni m.t.t. þess að gervigreindin verði til framdráttar nemenda. Gervigreindin hefur samkvæmt Geir mikla möguleika sem stuðningur og hugmyndabanki, en mesta hættan snýr að því þegar fólk - ungir sem aldnir - fá hana til þess að gera vinnuna fyrir sig á sviðum sem þeir e.t.v. eru ekki sérfróðir um. Erindi Geirs var sett fram á fræðandi og skemmtilegan hátt og Alfakonur báru upp fjölda spurninga um notkun gervigreindar.
Að kynningu lokinni þakkaði Málfríður Írisi og Geir fyrir afar góðar móttökur. Íris skilaði góðri kveðju frá Steini Jóhannssyni rektor til Alfakvenna, en hann var kallaður til starfa í samninganefnd vegna kjarasamninga kennara og gat því ekki tekið á móti hópnum eins og til stóð.
Formaður afhenti Írisi, Geir og Ernu rauðu rósina sem þakklætisvott fyrir þeirra framlag.
Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 18.00
Ritari: Nanna Kristjana Traustadóttir
Síðast uppfært 24. feb 2025