Alfadeild 35 ára

Haldið var upp á 35 ára afmæli Alfadeildar Delta Kappa Gamma samtakanna í Þjóðmenningarhúsinu laugardaginn 12. nóvember 2010. Rúmlega 50 félagskonur í hinum fjölmörgu deildum DKG fögnuðu þessum tímamótum með félagkonum í Alfadeild og heiðruðu um leið 35 ára forsetaafmæli Fr. Vigdísar Finnbogadóttur, en Fr. Vigdís er  heiðursfélagi í DKG samtökunum. Marta Guðjónsdóttir formaður Alfadeildar setti fundinn og stýrði honum. Ingibjörg Jónasdóttir forseti landssambands DKG ávarpaði fundinn og óskaði Alfadeildinni til hamingju með afmælið. Hún stiklaði á stóru í sögu DKG og bar kveðjur frá alþjóðasamtökunum.

Aðalerindi dagsins flutti Hreinn Pálsson um Börn og rökræður, en þetta efni hefur verið heiðursfélaga okkar Fr. Vigdísi Finnbogadóttur hugleikið. Hreinn fjallaði um heimspekilega hugsun barna og aðferðir við að kenna
börnum heimspekilega hugsun. Hann benti á hvað börn geta haft heimspekilegt innsæi, þau hitta oft naglann á höfuðið betur en fullorðnir og heimspekikennari barna verður að vera viðbúinn hverju sem er í
heimspekilegum viðræðum við börn. Hann sýndi fram á hvernig undrun og forvitni eru upptök heimspekilegrar umræðu, en kennari þarf síðan að greina samræðuefni, finna áhugaverðar spurningar eða ráðgátur, sem undanfara hinna eiginlegu rökræðna. Hann benti á hvernig rökræður eru best þjálfaðar með að stunda þær, fremur en að kenna um þær. Til marks um innsæi barna sagðist Hreinn oft nota svar barns til að að útskýra hvað heimspeki er, en í Heimspekiskólanum sagði telpa aðspurð: Heimspeki er
rannsókn á möguleikum. Hún sneri þarna á marga heimspekinga, sem eiga oft erfitt með að skilgreina heimspeki. Hreinn sagði að í umræðu um heimspeki og gagnrýna hugsun þyrfti alltaf að fara saman gagnrýnin hugsun, skapandi hugsun og umhyggja. Þetta væru þrjár systur, sem alltaf tengdust. Góður rómur var gerður að erindi Hreins og voru líflegar umræður að því loknu. Af umræðum má draga þá ályktun að félagskonum finnist ekki nóg gert í heimspekikennslu í skólastarfi.

Átta af stofnfélögum Alfadeildar voru viðstaddar og voru þær heiðraðar með rauðri rós og sagði Þuríður Kristjánsdóttir, fyrsti formaður Alfadeildar og fyrsti forseti landssambandsins nokkur orð um stofnun Alfadeildar og samtakanna. Hún minntist þess lærdóms, sem félagsstarfið stuðlaði að hjá félagskonum og vildi að samtökin yrðu sýnilegri.

 Að lokum ávarpaði Fr. Vigdís Finnbogadóttur samkomuna, óskaði félaginu til hamingju með afmælið og þakkaði fyrir valið á umræðuefni. Hún minnti á að börnin sem erfa landið þurfa að geta rætt mál, geta sagt skoðanir síðan og borið virðingu fyrir skoðunum annarra. Hún sagði að siðfræði byggðist á sjálfsvirðingu. Þannig þyrfti að kenna börnum sjálfsvirðingu gegnum heimspekilega umræðu og um leið notkun á íslenskri tungu.

Milli atriða var samsöngur við undirleik Herdísar Egilsdóttur og í lokin snæddu félagskonur léttan hádegisverð og spjölluðu saman..


Síðast uppfært 15. apr 2017