Nashville 2016

Alþjóðaþing Delta Kappa Gamma haldið í Nashville Tennessee 5.–9. júlí 2016

Í sumar átti ég þess kost sem forseti landsambandsins að sækja alþjóðaþingið sem haldið var í músíkborginni Nasville, Tennessee í Bandaríkjunum. Við vorum þrjár sem sátum þingið fyrir Íslands hönd, ég, Ingibjörg Jónasdóttir í Gammadeild og formaður Membership nefndarinnar og Sjöfn Sigurbjörnsdóttir í Alfadeild en hún situr í Nomination nefndinni. 

Ráðstefnan var haldin á afar stóru ráðstefnuhóteli, Gaylord Opryland Hotel, en það hefur yfir að ráða einum 2000 herbergjum sem skiptast á nokkrar byggingar og svo eru byggingarnar tengdar saman með fallegum göngustígum. Þar mátti einnig finna lítil stöðuvötn sem hægt var að sigla á og yfir þessu öllu var svo glerþak, þannig að hótelgestir þurftu aldrei að ferðast utandyra til að komast á milli bygginga og ráðstefnusala. Óneitanlega hægt að segja að þetta var eins og ævintýraveröld. Því er þó ekki að neita að vegna stærðar hótelsins var mjög auðvelt að villast í þessu umhverfi og kom það fyrir að maður þyrfti að taka nokkra auka göngutúra áður en rambað var á réttu staðina. Þar sem þetta var fyrsta alþjóðaráðstefnan sem ég sæki hef ég ekki samanburð við fyrri ráðstefnur en þær sem til þekkja segja mér að skipulag hafi verið með líku sniði. Rúmlega 2000 konur sóttu ráðstefnuna, flestar frá Bandaríkjunum. Evrópukonurnar voru ekki mjög margar og voru flest andlitin kunnugleg frá þeim Evrópuráðstefnum sem ég hef sótt síðastliðin ár.  Á milli okkar Evrópukvennanna hafa myndast góð tengsl og er það eins og að hitta gamla heimilisvini að hitta þær við þessi tækifæri. 
Aðalfyrirlesarar á þinginu voru fjórir. Sá fyrsti, Kai Kight talaði við setningu þingsins á þriðjudagskvöldinu. Kai sem er verkfræðingur að mennt og starfar í dag sem klassískur fiðluleikari og tónskáld heillaði viðstadda „upp úr skónum“ með áhrifaríkri túlkun sinni. Að lokinni setningu hófst svokallað „Tennessee Night“ sem er hluti að setningarathöfninni. Þar spilaði hljómsveit skemmtilega country-músík og endaði kvöldið á „That Old Time Rock and Roll“ þar sem allur þingheimur dillaði sér við tónlistina J. Mike Figliuolo talaði næsta dag (hægt er að hlusta á fyrirlesturinn hans með því að smella hér) og fjallaði erindi hans: Leading the Thinking: Setting Direction and Driving Action for your team,  um stjórnun og hvetur hann alla til að finna sinn persónulega stíl varðandi stjórnun. Mike heldur úti vefsíðu þar sem hann hefur tekið saman á einn stað efni ætlað DKG. Á föstudeginum hélt hinn kunni blaðamaður og rithöfundur Judith Viorst erindi. Hún hefur skrifað bækur bæði fyrir börn og fullorðna og ein af hennar þekktari barnabókum er bókin Alexander and the Terrible, Horrible, No Good, Very Bad Day. Samkvæmt dagskránni átti Anna Maria Chávez að reka lestina á laugardeginum og fjalla um  skátahreyfinguna en hún forfallaðist og í hennar stað kom Nataklye Paquin stjórnandi GSUSA Office of Strategy and Advancement og hélt stutt erindi sem tengdist skátahreyfingunni. „Rúsínan í þeim pylsuenda“ var svo að börn sem eru meðlimir skátahreyfingarinnar á staðnum fylgdu hverjum landsambandsforseta þegar hann bar út þjóðfánann við þinglok.

Á miðviku- og föstudeginum var hægt að velja á milli u.þ.b. 100 mismunandi fyrirlestra og vinnustofa. Valið var ekki alltaf auðvelt því um 15 fyrirlestrar voru í boði í hverri umferð (e. session). Þessi fyrirlestrar voru ýmist fluttir af fræðikonum um hin margvíslegustu efni sem tengjast menntun eða voru fyrirlestrar um starfið í samtökunum. Á þinginu voru tveir dagskrárliðir sem ekki hafa verið í boði áður, „Cyber Area“ og „Hot Topics“. Á „Cyper Area“ svæðinu voru meðlimir Communication and Publicity nefndarinnar staðsettir og héldu „örnámskeið“ í ýmsu er snertir tæknileg atriði, t.d. hvernig á að nota DKG appið, hvernig á að blogga á Wordpress, búa sér til „member profile“ á alþjóðavefnum, o.s.frv. Á „Hot Topics“ svæðinu var komið fyrir 20 borðum þar sem kynnt voru mismunandi efni sem eru ofarlega á baugi og þau rædd í 30 mínútur. Að þeim  mínútum loknum hringdi bjalla og þá áttu þátttakendur að færa sig á annað borð þar sem annað umræðuefni var í gangi og þannig koll af kolli. Hægt var að velja á milli 50 umræðuefna í þremur lotum. Hugmyndin er góð, en það var galli að borðin voru of nálægt hvert öðru þannig að skvaldrið varð mikið og þátttakendur nutu ekki umræðunnar sem skyldi. 

Fimmtudagurinn var nokkuð erilsamur með mörgum uppákomum. Fundur Evrópu Forum var á sínum stað á fimmtudagsmorgninum og var vel sóttur. Ingibjörg Jónasdóttir flutti okkur orð til umhugsunar en Gitta Franke-Zöllmer frá Þýskalandi flutti okkur fyrirlesturinn: „Education 2030 – ensure inclusive and equitable education”. Ýmis mál voru til umfjöllunar á fundinum, svo sem Euforia (fréttabréf Evrópu Forum), vefur Evrópu Forum, félagaaðild innan Evrópu, o. fl. Í hádeginu á fimmtudeginum var viðburður fyrir alla þinggesti sem nefndist Be the Change“ Luncheon. Þar var alþjóðlegu viðurkenningunni International Achievement Award úthlutað og að þessu sinni hlaut hana Cathy Daugherty, fyrsti varaforseti alþjóðasambandsins 2014-2016. Á fimmtudagskvöldinu var svo skemmtun „niðri í bæ“ sem haldin var til styrktar Educational Foundation sjóðnum. Skemmtunin sem bar heitið Call me Country var haldin á Wild Horse Saloon kránni. Boðið var upp á mat og lifandi tónlist og kennslu í „River dance“. Við Ingibjörg höfðum skráð okkur á þennan viðburð og mættum ásamt fjölda annarra og skemmtum okkur bara vel þó litlum sögum fari af „dansnáminu“ :-) . 

Á föstudagmorgninum var haldinn „European Breakfast“; fundur þar sem Evrópukonurnar borðuðu saman og hlýddu á skipulagða dagskrá. Evrópuforsetinn okkar (2014–2016) Marianne Skardéus, hafði valið From the Old to the New World sem þema fundarins. Undir þeim lið voru flutt fjögur  erindi.  Fyrsta erindið flutti Marianne Skardéus sjálf. Hún fjallaði um rithöfundinn Vilhelm Moberg sem er einn af þekktari rithöfundum Svía. Hann skrifaði m.a. sögur um sænska innflytjendur til Ameríku  en sjónvarpsþættirnir Invandrararna (The Immigrants), gerðir eftir þeirri sögu voru sýndir hér á RÚV fyrir nokkrum árum. Hann er einnig þekktur fyrir leikverk sín, ekki hvað síst Kristina from Duvemåla sem ABBA drengirnir Björn og Benny settu upp. Margarita Hanschmidt’s frá Eistlandi sagði okkur frá barnabörnum sínum í erindi sem hún kallaði „I would like to speak with my grandchildren in the Estonian language“. Marie Antoinette Hubers frá Hollandi flutti okkur erindið EENIGENBURG: A family history, erindi sem Maria H.C. (Ria) Bleeker hafði ætlað að flytja en af heilsufarsástæðum komst hún ekki á þingið. Fjórða erindið flutti svo Jan Sorrell, meðlimur í DKG í Ameríku, og sagði okkur frá forfeðrum sínum sem komu til Ameríku frá Svíþjóð og Noregi. Erindið nefndist:: „My Swedish Grandfather and My Norwegian Grandmother“. Hægt er að lesa meira um þessa viðburði á Evrópuvefnum.

Hátíðarkvöldverðurinn (The Banquet) var svo á sínum stað á laugardagskvöldinu með öllum þeim glæsileika sem honum fylgir og þar tók nýr alþjóðaforseti til næstu tveggja ára, Caroly Pittmann, við keflinu frá Lyn Babb Schmid fráfarandi forseta. Þinginu var svo formlega slitið að loknum hátíðarkvöldverðinum og við Íslendingarnir héldum heim aftur á sunnudagsmorgninum.

Ég hef reynt að tæpa á því helsta sem fram fór á þessu þingi. Eflaust hef ég gleymt ýmsu og ekki er hægt að gera allri þessari viðamiklu dagskrá ítarleg skil. Uppúr stendur þó skemmtileg samvera og endurfundir við gamla og nýja DKG félaga auk alls þess sem safnað var í „reynslubankann“. Ég hvet alla DKG félaga til að reyna að koma því við að sækja þing samtakanna, ef ekki alþjóðaþing þá allavega Evrópuþing og minni á að næsta Evrópuþing verður haldið í Tallin í Eistlandi, 26.–29. júlí næsta sumar (2017).

Hér má nálgast myndir frá þinginu

Eygló Björnsdóttir, landsambandsforseti.


Síðast uppfært 11. maí 2017