Fundargerð 7.nóvember 2025

Til baka á fundargerðir

Hátíðarkvöld Alfa deildar 7.nóvember 2025 á Hótel Holti

Þriðji viðburður haustsins 2025 var haldinn í tilefni af 50 ára afmæli Alfa deildar DKG. Viðburðurinn var þriggja rétta hátíðarkvöldverður og skemmtun sem fór fram á Hótel Holti kl. 18.30-22.30. 23 félagskonur mættu á fundinn og tveir nýliðar. 

Málfríður formaður Alfa deildar hóf fundinn með stuttu ávarpi og bauð í kjölfarið Dr. Sigrúnu Klöru að kveikja á kertum í nafni vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Að því loknu tók Jóna við fundarstjórn og flutti stutt ávarp. Í  kjölfarið var forréttur borinn fram.

Jóna bauð Hrefnu að koma í pontu og flytja Orð til umhugsunar. Hrefna réðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og hélt áhrifaríkt erindi um samkennd ungu kynslóðarinnar og hvatti til samveru og minni skjánotkunar. Að því loknu var aðalréttur borinn á borð og var það dýrindis íslenskt lambakjöt með tilheyrandi meðlæti. 

Jóna hélt mörg styttri skemmtierindi milli atriða þar sem hún lagði sérstaka áherslu á bókina Sagði Mamma í þýðingu Aðalsteins Ásbergs, félagskonum til skemmtunar. Hrund hélt hátíðarræðu og í kjölfarið fór fram heiðrun félagskvenna sem hafa verið félagar í meira en 40 ár, en þann heiður fengu þær Sjöfn og Sólrún. Sólrún gat því miður ekki verið með á hátíðarkvöldinu.

Þá var dýrindis desert borinn á borð og að honum loknum hófst útdráttur happdrættis. Félagskonur mættu með gjafir og keyptu einnig miða, en ákveðið hafði verið að láta ágóðann renna til styrktar Menntasjóðs Mæðrastyrksnefndar. Næst til leiks mætti leyniatriði stjórnar, en það var sjálfur Elvis Iceland sem kom syngjandi til leiks félagskonum til mikillar gleði og skemmtunar. Eftir að Elvis kvaddi hópinn var happdrættið klárað. Margar félagssystur fóru sigurvissar heim með fullan poka af skemmtilegum og góðum gjöfum. 

Þá var orðið áliðið og tilraun stjórnar til þess að koma á fjöldasöng að þessu loknu fór forgörðum. Málfríður sagði nokkur orð til þess að þakka þátttakendum í dagskránni fyrir góð störf og afhenti þeim öllum rauðu rósina sem þakklætisvott fyrir þeirra framlag. Formaður upplýsti jafnframt hópinn um að 90.000 kr. Hefðu safnast í happdrættinu og sá peningur yrði afhentur Menntasjóði Mæðrastyrksnefndar á komandi dögum. 

Ritari: Nanna Kristjana Traustadóttir


Síðast uppfært 12. nóv 2025