Fundargerð 30. nóvember 2024

Jólafundur Alfadeildarinnar

Þriðji fundur haustsins 2024, jólafundurinn,  var haldinn í Búbblusal Finnsson og hófst kl. 12.00. Átján félagskonur mættu og áttu saman góða stund á kosningadegi yfir góðum mat, kalkún eða hnetusteik, kaffi og konfekti. Aðalheiður Dagmar Matthíasdóttir kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Aðalheiður sagði okkur jafnframt frá því hvernig hún hefði ákveðið að prófa að nota gerfigreindina í stutta hugleiðingu en ekki mælti hún með því. Nokkuð var rætt um kosningar og mikilvægi þess að kjósa í upphafi fundar en annars einkenndist fundurinn af samræðum félagskvenna. Sunna Dís Másdóttir rithöfundur heiðraði okkur með nærveru sinni og las upp úr nýrri bók sinni sem nefnist Kul. Góður rómur var gerður að lestrinum og félagsskonur þurftu margs að spyrja. Búbblusalurinn er alveg ljómandi umgjörð utan um jólafund og vel fór um alla. Klukkan 14.00 lauk fundinum og héldu konur á braut með jólakveðjur í farteskinu.

 

Ritari: Málfríður Þórarinsdóttir

 


Síðast uppfært 24. feb 2025