Vorráðstefna 2016

Vorráðstefna haldin í Setbergsskóla í Hafnarfirði 30. apríl 2016

Fjölmenning og samtakamáttur

Fjölmenning og samtakamáttur var efni vorráðstefnu DKG sem haldin var í Setbergsskóla laugardaginn 30. apríl og þar hittust um 80 DKG systur, gestir og fyrirlesarar í fallegu vorveðri. Eygló Björnsdóttir, forseti samtakanna, setti ráðstefnuna með stuttu ávarpi og lofaði góða mætingu og líf í samtökunum. Þar næst fluttu þrír sigurvegarar Stóru Upplestrarkeppninnar í Setbergsskóla úrvalsljóð eftir íslensk ljóðskáld af mikilli snilld. 
 
Fyrsta erindi dagsins hélt Donna-Faye Madhosingh frá Vancouver fulltrúi alþjóðasambandsins. Hún bar okkur kveðjur forseta sambandsins, sem hvatti okkur til að nota nýju heimasíðu samtakanna og sagði ýmsar fréttir. Tíminn hljóp frá Donnu-Faye og lítill tími varð fyrir fyrirlestur hennar Mindfulness Matters. Mindfullness eða  núvitund snýst um að taka eftir á ákveðinn hátt, meðvitað, í augnablikinu og án þess að dæma. 
Hér má nálgast glærur Donnu Faye ásamt umfjöllun um glærurnar sem hún sendi okkur að þinginu loknu.
 
Hrafnhildur Kvaran, verkefnastjóri hjá Rauða krossi Íslands, flutti erindið Móttaka flóttamanna á Íslandi. Hún talaði um aðlögunarferli bæði flóttafólks og samfélagsins sem tæki á móti þeim og hve mikilvægt væri að gefa þessari aðlögun góðan tíma. Hún minnti okkur á hvernig staða flóttafólks er allt önnur en þeirra sem flytja sjálfviljugir búferlum. Mikilvægast er að gefa fólki tíma til að átta sig á nýjum aðstæðum og tækifærum. Mikilvægt er að stuðningur sé lengri en eitt ár, því eftir eitt ár er aðlögun að hefjast fyrir alvöru. Flóttafólki fylgja ekki leiðbeiningar en það er mikilvægt að við tileinkum okkur virðingu og æðruleysi. 
  • Hér má nálgast glærur Hrafnhildar.
Anna Lára Steindal heimspekingur flutti erindið Fjölmenning: Forsendur, lærdómur og möguleikar. Hún sagði íslenskt samfélag þurfa að axla ríkari ábyrgð. Fjölmenningarverkefni væru tvíþætt, praktísk verkefni með samfélagslegum áskorunum og hugmyndafræðileg verkefni um í hvers konar samfélagi við viljum lifa og hvert við stefnum. Við þurfum að skoða vel hvað aðrar þjóðir gerðu ekki og skilgreina hugmyndir miklu betur. Gagnkvæm aðlögun er það sem við ættum að stefna að, sem felst í að gefa og þiggja með aðlögun í báðar áttir. Hér má nálgast glærur Önnu Láru Steindal.
 
Anh-Dao Tran nýdoktor og rannsakandi á Menntavísindasviði HÍ flutti erindið Vannýtt auðlind: Nemendur af erlendum uppruna í framhalds¬skólum á Íslandi. Ungir innflytj¬endur glíma við ýmsa erfiðleika og hætta oftar í skóla en íslenskir jafnaldrar þeirra. Þá vantar tengslanet og íslenskukunnáttu. Skólakerfið sér skort hjá þessum nemendum frekar en að sjá auðinn í þeim. Anh-Dao kynnti líkan Banks (2005), sem segir að í fjölmenningarlegri menntun felist fimm þættir: Samþætting inntaks, uppeldisfræði jöfnuðar og réttlætis, að smíða þekkingu, að minnka fordóma, og skólamenning sem eflir. Á þetta þarf skólaþróun í fjöl¬menningarsamfélagi að leggja áherslu og við þurfum mismunandi og margvíslegar kennsluaðferðir. Anh-Dao kom að lokum með þá tillögu að DKG setji markmið og útfæri hugtakið fjölmenningu og bjóði fleiri konum af erlendum uppruna í samtökin okkar.
 
Að loknum girnilegum hádegisverði þar sem matarborð voru fagurlega skreytt listaverkum eftir leikskólabörnin á  leikskólanum Hlíðarbergi í Hafnarfirði flutti Carol Kraus, fyrrverandi leikskólakennari og fyrirlesari á vegum International Speakers Fund, erindið Curriculum of Hope for a Peaceful World: Establishing knowledge, acceptance and understanding among cultures. Hún benti á hlutverk okkar allra til að gera heiminn að betri stað með því að fagna fjölbreytileikanum, vernda náttúruna og vinna að friði, og hvatti okkur til að kynna okkur Heimsmarkmiðin, markmið Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun til ársins 2030. Carol sagði frá margvíslegu fræðsluefni sem gert hefur verið í tengslum við þetta efni og þær telja bestu leiðina vera að styrkja alls konar listastarfsemi. Hún benti á komu Friðarskipsins sem kemur til Reykjavíkur 11.-12. október næstkomandi. Það siglir umhverfis hnöttinn, leggur upp frá Japan 18. ágúst, hefur viðkomu í 26 höfnum víðs vegar um heiminn og kemur aftur til hafnar í Japan 30. nóvember. 
 
Síðast á dagskránni var erindi Margrétar Aðalheiðar Markúsdóttur uppeldis- og menntunarfræðings, Viðhorf ungmenna til mannréttinda innflytjenda og móttöku flóttamanna. Í meistaraprófsverkefni sínu kannaði hún hug 14–18 ára þátt¬takenda til borgaraviðhorfa í mannréttindasamfélagi. Niðurstöður voru að mestu jákvæðar, til dæmis voru þeir flestir sammála því að börn innflytjenda hafi sömu réttindi og önnur börn. Stúlkur reyndust vera jákvæðari en piltar. Flestum ungmennanna var umhugað um tækifæri innflytjenda í samfélaginu og töldu íslenskukunnáttu vera mikilvægan lykil að þeim. Einnig lögðu þau áherslu á að innflytjendur ættu að fá að viðhalda sjálfsmynd tengdri upprunamenningu; þeir eigi að fá að njóta jafnréttis og að fordómar fólks geti komið í veg fyrir þátttöku þeirra í samfélaginu. 
Fleira skemmtilegt fór fram á vorráðstefnunni fyrir utan fyrirlestrana. Dregið var í happdrætti þar sem sumar voru heppnari en aðrar og á milli atriða voru konur látnar syngja og hreyfa sig til að hrista aðeins upp í mannskapnum. Allur viðurgjörningur og veitingar voru til fyrirmyndar og nutu konur dagsins. Í lok ráðstefnunnar var öllum boðið í móttöku í Hafnarborg á vegum Hafnarfjarðarbæjar og héldu Delta Kappa Gamma systur heim eftir það saddar og sælar.
Ágóði af happadrættinu var látinn renna til verkefnisins Vinir Perú en það eru hjálparsamtök sem stofnuð voru 1. desember 2007 af fjórum Íslendingum eftir ferðalag til Perú fyrr á árinu. 
 
Þessi samantekt er unnin upp úr umfjöllun Valgerðar Magnúsdóttur, Kappadeild um vorráðstefnuna í Vorfréttabréfinu 2016 en þar er ýtarlegri umfjöllun um ráðstefnuna og myndir eru í myndamöppu hér á vefnum.

Síðast uppfært 02. okt 2020