Fundargerð 29.janúar 2025
Fundur Alfadeildar 29.janúar 2025
Fyrsti fundur ársins 2025 var haldinn í Fjölbrautaskólanum við Ármúla og hófst kl. 16.30. Fjórtán félagskonur mættu á fundinn.
Þar tók á móti okkur Aðalheiður Dagmar Matthíasdóttir kennslustjóri sjúkraliðabrautar og Alfakona og bauð okkur velkomnar á kaffistofu starfsmanna í FÁ.
Málfríður formaður Alfadeildar setti fundinn og bað Raggý Guðjónsdóttur um að kveikja á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Hrönn Baldursdóttir fór með Orð til umhugsunar og ræddi þar kynjuð orð í tungumálinu okkar. Hrönn sagðist hugsi yfir orðinu Sveinspróf. Orðið vísar beint til þess tíma þegar eingöngu karlmenn tóku sveinspróf. Orðið er rótgróið og Hrönn upplifir ekki mikla umræðu um viðlíka orð sem eru kynjuð og velti fyrir sér hvor það haldi konum ósýnilegum. Það virðist almennt að konur taki upp rótgróin starfsheiti sem vísa til karla, en sjaldgæft að það sé á hinn bóginn almennt að karlmenn taki upp rótgróin starfsheiti sem vísa til kvenna - þess í stað er búið til nýtt heiti. Formaður afhenti Hrönn rauðu rósina sem þakklætisvott fyrir hennar framlag. Hrönn brá sér í kjölfarið af fundi vegna annarra skuldbindinga.
Eftir hugvekju Hrannar var Alfakonum boðið kaffi og kaka. Á meðan fundarkonur gæddu sér á ostaköku þá upplýsti formaður Alfadeildar um aðalefni fundar sem var umræður um afmælisár samtakanna DKG á Íslandi. Málfríður fór jafnframt yfir vordagskrá Alfadeildar. 25.mars er fræðslufundur í Mími. Í stað seinni fundar Alfadeildar eru allar konur deildarinnar eindregið hvattar til þátttöku í hátíðarrástefnunni, hátíðarkvöldverðinum og landssambandsþinginu þann 10.- 11. maí n.k. Í tilefni afmælisins - sem einnig er afmæli Alfadeildar kom fram kom að Eygló Björnsdóttir hafi tekið að sér að skanna gamlar myndir. Umræður voru um að fara saman út að borða og vísað var til fyrri hátíðarkvöldverðar á Hótel Holti um árið. Skoðað verður hvort það er möguleiki.
Fundarkonum var skipt í þrjá umræðuhópa sem settust niður og ræddu annars vegar afmælisviðburð og hins vegar samfélagsverkefni í tilefni afmælisársins. Fulltrúar allra hópa kynntu sínar hugmyndir. Helstu niðurstöður eru eftirfarandi: Samfélagsverkefni
- Safna fyrir gerð myndbanda fyrir samfélagsmiðla t.d. TikTok þar sem lögð er áhersla á að efla félagsgreind og samskiptafærni ungs fólks.
- Stofna sjóð til að styrkja ákveðið málefni í tilefni afmælisins. Félagsmenn virkja tengsl til að fá styrki. Ákveða í sameiningu hver þarf á styrknum að halda. - Ath með tengsl Alfakvenna til samfélagsverkefna m.t.t. vinnuframlags. T.d. vegna Unicef – School of Africa. Afmælisverkefni - Bjóða forseta Íslands að gerast heiðursfélagi í DKG. Einhugur var um þetta á fundinum og var þessu vísað til stjórnar.
- Heimsókn á Bessastaði til forseta - Hafa gaman með ferð saman út að borða, etv skemmtiatriði. Mögulega bjóða konum sem hafa verið í deildinni. E-n til að spila fyrir okkur. Mögulegir staðir Nauthóll, Grand Hótel. Önnur mál sem rædd voru og komu fram í kjölfar umræðuhópa:
· Minnt var á að 1.mars er umsóknarfrestur hjá DKG í íslenska námsstyrkjasjóðinn, Íslenski námsstyrkjasjóðurinn | Delta-Kappa-Gamma. Félag kvenna í fræðslustörfum.
· Brighton ráðstefna þar sem Bryndís Jóna Jónsdóttir er frummælandi verður kynnt nánar í tölvupósti. Félagskonur hvattar til þess að fara á ráðstefnuna.
· Ingibjörg Elsa ávarpaði hópinn og hvatti allar konur til þess að gefa sig fram í stjórnarstarf á landsvísu og segir það mjög gefandi. Áhugasamar konur geta fengið nánari upplýsingar hjá Ingibjörgu Elsu eða Málfriði.
· Frestur vegna lagabreytinga er að renna út, en breytingar eru núna að fara í gegn frá síðasta alþjóðaþingi.
· Sjöfn í ritnefnd óskar eftir góðum sögum.
Að umræðum loknum þakkaði Málfríður Aðalheiði Dagmar fyrir afar góðar móttökur. Formaður afhenti Aðalheiði rauðu rósina sem þakklætisvott fyrir hennar framlag.
Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 18.15
Ritari: Nanna Kristjana Traustadóttir
Síðast uppfært 24. feb 2025