New York 2012

Alþjóðaráðstefna DKG var haldin 24.–28. júlí 2012 í NY og voru einkunnarorð ráðstefnunnar:
Embrancing our vision – designing our future.


Íslensku þátttakendurnir á þinginu.Íslensku konurnar fóru til NY á sunnudegi og nokkrar á mánudeginum þannig að við höfðum einn dag þar til ráðstefnan byrjaði formlega til að skoða okkur um í NY, njóta veðurblíðunnar og anda að okkur stemmingu borgarinnar. Að sjálfsögðu fórum við í góðan göngutúr og út að borða, kíktum í búðir og nutum þess að vera í sumar og sól í borginni sem aldrei sefur.

Við skráningu á ráðstefnuna fengum við ráðstefnugögn, bók með allri dagskránni, fína tösku, slæður og fleira smádót. Opnunarfundurinn var glæsilegur og það var ótrúleg upplifun að sitja á ráðstefnu með rúmlega 2000 konum sem allar hafa sama áhugamálið þ.e. að fræða.

Á ráðstefnunni voru nokkrir „aðal“ fyrirlesarar og sá fyrsti var Tori Murden McClure (fædd 1963) forseti Spalding University í Louisville, Kentucky. Hún lauk meistaraprófi frá Harvard og doktorsnámi í lögum frá University of Louisville, meistaraprófi í Spalding University. Það var ævintýri líkast að hlusta á þessa konu og hvað hún hefur upplifað um ævina, bæði fjallgöngur, heimskautaferðir og siglingar. Hún var fyrsta konan til að róa ein yfir Atlantshafið þá 36 ára og tók ferðin 81 dag. Þetta var árið 1998. Stórmerkileg frásögn af konu sem tókst á við það ómögulega, lét ekki bugast og reyndi aftur og aftur ef ekki gekk í fyrstu tilraun.

Tori Murden hefur skrifað bók um ævintýri sín og heitir hún A Pearl in the Storm: How I Found My Heart in the Middle of the Ocean (2009). Bókin hennar er alveg þess virði að lesa, höfundurinn hefur einstakt lag á að gera grín bæði að sjálfri sér og aðstæðum sem oft eru lífshættulegar. Hún er mjög einlæg og segir frá tilfinningum sínum, einmanaleika, sigrum og ósigrum. Hún fjallar líka um mikilvægi fræðara (mentor) sem hjálpa okkur á nýjar brautir og styðja okkur eftir ósigra í lífinu.

Aðrir “aðal” fyrirlesarar voru einnig áhugaverðir og fjölluðu bæði um okkur sjálfar sem konur, kennara og fyrirmyndir og eins um margbreytileika samfélaganna sem við lifum í.
Síðan voru smærri fyrirlestrar á hverjum degi, oft á dag og var erfitt að velja af löngum lista. Fyrirlestrarnir voru í eftirfarandi flokkum, Cultural and Personal Enrichment, DKG and the future, Professional Practices og Educational Excellence.

Íslensku konurnar voru nokkrar með fyrirlestra og stóðu sig frábærlega. Þeirra fyrirlestrar voru vel sóttir og það var gaman að finna hvað við fengum góðar móttökur, konum þótti svo merkilegt að við værum frá Íslandi. Margar vildu ræða málin, höfðu heyrt af okkar öfluga starfi, fjölgun deilda og miklum metnaði hér á landi.
Á milli fyrirlestra voru svo fundarstörf DKG þar sem farið var yfir skýrslur og sagt frá hinum fjölbreyttu verkefnum sem alþjóðasamtökin standa fyrir. Það var gaman að fylgjast með flottri fundarstjórnun þar sem allt var nákvæmlega upp á mínútu.

Forsetinn okkar hafði líka í mörg horn að líta og við sáum hana nú stundum ekki heilu og hálfu dagana því hún þurfti fyrir okkar hönd að sitja marga fundi, morgunverðarfundi og kvöldfundi, taka þátt í móttökum o.fl.
Við sátum Evrópu Forum þar sem kosin var ný stjórn og var Ingibjörg Jónasdóttir kosin formaður þeirrar nefndar. Einnig vorum við viðstaddar minningarathöfn um látnar félagskonur, mjög svo hátíðleg stund þar sem Hertha Jónsdóttir var fulltrúi Evrópu. Einnig er minnisstæð athöfnin þegar stjórnarskipti urðu í alþjóðastjórninni.  Það var mjög hátíðleg stund og það var virkilega gaman að fá að vera hluti af svona stóru samfélagi kvenna í DKG. Hátíðarkvöldverður var mjög flottur þar sem konum var raðað niður á borð tilviljanakennt þannig að við kynntumst fleiri DKG konum.

Við áttum yndislegar stundir á þessari ráðstefnu og eitt af því sem upp úr stendur er þessi upplifun að vera meðal svona margra kvenna með sömu áhugamál og svipaða sýn. Allar viljum við standa okkur vel í okkar störfum sem fræðarar og allar höfum við áhuga á að starfa í félagsskap DKG. Það er afar mikilvægt að fá að upplifa svona þing og fá að vera hluti af þessari stóru heild sem alþjóðasamtökin eru. Eftir alþjóðaráðstefnu þá lærir maður líka mikið um starfsemi samtakanna, áttar sig betur á öllum þessum nefndum sem starfa innan félagsins og hlutverki alþjóðasamtakanna.

Svo var að sjálfsögðu yndislegt að fá að vera með þessum góðu konum frá Íslandi og kynnast þeim betur. Það var ómetanlegt að fá að upplifa þessa ráðstefnu með íslenskum konum sem eru vanar alþjóðastarfinu. Að lokum hvet ég allar DKG konur til að reyna að komast á alþjóðaráðstefnu eða Evrópuráðstefnu en sú næsta verður haldin í Amsterdam næsta sumar (2013).

Guðbjörg Sveinsdóttir í Þetadeild skrifaði þennan pistil. Myndir frá ráðstefnunni eru í myndaalbúminu okkar.


Síðast uppfært 11. maí 2017