Borås 2015

Evrópuráðstefna Delta Kappa Gamma 2015 
haldin í Borås í Svíþjóð 5.–8. ágúst
Education - A Lifelong Dedication 
 
Sól og blíða tók á móti þreyttum íslenskum fulltrúum DKG sem söfnuðust saman á ráðstefnuhótelið í Borås þriðjudaginn 4. ágúst, sumar eftir hremmingar á leiðinni. Allar náðu á leiðarenda, hristu af sér ferðarykið, dubbuðu sig upp og hittust til skrafs og ráðagerða. Eygló Björnsdóttir, forseti DKG á Íslandi, var mætt degi fyrr, þar sem hún sat fundi Evrópuforsetanna. Ráðstefnuna sóttu konur frá átta Evrópulöndum, Bandaríkjunum, Kosta Ríka og Mexíkó. Alls sóttu 13 konur frá Íslandi ráðstefnuna. Voru flestar með hlutverk og sumar fleiri en eitt. 

Íslensku þátttakendurnir

Miðvikudagurinn 5. ágúst var einn af hlýjustu dögum sumarsins í Svíþjóð. Við höfðum í nógu að snúast við undirbúning kynninga á alþjóðanefndum sem sjö íslenskar konur sitja í. Þær eru Sjöfn Sigurbjörnsdóttir, Alfadeild, í Nominations-nefnd, Auður Torfadóttir, Etadeild, í Constitution-nefnd, Ingibjörg Jónasdóttir, Gammadeild, sem er formaður í Membership-nefnd, Guðný Helgadóttir, Gammadeild, í Educational Excellence-nefnd, undirrituð, Alfadeild, í Scholarship-nefnd, Eygló Björnsdóttir, Betadeild, í World Fellowship-nefnd og Dagbjört Ásgeirsdóttir, Mýdeild, í Educators Award-nefnd. Dagbjört átti ekki heimangengt og tók Hertha Jónsdóttir að sér hennar hlutverk. 
 
Allar nefndirnar voru með áhugavert kynningarefni. Ég var með eins konar gjörning í kaffihléi og fékk nokkrar konur, þeirra á meðal dr. Barböru Day, fyrrverandi alþjóðaforseta, til að ganga um með skilti og spyrja konur hvort þær vissu að styrkur til doktorsnáms væri 10 þúsund dollarar og sex þúsund til mastersprófs. Þær sem voru svona elskulegar fengu "one dollar" súkkulaði fyrir ómakið. Sú nýjung var að Nominations-, Golden Gift- og Scholarship-nefndirnar héldu sameiginlegan kynningarfund sem var vel sóttur, en þær sjá allar um að úthluta styrkjum og embættum. Nominations-nefndin, sem er kosin til fjögurra ára, velur til að mynda alþjóðaforsetana þrjá og í 18 önnur æðstu embætti samtakanna, Golden Gift-nefndin velur konur til þátttöku á leiðtoganámskeið sem haldið er á tveggja ára fresti og Scholarship-nefndin úthlutar styrkjum til doktors- og mastersnema. 
 
Á meðan hlé var gert á aðaldagskrá á fimmtudag og föstudag fluttu frábærar DKG-konur marga áhugaverða stutta fyrirlestra, "Breakout Sessions". Ýmsir fagrir hlutir, skartgripir og minjagripir voru seldir á markaðstorgi og rann ágóðinn til DKG og ýmissa góðgerðamála. Íslensku konurnar létu ekki sitt eftir liggja því DKG-spilin sem Guðbjörg Sveinsdóttir, fyrrverandi forseti, lét hanna gerðu mikla lukku.
 
Klukkan 18.30 rann stóra stundin upp þegar Evrópuráðstefnan var sett við hátíðlega athöfn og forsetar gengu inn með fánana. Marianne Skardeus Evrópuforseti setti ráðstefnuna, aðstandendur ráðstefnunnar kynntu dagskrá, borgarstjóri bauð gesti velkomna til Borås, alþjóðaforseti DKG ávarpaði ráðstefnuna og síðan var tónlistaratriði. Eftir setningarathöfnina var Svíþjóðarkvöld, þar sem boðið var upp á léttar veitingar og miðsumarnæturstemningu með söng og þjóðdönsum. 
 
Fimmtudaginn 6. ágúst mættu konur hressar og kátar í glæsilegan morgunverð fyrir allar aldir enda langur og strangur dagur fram undan. Dagurinn leið við ráðstefnustörf, kynningar á nefndum, stutta fyrirlestra og hádegisverðarfund. Síðdegis var farið í skoðunarferð í Navet Science Center, sem er stórmerkilegt tækni- og vísindasetur fyrir börn og unglinga. Um kvöldið var boðið upp á kvöldverð og sérlega glæsilega tískusýningu, kynningu á Milook-fatnaði, en fyrirtækið hannar föt fyrir allar stærðir kvenna undir einkunnarorðunum Vertu stolt af sjálfri þér. Meðal sýningarstúlkna voru nokkrar DKG-konur úr undirbúningsnefnd ráðstefnunnar, konur sem voru ekki alveg með það á hreinu hvar þær áttu að ganga og fara inn og út úr salnum, en það gerði sýninguna bara skemmtilegri. Í lokin gátu konur keypt fatnað og fóru margir Milook-pokar á ráðstefnuhótelið þetta kvöld. Þannig lauk góðum degi. 
 
Föstudagurinn 7. ágúst var fagur og hlýr og dagurinn tekinn snemma. Fyrirlesararnir, sem flestir voru sænskir, voru úr ýmsum geirum uppeldis- og menntamála. Fyrirlestrarnir voru um margvísleg uppeldis- og menntamál og má nálgast þá á vefsíðu þingsins

Eftir hádegi var kynningarfundur um framhaldsskólamenntun í Svíþjóð. Síðdegis var boðið upp á tvær skoðunarferðir. Sú fyrri var í Textile Fashion Centre, sem opnað var fyrir ári. Miðar seldust fljótt upp og ekki höfðu allar verið svo forsjálar að ná sér í þá fyrir fram; undirrituð missti því miður af kynningunni. Í hinni ferðinni voru skoðaðar styttur bæjarins, sem má með sanni segja að lífgi upp á menningar- og hönnunarborgina Borås.
 
Um kvöldið var hátíðakvöldverður, en áður fengu konur stutta stund til að dubba sig upp í sitt fínasta púss. Raðað var til borðs og konum dreift um salinn svo þær kynntust betur. Alþjóðaforseti og Evrópuforseti sáu um að kalla nýju forsetana á svið og kynna þá hátíðlega og fengu þeir að sitja saman. Borgarstjórinn í Borås, Lynn Palmén, flutti stutt ávarp. Dr. Lyn Babb Schmid, alþjóðaforseti DKG, hélt ræðu og síðan voru glæsileg tónlistaratriði. Lúðrasveit lék skemmtilega útfærslu á DKG-söngnum og veislugestir dilluðu sér í takt við tónlistina. Var þetta ánægjulegt kvöld.
 
Laugardagur 8. ágúst
Að loknum aðalfundarstörfum var European Award veitt. Það er alltaf spenna í loftinu áður en ljóst er hver hlýtur heiðursnafnbótina og að þessu sinni féll hún í skaut hinni hollensku Trijny Schmidt du Moulin Dijkemaa. Hún er vel að henni komin og ríkti mikil ánægja með valið. Næsta Evrópuráðstefna  verður haldin árið 2017 í Eistlandi. Eistnesku konurnar sýndu skemmtilega kynningarmynd og væri gaman að fjölmenna til Eistlands. Alþjóðaforsetinn dr. Lyn Babb Schmid þakkaði fyrir góða ráðstefnu. Bað hún konur að fjölmenna til Nashville 2016 á alþjóðaþing DKG og sýndi sérlega skemmtilegt kynningarmyndband sem má sjá á dkg.org vefnum. Evrópuforsetinn Marianne Skardeus þakkaði í lokin fyrir góða ráðstefnu og síðan gengu forsetar með fánana úr salnum.
 
Þegar kom að lokaathöfninni voru því miður margar kvennanna farnar. Kynnti Ingibjörg Jónasdóttir fyrir hönd Dagbjartar að Educators Award-verðlaunin hlyti bókin It's Complicated: The Social Lives of Networked Teens eftir Danah Boyd. Alþjóðaforsetinn dr. Lyn Babb Schmid kynnti að æðsta heiðursmerki samtakanna, International Achievement Award, hlyti að þessu sinni Carolyn H. Pittman frá Arkansas, sem er þekkt fyrir störf sín innan samtakanna. Hollensku konurnar færðu sænsku konunum lítið ljós frá Amsterdam þar sem Evrópuráðstefnan var haldin 2013, og eiga þær að koma með það til Eistlands eftir tvö ár.
 
Sigríður Ragna Sigurðardóttir, Alfadeild

Síðast uppfært 08. sep 2018