Fundargerð 8. september 2025

Til baka á fundargerðir

Þriðji fundur ársins 2025 var haldinn í Smiðjunni, skrifstofubyggingu Alþingis  og hófst kl. 14.00. Fimmtán konur mættu á fundinn.

Málfríður, formaður Alfa-deildar opnaði fundinn og þakkaði fulltrúum Smiðjunnar fyrir að taka á móti hópnum.

Arnór Steinn Ívarsson  bauð hópinn velkominn ásamt Þorleifi Erni Gunnarssyni. Báðir eru þeir fræðslu- og upplýsingafulltrúar Alþingis.

Farið var yfir sögu svæðisins sem Smiðjan er byggð á og þróunarvinnu í kringum byggingu hússins. Áhugavert var að heyra um nýtingu íslensks efnis og áherslu á sjálfbærni. Einnig er undir húsinu mannvistarleifar frá landnámsstíð sem fengu að halda sér og minna á forna tíma. Ýmsir munir sem fundust við uppgröft á svæðinu eru til sýnis í glerboxum innanhúss. Í húsinu er sýning á skjölum frá því valdið færðist frá Danaveldi og yfir til Íslands 1874, skjöl sem sýna starfsfólk og starfsheiti og ýmis skjöl tengd starfsemi Alþingis á þeim tíma.

Farið var gegnum alrýmið, fundarherbergi nefnda og ráðstefnusal. Arnór og Þorfinnur fóru yfir skipulag hússins og fyrirkomulag heildarstarfseminnar. Byggingin hýsir fastanefndir þingsins þar sem þekking á málefnasviðum er til staðar. Sú þekking ásamt umsögnum og ábendingum almennings og hagaðila mótar efnivið lagafrumvarpa með tækjum og tólum sérfræðinga til að skila góðu dagsverki landi og lýð til heilla.

Fundi lauk kl. 15:00 með því að Málfríður þakkaði Arnóri og Þorleifi fyrir góðar móttökur og fróðlega kynningu og afhenti þeim rauða rós  sem þakklætisvott.

Hluti hópsins fékk sér kaffisopa og átti óformlegt spjall á Parliament Hotel  í grennd við Smiðjuna eftir fund.

 

Ritari: Fjóla María Lárusdóttir

 


Síðast uppfært 12. nóv 2025