Pálína Agnes Snorradóttir félagi í Epsilondeild er látin

Pálína Agnes Snorradóttir félagi í Epsilondeild lést 15. júní 2023. Hún fæddist 24. janúar árið 1937 á Akureyri.
Pálína lauk stúdentsprófi frá MR árið 1957. Þaðan lá leiðin í Kennaraskólann sem hún lauk ári síðar. Hún lagði stund á sérkennslu sem hún lærði bæði hér heima og í Noregi. Ævistarf hennar var kennsla. Fyrstu árin kenndi hún á Ísafirði, en stærstan hluta starfsævinnar ýmist kenndi hún eða stjórnaði í Grunnskólanum í Hveragerði. Þegar kennsluferlinum lauk vann hún í nokkur ár í bókasafninu í Hveragerði.
Pálína var mikil félagsmálakona og var stofnfélagi Epsilondeildar árið 1989.
Auk Delta Kappa Gamma var hún félagi í mörgum öðrum félögum. Má þar nefna: Sjálfsbjörg – landssamband fatlaðra, Rótarý, félag eldri borgara í Hveragerði, Kvenfélag Hveragerðis, St. Georgsgildið í Hveragerði og Zontaklúbbur Selfoss. Einnig var hún varamaður í hreppsnefnd í Hveragerði og vann í ýmsum nefndum og ráðum á þeirra vegum.
Pálína var jarðsungin frá Hveragerðiskirkju 22. júní síðastliðinn.
Við, félagar í Delta Kappa Gamma, minnumst Pálínu með þakklæti og virðingu og vottum aðstandendum hennar okkar dýpstu samúð.