Afríkuverkefnið

Á alþjóðaþingi Delta kappa Gamma sumarið 2010 var lögð fram tillaga þess eðlis að samtökin tækju sig saman um að styrkja eitt ákveðið verkefni sem gæti orðið börnum, og einkum þó stúlkum, til gagns fyrir framtíðina.

Valnefnd starfaði á vegum stjórnarinnar til að skoða ýmis konar tillögur og voru alls um 20 verkefni, smá og stór, skoðuð og metin með tilliti til þess hversu mikið gagn þau gætu gert. Niðurstaða nefndarinnar varð sú að leggja til við þingið að samþykkja verkefni sem rekið er af UNICEF og Nelson Mandela Foundation og kallast Schools for Africa. Ein rökin með því að styðja þessa tillögu voru að flest lönd þar sem Delta Kappa Gamma starfar styðja verkefnið. Þó var Ísland undantekning þar til nýlega.

Þegar verkefnið hafði verið samþykkt á alþjóðaþinginu, fóru Ingibjörg Jónasdóttir forseti landssambandsins og Sigrún Klara Hannesdóttir sem sat í valnefndinni, á fund UNICEF á Íslandi til að kanna hvort Íslands-deild UNESCO gæti skráð sig sem stuðningsaðila verkefnisins. Flóki Guðmundsson, fjáröflunarfulltrúi UNICEF, svaraði okkur eftir nokkra daga og lagði til eftirfarandi form á samstarfinu:

Það fer best á því að þið safnið saman framlögum frá ykkar félagskonum og afhendið einu sinni á ári, t.d. um jól eða öðru hvoru megin við áramót ... allt eins og ykkur sýnist best. Við komum styrknum áfram til Schools for Africa-verkefnisins í landi að ykkar vali, en hægt er að velja á milli ellefu landa: Angóla, Búrkina Fasó, Eþíópía, Madagaskar, Malawi, Mali, Mozambique, Níger, Rúanda, Suður Afríka og Simbabwe. Um mánaðarmótin febrúar/mars mun ég svo standa skil á skýrslu til ykkar um verkefnið í viðkomandi landi, framgang þess og um leið staðfestingu á framlagi ykkar.

Þetta táknar að bæði einstaklingar og deildir geta sent einhverjar krónur, margar eða fáar, til UNICEF og annað hvort tilgreint hvaða land þær vilja styrkja eða að peningarnir fara beint til verkefnisins. Fordæmi eru fyrir því að Delta Kappa Gamma deildir á Íslandi veiti styrki til UNICEF og vitum við að Beta-deildin á Akureyri gerir það árlega. Einnig hafa konur í Delta-deild safnað peningum á fundum sínum til að styrkja verkefnið. Gaman væri til dæmis að nota þetta sem jólagjöf eða jólastyrk til verkefnisins og vita að peningarnir koma í góðar þarfir.

Benda má á að hægt er að leggja inn á reikning Landssambands DKG, 546-26-2379, kennitala: 491095-2379 og setja UNICEF sem skýringu.  

Sigrún Klara Hannesdóttir, Alfadeild


Síðast uppfært 24. okt 2017