Fundargerð 7. október 2025
Annar fundur haustsins 2025 var haldinn í Icelandair og hófst kl. 16.00. 18 félagskonur mættu á fundinn og tveir nýliðar.
Þar tóku á móti okkur Bogi Nils Bogason forstjóri félagsins og Addý Ólafsdóttir á markaðs- og kynningarsviði. Kaffi og sætir bitar voru í boði Icelandair og vakti það einróma lukku félagskvenna.
Málfríður formaður Alfadeildar hóf fundinn með stuttu ávarpi og bauð í kjölfarið Kristrúnu Sigurðardóttur að kveikja á kertum í nafni vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Þetta var í fyrsta skipti sem alfadeild kveikir á rafmagnskertum, en sú staða hefur komið upp æ oftar í seinni tíð að ekki fæst heimild til þess að kveikja á hefðbundnum kertum í húsakynnum þar sem heimsóknir fara fram. Stjórn Alfadeildar hefur þótt það miður og telur mikilvægt að halda í þessa hefð og ákvað því að fara þá leið til prufu að festa kaup á rafmagnskertum og prufa þá leið í Icelandair þó að slíkt bann hafi ekki átt við þar. Stjórnin vonar að félagskonur séu sáttar við þessa niðurstöðu.
Málfríður gaf fulltrúum Icelandair orðið. Bogi Nils og Addý kynntu félagið með áhugaverðri glærukynningu og upplýstu félagskonur um margvíslegan fróðleik um félagið. Eftir kynninguna þurfti forstjóri Icelandair að kveðja hópinn og þakkaði formaður honum fyrir mótttökurnar með rauðri rós sem þakklæti fyrir hans framlag. Í kjölfarið komu til leiks Haukur Gunnarsson, Þorsteinn Schweitz Þorsteinsson auk Sigrúnar Kolsöe, sem öll starfa við Þjálfunarsetur Icelandair. Þremenningarnir buðu félagskonum í skoðunarferð um húsakynni Icelandair. Skoðunin var sannkölluð ævintýraferð með viðkomu á fjölmörgum stöðum í glæsilegu húsi Icelandair við Flugvelli í Hafnarfirði. Það bar hæst skoðun á æfingarými starfsmanna í eftirlíkingu Airbus flugvélar og flughermar félagsins. Heimsóknin dróst þó nokkuð á langinn, öllum til gleði, en því miður varð að fresta tveimur dagskrárliðum, en það var Orð til umhugsunar sem Hrefna okkar hafði undirbúið og fróðleikur um hvernig eigi að pakka í tösku á vegum Hrundar okkar. Við komum þeim dagskrárliðum að síðar og afsökum það innilega við þær að hafa þurft að fresta þeirra framlagi.
Að lokinni skoðunarferð þakkaði formaður fulltrúum Icelandair fyrir góðar móttökur og frábærar kynningar. Formaður afhenti þeim öllum rauðu rósina sem þakklætisvott fyrir þeirra framlag. Formaður upplýsti jafnframt að stjórn hefði ákveðið að Alfadeild myndi láta gott af sér leiða á afmælisárinu með happdrætti á hátíðarkvöldverðinum 7.nóvember nk. Upplýsingabréf um happdrættið verður sent innan örfárra daga.
Fleira gerðist ekki og var fundi slitið kl. 17.50
Ritari: Nanna Kristjana Traustadóttir
Síðast uppfært 12. nóv 2025