Góðir hlutir gerast

Á þessari síðu eru dæmi um ýmis góð verkefni sem Delta Kappa Gamma systur hafa unnið að eða tekið þátt í sem lið í að vera virkar í skólasamfeálginu. Frekari ábendingar um verkefni sem hér ættu heima sendist til vefstjóra (eyglob@gmail.com).


Lykill að læsi“ - málþing haldið af Epsilondeild
Haustið 2023 ákvað Epsilondeild að standa fyrir málþingi um læsi og varð sú hugmynd að veruleika fimmtudaginn 26. október 2023. Þingið var haldið í sal Fjölbrautarskóla Suðurlands á Selfossi. Ákveðið var að hafa málþingið opið öllum áhugasömum, þeim að kostnaðarlausu. Á málþinginu voru fluttir þrír fyrirlestrar:

Bjartey Sigurðardóttir talmeinafræðingur og verkefnisstjóri verkefnisins Lestur er lífsins leikur“ hjá Hafnarfjarðarbæ hélt erindi um snemmtæka íhlutun í fyrstu bekkjum í grunnskólum Hafnarfjarðarbæjar. Markmiðið með verkefninu er að finna strax við upphaf skólagöngu nemendur sem þurfa á nánari greiningu að halda og/eða stuðningi og veita íhlutun við hæfi. Bjartey fjallaði einnig um mjög áhugavert læsisverkefni sem nefnt er LÆK og hefur það markmið að efla læsi og auka lestraráhuga allra nemenda á mið- og unglingastigum grunnskólanna í Hafnarfjarðarbæ.

Hlíf Brynja Baldursdóttir deildarstjóri máls og læsis í Fellaskóla hélt erindi um „Draumaskóla“ samvinnuverkefni Fellaskóla, frístundaheimilisins Vinafells og leikskólanna Holts og Aspar með áherslu á málskilning, læsi, orðaforða, leiðsagnarnám, tónlist og skapandi skólastarf. „Draumaskólinn“ leggur megináherslu á íslensku í öllu starfi og að allir kennarar séu íslenskukennarar. Hlutfall tví- og fjöltyngdra barna er nærri því 90 prósent og er íslenskt námsumhverfi þeirra að mestu í skólunum og á frístundaheimilinu.

Svava Þ. Hjaltalín, sérkennari, læsisfræðingur og verkefnastjóri við Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar við Háskóla Íslands, hélt erindi sem hún nefndi Árangursrík kennsla –Ég get“ þar sem hún fór yfir gildi góðra vísindarannsókna sem tengdar eru námi og framþróun. Hvernig þær geta styrkt kennara og auðveldað þeim að velja árangursríkar aðferðir við lestrarkennslu og læsi. Svava fjallaði einnig um Kveikjum neistann sem er rannsóknar- og þróunarverkefni í Grunnskóla Vestmanneyja með heildstæða nálgun á skólastarfið.

Góður rómur var gerður að þinginu, en það sóttu milli 80 og 100 manns víðsvegar af Suðurlandi. Sérstök ánægja var með það að geta sótt svo góðan viðburð í heimabyggð og þurfa ekki að ferðast um langan veg til þátttöku.   


Samræðuþing
Samræðuþing Beta- og Mýdeildar 5. október 2017Á sameiginlegum fundi stjórna Beta- og Mýdeildar á vordögum 2015 þar sem meira samstarf deildanna var rætt, kom upp sú hugmynd að vinna að því í sameiningu að halda hátíðlegan dag kennara sem er 5. október ár hvert. Rætt var að fá tvær til þrjár konur frá hvorri deild í undirbúning. Þessi hugmynd varð svo að veruleika 5. október 2016. Tæplega 70 manns mættu á þingið og var gerður góður rómur að dagskránni en yfirskrift þingsins var: „Nýi kennarinn í starfi“.
Hér má nálgast umfjöllun um þingið á vef Skólavörðunnar og myndir frá þinginu.

----------------------------------------------------------------

Þar sem samræðuþingið 2016 tókst eins vel og raun bar vitni var ákveðið að endurtaka leikinn 5. október 2017. Yfirskriftin að þessu sinni var: „ Líðan og starfsánægja kennara“. Eins og árið 2016 mættu um 70 manns á þingið og var almenn ánægja með framkvæmdina.

Hér má nálgst umfjöllun um þingið á vef Skólavörðunnar og myndir frá þinginu


Á alþjóðadegi kennara 5. október 2018 blésu Beta- og Mýdeildir ltil leiks enn á ný og haldið var upp á daginn með samræðuþingi sem bar yfirskriftina: "Að vera kennari. Lygilega gaman. Nánar má lesa um þingið og skoða myndband sem tekið var á þinginu á vef Betadeildar.


Beta- og Mýdeildir héldu í fjórða skiptið upp á alþjóðadag kennara 5. október 2019 með samræðuþingi eins og undanfarin ár. Yfirskrift þingsins að þessu sinni var " Hvenær mætast draumur kennarans og nemandans." Nánar má lesa um þingið og skoða myndband sem tekið var á þinginu á vef Betadeildar.


Á rauðum sokkum: baráttukonur segja frá

Á rauðum sokkum: baráttukonur segja fráÍ nóvember 2011 kom út hjá RIKK og Háskólaútgáfunni bókin Á rauðum sokkum: baráttukonur segja frá. Í bókinni segja tólf konur frá starfi sínu með Rauðsokkahreyfingunni fyrstu ár hennar en haustið 2010 voru liðin 40 ár frá eiginlegum stofnfundi hreyfingarinnar árið 1970. 

Meðal höfunda bókarinnar er ein kona úr Etadeild, Elísabet Gunnarsdóttir, og tvær konur úr Gammadeild, þær Gerður G. Óskarsdóttir og Vilborg Dagbjartsdóttir sem rita sinn kaflann hver.  Jafnframt leggur Vilborg, sem er einn af frumkvöðlum Rauðsokkahreyfingarinnar, bókinni til tólf ljóð sem flest voru ort á áttunda áratugnum og eiga ríkan samhljóm með umfjöllunarefni frásagnanna.

Tungumálatorg
Á Degi íslenskarar tungu 16. nóvember 2010 var opnað Tungumálatorg á Menntavísindasviði Háskóla Íslands. Etasystir okkar Brynhildur Anna Ragnarsdóttir kynnti verkefnið ásamt Þorbjörgu St. Þorsteinsdóttur. Þær hafa átt veg og vanda að undirbúningi þess og fjölluðu um þróun þess og ávinning.

Markmið Tungumálatorgsins er að styðja við nám og kennslu tungumála og fjölmenningarlegt skólastarf með upplýsingamiðlun, ráðgjöf og samskiptum um netið. Vettvangurinn hefur þýðingu fyrir fjölmenna hópa tungumálakennara, skólastjórnenda, foreldra og nemenda. Tungumálatorgið er ætlað öllum skólastigum og fullorðinsfræðslu.


Upplestrarkeppnin
Eitt af þeim verkefnum sem DKG konur koma að er  „Stóra upplestrarkeppnin“ en Ingibjörg Einarsdóttir í Gammadeild er ein af frumkvöðlum þessa verkefnis og stýrir því um allt land. Börn sem tekið hafa þátt í þessari keppni lásu upp Passíusálmana í Hallgrímskirkju á föstudaginn langa árið 2005 og aftur árið 2010.

Viðbót í janúar 2013: Þess má geta að á nýársdag 2013 var Ingibjörg sæmd heiðursmerki hinnar íslensku fálkaorðu fyrir framlag til eflingar á lestrarhæfni grunnskólanema.


 Þekking – þjálfun – þroski

Þekking – þjálfun – þroski. Afmælisrit DKG.Í tengslum við 30 ára afmæli samtakanna var ráðist í að gefa út mjög glæsilegt og veglegt afmælisrit með greinum um uppeldis- og fræðslumál eftir félagskonur. Þetta fallega og fróðlega rit er nú uppselt en hægt að nálgast á bókasöfnum og ef til vill fornbókasölum. Hér er hægt að skoða efnisyfirlitið, en einnig má skoða ritið á baekur.is, vef Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns. Þar er einnig hægt að hlaða niður ritinu á .PDF formi.


Síðast uppfært 26. ágú 2025