Vetrarstarfið hófst í Skrúfunni á Eyrarbakka

Guðríður Egilsdóttir formaður kveikti á kertum, bauð systur velkomnar og stjórnaði fundinum fallega og af röggsemi. Hún minntist Pálínu A. Snorradóttur sem lést 15. júní sl. Minningaroð um Pálínu.

Guðrún Sigríks Sigurðardóttir ritari las upp greinagóða fundargerð síðasta fundar.

Fundardagskráin hélt  áfram og Guðríður rifjaði upp markmið samtakanna. Markmiðin eru höfð að leiðarljósi í starfi deildarinnar.

Guðrún Sigríks var með Orð til umhugsunar. Ömmur hennar höfðu sótt á hana upp á síðkastið í tengslum við öll þægindin sem við búum við og hugsum ekki út í dags daglega. Kjör amma hennar voru allt önnur og reyndar voru kjör þeirra líka ólík. Föðuramma hennar fæddist á síðari hluta 19. aldar í Flóanum. Hún fæddi 16 börn á 22 árum. Hún bjó í torfkofa án allra þæginda, án rafmagns og rennandi vatns. Kjörin voru mjög bágborin. Hún svaf ætíð með tvö börn sitt hvorum megin við sig í rekkjunni í baðstofunni. Hún ól upp börnin, sá um heimilishald og vann útiverkin. Húsbóndinn sinnti helst „fræðistörfum“, las bækur og afritaði þær sem hann fékk að láni á næsta bæ. Það voru engir peningar til að kaupa bækur. Kjör móðurömmu hennar voru betri en það var 16 ára aldursmunur á ömmunum.

Næsti liður voru fréttir af starfi vetrarins. Helst ber að nefna Málþing sem ber titilinn Lykill að læsi sem haldið verður í Fjölbrautarskóla Suðurlands fimmtudag 26. okt. kl. 17.00. Þar verða þrír mjög góðir fyrirlesarar með spennandi erindi. Dagskrá þingsins verður auglýst von bráðar. Epsilon-systur eru mjög ánægðar og stoltar af því að hafa hrint þessu málþingi í framkvæmd. Það var ekki annað að heyra en það yrðu fleiri málþing um önnur málefni í framtíðinni.

Guðríður sagði frá framkvæmdarstjórnarfundi sem haldinn var í Reykjavík í byrjun september.

Eftir að fundi lauk sagði Berglind Björgvinsdóttir eigandi Skrúfunnar frá starfsemi hennar. Skrúfan er grósku- og sköpunarmiðstöð þar sem fólk á öllum aldri getur komið og fengið útrás fyrir sköpunarkraftinn og einnig lært eitthvað nýtt á námskeiðum sem haldin eru þar.

Áður en systur héldu heim á leið var borðað á staðnum og tekin hópmynd.

Myndir frá fundinum.