Landsambandsþing 2015

Að vera tengdur - uppspretta skólaþróunar og skapandi leiða í námi.

Laugardagur 9. maí 2015:

Lokapunkturinn á starfi landssambandsstjórnar 2013–2015 var landssambandsþingið sem haldið var í Reykjavík 9.–10. maí 2015. Yfirskrift þingsins var: Að vera tengdur – uppspretta skólaþróunar og skapandi leiða í námi. Undir þeim hatti voru fluttir fimm fyrirlestrar sem á einn eða annan hátt tengdust þessu þema: 

Tamyra Burnett-Telles, sem starfar nú sem aðstoðarskólastjóri í alþjóðlegum grunnskóla í Svíþjóð en er menntaður tónlistarkennari frá Flórída, flutti fyrirlestur sem hún nefndi: Að bæta námsárangur gegnum tónlist. Tamyra fékk styrk frá International Speakers Fund (einn af sjóðum alþjóðasambandsins) til að heimsækja okkur með erindi sitt. 
Rannveig Björk Þorkelsdóttir, doktorsnemi í kennslufræði leiklistar og leiklistarkennari flutti erindið: Er kominn tími fyrir leiklist? Hún lagði áherslu á að þó svo að leiklist sem listgrein sé nú hluti af list- og verkgreinum í Aðalnámskrá grunnskóla er ekki þar með sagt að framgangur hennar sé tryggður. Leggja þarf áherslu á að námsgreinin sé notuð innan skólanna sem sjálfstæð listgrein og samþætt öðrum greinum. Menntun í leiklist snýst um að þjálfa nemendur í aðferðum listgreinarinnar en ekki síður um læsi á leiklist í víðu samhengi og á að dýpka skilning nemenda á sjálfum sér, mannlegu eðli og samfélagi. Í leiklist fá nemendur tækifæri til að setja sig í spor annarra og prófa sig áfram með mismunandi tjáningarform, hegðun og lausnir í öruggu umhverfi í skólanum

Frímann Kjerúlf, myndlistarmaður og eðlisfræðingur, sagði frá stærðfræðiáfanga sem kenndur hefur verið til stúdentsprófs í Myndlistarskólanum í Reykjavík, þar sem vísindi og stærðfræði eru kennd út frá sjónarhóli og þörfum myndlistar og hönnunar. Fyrirlesturinn nefndi hann: Um tengsl myndlistar og stærðfræði. 

Að loknum dýrindis hádegisverði fluttu þær Kristín Jónsdóttir lektor og Anna Kristín Sigurðardóttir, dósent á menntavísindasviði Háskóla Íslands fyrirlesturinn: Starfshættir í grunnskóla við upphaf 21. aldar. Í erindinu kynntu þær rannsókn með sama nafni, gáfu innsýn í meginniðurstöður og fjölluðu m.a. um gildi samstarfs og teymisvinnu fyrir starfsánægju og skólaþróun. 

Síðasta fyrirlesturinn flutti Rakel G. Magnúsdóttir, upplýsingatæknikennari og ráðgjafi. Hún sagði frá nokkrum verkefnum þar sem tæknin hefði opnað gáttir milli ólíkra sviða og greina og gefið tækifæri til skapandi vinnubragða í erindi sem hún nefndi:  Reynslusögur af vettvangi.

Vinnusmiðjur þar sem þær Rakel og Tamyra buðu þátttakendum að kynnast af eigin raun þeim leiðum sem þær ræddu í fyrirlestrum sínum var svo endapunkturinn á þessari fróðlegu fræðsludagskrá.

Að þessu loknu var haldið í Sjóminjasafn Reykjavíkur með viðkomu í versluninni Kraum þar sem fræðst var um verslunina og það handverk sem þar er boðið uppá. Einnig var stansað á nokkrum sögustöðum á leiðinni. Í Sjóminjasafninu var dr. Sigrún Klara Hannesdóttir heiðruð fyrir vel unnin störf í þágu samtakanna og boðið var upp á fjölbreytta fingrarétti af hlaðborði undir ljúfum tónum Kristjönu Stefánsdóttur söngkonu. Við óskum Sigrúnu innilega til hamingju.

Sunnudagurinn, 10. maí 2015:

Á sunnudeginum var aðalfundur landssambandsins haldinn með hefðbundnum aðalfundarstörfum. Ný stjórn var kosin til næstu tveggja ára. Í stjórninni sitja: Eygló Björnsdóttir, Betadeild, Kristín Jónsdóttir, Gammadeild, Sigríður Johnsen, Kappadeild, Jónína Eiríksdóttir, Deltadeild, og Inga María Ingvarsdóttir, Þetadeild. Jensína Jensdóttir, Deltadeild, verður áfram gjaldkeri landssambandsins og Auður Torfadóttir, Etadeild, lögsögumaður. Guðbjörg M. Sveinsdóttir, Þetadeild, fráfarandi formaður, starfar með stjórninni.

Dagskrá til útprentunar

Fundargerð aðalfundar á landssambandsþingi 2015


Síðast uppfært 05. mar 2024