Vorráðstefna 2022



Vorráðstefnan 2022 var haldin 7. maí á Grand Hótel, Sigtúni 38 í Reykjavík og hófst klukkan 10:00. 

Þema ráðstefnunnar var: "Fjölbreytni og sveigjanleiki í menntun til framtíðar" . 

Hægt er að hlusta á alla fyrirlestrana þrjá hér á netinu.


Það var bjartur dagur sem upp rann í Reykjavík 7. maí síðastliðinn. Lokins var hægt að halda vorráðstefnu félagsins og félagskonur gátu hist í raunheimi eftir tveggja ára samskiptahlé vegna veirufaraldurs. Mikil var gleðin í hjörtum þeirra þegar þær birtust hver af annarri til að fagna samverunni. Mest tel ég þó gleðina hafa verið hjá þeim sem eldri voru og hafa ef til vill þurft að sæta meiri einangrun en þær sem enn eru starfandi á vinnumarkaði. Gleðin og faðmlögin voru innileg og sönn.


Ráðstefnan sjálf sem haldin var í salarkynnum Grand Hótels var í alla staði glæsileg hvert sem auga var litið. Umgjörðin var falleg, veitingarnar frábærar og erindin sem flutt voru afskaplega áhugaverð, bæði metnaðarfull og upplýsandi. Efalaust hafa margar konur farið heim með hugmyndir og hvatningu í farteskinu.

Dagskráin hófst á hefðbundinn hátt undir stjórn forseta, Guðrúnar Eddu, sem kynnti dagskrána; Aníta Jónsdóttir, fyrsti varaforseti, kveikti á kertum og ný stjórn var kynnt. Guðrún Edda sagði skemmtilega og fallega sögu af því hvers vegna hún ákvað að ganga til starfa með DKG á Íslandi þegar það bauðst. Hún fór yfir starfið sem nýr forseti og síðan var gengið til dagskrár.

Fyrsta erindið flutti Sólveig Jakobsdóttir úr Kappadeild, prófessor á Menntavísindasviði HÍ, en hennar sérsvið er fjarkennslufræði með áherslu á upplýsingatækni, kennslutækni og margmiðlun. Í erindi sínu fór hún yfir sögu og þróun stafrænnar tækni í skólastarfi á Íslandi. Áhugavert erindi og upplýsandi.

Í beinu framhaldi af erindi Sólveigar tók Valgerður Ósk Einarsdóttir, kennsluráðgjafi við HA, við keflinu en erindi hennar var eiginlega framlenging á erindi Sólveigar en hún greindi frá reynslu sinni við kennslu á netinu á ýmsum skólastigum og skólum og nú sem kennsluráðgjafi. Sérsvið hennar er sveigjanlegt nám og kennsla gegnum netið. Erindi hennar var bæði upplýsandi og hvetjandi til umhugsunar um nám í náinni framtíð. Í þessum tveimur erindum sameinaðist fortíð og nútíð en það gaf af sér skemmtilega heildarsýn yfir; hvar við vorum og hvar við erum.

Þriðja erindið var svo frá alþjóðlega fyrirlesaranum, Gail Goolsby, frá Bandaríkjunum. Hún flutti erindi sitt gegnum Zoom fjarfundabúnaðinn. Saga hennar var áhugaverð og vakti upp ýmsar tilfinningar hjá gestum. Starf hennar og eiginmannsins á árum þeirra í Kabúl í Afganistan er aðdáunarverð. Vert er að vekja athygli á bók hennar, The Unveiled Truth, þar sem hún lýsir starfinu.
Eftir erindi dagsins voru umræður á hringborðum og skiluðu gestir niðurstöðum á Padlettu sem síðan var birt öllum til athugunar og umræðna.

Þá er vert að minnast skemmtiatriða. Forföll urðu hjá þeim sem tóku að sér tónlistarflutning en þá kíkti forsetinn okkar bara í handraðann og töfraði fram 2 konur úr eigin DKG ranni. Þetta voru Soffía Vagnsdóttir Kappadeild sem spilaði á harmonikku og Ingibjörg Ingadóttir Epsilondeild stjórnaði fjöldasöng. Vakti það mikla gleði gesta og sumar skelltu sér í dans með. Annað skemmtiatriði var fyrirlestur Eddu Björgvins sem fjallaði um jákvæða sálfræði og húmor í daglegu lífi og starfi. Erindi hennar var góð blanda af alvarleika og gríni og mörg voru ráðin til heilla til að taka með sér heim.

Ráðstefnu var síðan formlega slitið með því að Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, fráfarandi landssambandsforseti, var formlega kvödd með rós og nýjar konur boðnar velkomnar til starfa, einnig með rós.
Að þessu loknu var haldið í annan sal þar sem boðið var upp á léttar veitingar og spjall. Þar nutu félagskonur samskiptanna og fóru allar heim með bros á vörum og sól í hjarta.

Samantekt ritaði Þorgerður Ásdís Jóhannsdóttir, ritari landssambandsins.

 Myndir frá ráðstefnunni eru í myndaalbúmi

Dagskrá til útprentunar


Síðast uppfært 08. jún 2022