Indianapolis 2014

Alþjóðaþing Delta Kappa Gamma haldið í Indianapolis í Indiana 28. júlí–1. ágúst 2014 
Fyrir hönd Íslands sátu þingið þær Sigrún Klara Hannesdóttir, Guðbjörg Sveinsdóttir, Ingibjörg Jónasdóttir og Sjöfn Sigurbjörnsdóttir. 
 
Sjöfn Sigurbjörnsdóttir tók pistilinn saman:
 
Við Sigrún Klara komum til JW Mariott hótelsins í Indianapolis laugardagskvöldið 26. júlí en þingið stóð frá mánudeginum 28. til föstudagskvöldsins 1. ágúst. Ég hafði verið beðin um, af alþjóðaforsetanum Beverly Helms, að sitja í nefnd sem færi yfir fundargerðir þingsins og var fyrsti fundur nefndarinnar sunnudaginn 27. júlí.

Þar komst ég að því að það „að fara yfir fundargerðir“ þýddi að skrifa fundargerðir þingsins. Til þess að gera langa sögu stutta gekk það bara vel og kynntist ég þar skemmtilegum konum en við vorum fimm í nefndinni.
 
Þingið var sett mánudagskvöldið 28. júlí með pompi og prakt - kallað Indianakvöld. Við upphaf þingsins komu forsetar gangandi með fána landa sinna. Guðbjörg var glæsileg í þjóðbúningnum. Þar kom borgarstjórinn fram og sagði m.a. frá mömmu sinni, sem hafði verið kennari og Delta Kappa Gamma félagi. Vel þekkt hljómsveit lék og söng og varð þetta fjörugt kvöld - allir skemmtu sér vel. Ég segi allir vegna þess að sumar konur taka eiginmanninn með.
 
Á öðrum degi þingsins voru, alþjóðaforsetar, svæðisforsetar, fimm í uppstillinganefndinni og fleiri kynntar en við höfðum verið tilnefndar af uppstillinganefnd samtakanna til þess að taka við 2014-2018.
(í Uppstillinganefnd eru konur kosnar til fjögurra ára í senn 2014-2018). Kosningin sjálf fór svo fram fimmtudaginn 31. júlí frá kl. 6:30 - 9:00. Ég fékk rúmlega 80% kosningu og var ánægð með það.
 
Á miðvikudag var fundur í European Forum, sem Sigrún Klara stýrði, en Anu Ariste forseti frá Estóníu hélt skemmtilegt erindi og sænski forsetinn, Ann-Katrín Sward, flutti erindi um skólamál. Eftir það var myndataka.
 
Á þinginu voru ýmiss konar fjárhagstillögur samþykktar. Tillaga um að birta greinar í Delta Kappa Gamma Bulletin á öðru máli en ensku kom fram. Þessi tillaga kom frá Puerto Rico. Mikil og fjörug umræða - ýmsar tillögur eins og t.d. að birta útdrætti úr greinum voru ræddar. Tillaga kom fram um að vísa tillögunum til nefndarinnar og var samþykkt. Tillaga kom fram um að í stað 30 nýrra félaga í nýju landssambandi kæmu 60. Þessu mótmælti Sigrún Klara með góðum rökum og urðu miklar umræður, sem enduðu þannig að breytingartillaga var samþykkt þannig að í stað 60 komi 40 - farinn millivegur og virtust konur almennt sáttar.
 
Aðaltillagan var um rafræna kosningu í aðalstjórn samtakanna. Hún var mikið rædd og höfðu nokkrir undirbúningsfundir verið haldnir á fyrstu dögum þingsins. Mér persónulega leist ekki vel á tillöguna þar sem hver þingkona átti að kjósa á alþjóðaþingi - one vote - one person. Það yrði því erfitt fyrir þau sambönd eða ríki sem ættu fáa þingfulltrúa. Við erum t.d. ekki margar frá Evrópu sem sækjum alþjóðaþingin vegna kostnaðar. Ég fékk ekki nógu góð svör við því, hvernig framkvæmd kosninganna ætti að vera. Framkvæmd kosninganna er þannig núna að landsambandsforsetar greiða atkvæði og fer atkvæðamagnið eftir fjölda innan hvers landsambands.
 
Heitar umræður urðu um þetta mál, sem var vel undirbúið og útskýrt af formanni nefndarinnar. Tillagan var ekki samþykkt - náði ekki 2/3 atkvæða - 493 voru með og 405 á móti. Sigrún Klara sat í nefndinni og stjórnaði einum undirbúningsfundinum. Kosningum var stjórnað af alþjóðaforseta Beverly Helms og lögsögumanni Jean Gray af miklum skörungskap. Jean Gray er að hætta sem lögsögumaður stjórnarinnar eftir margra ára setu og er mikil eftirsjá að henni. Hún var dugleg að gefa öllum góð ráð.
 
Þingið sóttu þrír vel þekktir ræðumenn. Ron Rosenberg sagði frá „Hidden Secrets to Doubling Your Memory,“ sem kenndi okkur hvernig við ættum að muna betur. Dr. Ellen Kennedy sem stofnaði stofnunina Heimur án útrýmingar eða World Without Genocide, flutti magnað erindi um stríð fyrri alda og ára og þau sem nú standa yfir. Stofnunin hvetur m.a. fólk til þess að taka mál í sínar hendur til bjargar saklausu fólki, koma í veg fyrir útrýmingu og berjast gegn kynþáttamisrétti og fordómum. Knowledge is power en enn betra knowledge plus action equals power. Þekkingin ein og sér er ekki nóg - framkvæmdin þarf að fylgja. Síðast en ekki síst flutti ung kona Sarah Sladek  kröftugt erindi við opnunina: The End of Membership as We Know It, hvernig við getum eflt samtökin með góðum hug og ráðleggingum.
 
Þinginu var slitið á föstudagskvöldinu með hátíðarsamkomu. Kvöldverður þar sem við í Nominations nefndinni sátum saman. Framkvæmdastjórnin var kölluð upp á svið, sú gamla og sú nýja með Lyn Schmid nýjum alþjóðaforseta og Beverly Helms fyrrverandi sem og fyrrverandi og núverandi varaforsetar, svæðastjórnirnar fimm og fleiri. Þær fyrrverandi voru kvaddar og þeim þökkuð vel unnin störf og þær nýju kynntar og boðnar velkomnar til starfa. Nominations nefndin var kölluð upp, hver og ein af þeim fimm nýju kynnt og sagt frá störfum þeirra og áhugamálum, þær boðnar velkomnar til starfa og hinum sem víkja, þökkuð vel unnin störf við að velja nýja stjórnendur samtakanna. Þetta var allt vel gert og mjög hátíðlegt.
 
Það er bæði fróðlegt og mjög skemmtilegt að sækja alþjóðaþing Delta Kappa Gamma, sem haldin eru annað hvert ár í hinum ýmsu borgum í Bandaríkjunum. Næsta alþjóðaþing verður í Nashville, Tennessee 5. - 9. júlí 2016. Nashville er kölluð tónlistarborgin, en þar eru líka háskólar og aðrar þekktar menntastofnanir. Það verður áhugavert að sjá hvernig þeir blanda saman menntun og tónlist.  

Síðast uppfært 01. sep 2020