Landsambandsþing 2013

Landsambandsþing samtakanna á Íslandi var haldið að Hótel Heklu á Skeiðum 4.–5. maí 2013. Að þessu sinni hélt Epsilon-deild á Suðurlandi utan um þingið sem bar yfirskriftina „Á flekamótum“.

Tveir erlendir gestir voru sendiboðar alþjóðasamtakanna, Dr. Lyn Babb Schmid annar varaforseti alþjóðasamtakanna og Dr. Margaret Trybus sem var gestafyrirlesari fyrri daginn.
Þegar forseti samtakanna, Sigríður Ragna Sigurðardóttir, hafði setti þingið lék Sigríður Lára Jóhannsdóttir nemandi í Þjórsárskóla tvö lög á fiðlu fyrir gesti.

Jenna Jensdóttir heiðruð

Dr. Margaret Trybus, aðstoðar-deildarforseti við Concordia University Chicago, flutti fyrsta erindið sem bar heitið “Leading School Change - Navigating Systems for Improvement”. Hún fjallaði um hvernig breytingar á starfsferli gefur oft nýja sýn á tilveruna. Margaret ræddi m.a. um hvernig ný pólitísk sýn hefði verið mörkuð á Íslandi frá árinu 2008 og hvernig hún birtist í nýrri aðalnámskrá. Námskráin birtir sex stoðir: Literacy (læsi), Sustainability (stöðugleiki), Health(heilsa), Welfare(velferð), Democracy og Human rights(lýðræði og mannréttindi), Equality and Creativity(jafnrétti og sköpun). Hún benti á að þessi nýja sýn gæti gert okkur hrædd því með henni þurfi að taka áhættu. Við viljum gjarnan bæta stöðugt við þekkingu hjá nemendum en síðan situr oft lítið eftir hjá þeim. Margaret sagði að við þyrftum að sjá breytingar sem tækifæri.

Jóhanna Einarsdóttir prófessor á Menntavísindasviði HÍ kynnti rannsókn sem hún hefur unnið að lengi „Úr leikskóla í grunnskóla“ Í henni einbeitir Jóhanna sér að sjónarmiðum barna og skoðar samfellu í námi þeirra. Nýja námskráin frá 2011 leggur áherslu á leik, samþættingu, skapandi starf, mat á skólastarfi og á hæfni nemenda. Lögð er áhersla á samfellu og upplýsingagjöf milli skólastiga. Hún fór yfir niðurstöður úr fjórum rannsóknum þar sem hún rannsakar hvað börnin sjálf segja og hvað væntingar þau hafa til skólagöngunnar. Í fyrstu rannsókninni voru tekin hópviðtöl við 48 leikskólabörn, 5 ára gömul. Þau töldu að þau þyrftu helst að læra reglur og læra að hegða sér. Skólinn væri alvarlegur staður þar sem þau myndu læra lestur og stærðfræði. Blendnar tilfinningar voru hjá börnunum sem töldu að þau myndu helst sakna félaganna og starfsfólksins og líka aðeins leiksins en ef til vill kæmu frímínútur í staðinn.

Kolbrún Pálsdóttir flutti fyrirlestur um skil milli frístunda og skóla. Hún fjallaði um niðurstöður sínar um hlutverk frístundaheimila í rannsókn sem hófst árið 2007 og fór gagnasöfnun fram á árunum 2008 -2010. Kannað var hvaða augum börnin líta á daglegt starf á frístundaheimilum og hvaða mun þau telja vera á skóla og frístundaheimili. Svör barnanna voru meðal annars: Á frístundaheimilinu fá þau að leika sér, vera með vinum og félögum og velja sér viðfangsefni. Í skólanum sitja þau við borð og kennarinn ræður en í frístund eru þau að leika sér og starfsfólkið hjálpar þeim að velja sér viðfangsefni. Þau þurfa mikið að bíða í grunnskólanum. Samstarf skóla og frístundaheimilis er lítið, kennarar skipta sér ekkert af starseminni þar og vita lítið hvað fer þar fram. Kennarar og starfsfólk frístundaheimila tala bara saman ef það eru einhver vandamál. Starfsfólkinu á frístundaheimilinu finnst skólafólkið hunsa sig. Þessir aðilar hittast ekki á sameiginlegum fundum eða vinna saman að undirbúningi. Á frístundaheimilum þarf að efla fagmennsku og sýnileika starfsins og í grunnskólanum þarf að efla skilning á gildi tómstundastarfs.

Gerður G. Óskarsdóttir fjallaði um rannsókn sína á samfellu í námi á skólastigunum þremur. Í rannsókninni skoðaði hún 30 skóla í Reykjavík, tók þar viðtöl, skoðaði lög og stefnur. Hún flokkaði starfshætti skólanna og skráði þá í þrep lárétt/lóðrétt. Mældi tíma og hvernig kennslustundinni var varið. Í framhaldsskólanum er mikið um að nemendur hlusta og horfa og mikil verkefnavinna fór fram heima. Svar eins nemanda var: „Það er kennt okkur eitthvað og svo bara verkefni“. Þegar kennararnir voru spurðir, töldu þeir sér takast vel að koma til móts við nemendur en þar er annað en Gerður sá í rannsókn sinni. Mikið er um endurtekningar á námsefni grunnskólans í íslensku, stærðfræði og náttúrufræði. Tillögur Gerðar eru að ein lög og ein samfelld námskrá verði útbúin fyrir leik-, grunn- og framhaldsskólann.

Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir talaði um að skil milli framhaldsskóla og framhaldsfræðslu væru á margan hátt lóðrétt.  Hún sagði frá Fræðslumiðstöð atvinnulífsins sem hóf starfsemi árið 2003. Markhópurinn er fullorðið fólk sem hefur ekki lokið námi frá framhaldsskóla. Það er stór hópur á Íslandi eða um 50%.  Hún ræddi um stöðu þessa hóps á vinnumarkaði og framhaldsfræðslu hjá viðurkenndum fræðsluaðilum. Fræðslu- og símenntunar miðstöðvar hafa vottaðar námsleiðir sem metnar eru til eininga á framhaldsskólastigi. Þar er hægt að fara í raunfærnimat þar sem einstaklingar eru metnir samkvæmt námskrá framhaldsskóla og einnig samkvæmt viðmiðum atvinnulífsins. Þetta hefur gengið mjög vel.

Rannveig Löve sem var heiðruð og Pálina Jónsdóttir

Guðrún Geirsdóttir greindi frá rannsókn á því hvernig er að koma nýr inn í háskóla.  Engin formleg námskrá er í háskólanum. Meginniðurstöður Guðrúnar eru að kennsluaðstæður í háskólum hafi mótast af kennurum og í ólíkum viðhorfum til nemenda og ákveðnum kennsluháttum. Hver eru þá viðhorf kennara til nemenda? Hvað er góður nemandi? Hvernig gengur nemendum að uppfylla væntingar kennarans? Hún sagði að þeir þyrftu að skilja reglurnar, hafa umhverfislæsi og athafnafærni. Nemendur upplifa að þeir standi á ákveðnum tímamótum, eftirvænting er mikil en hún er ógnvekjandi í byrjun. Hugmyndir og væntingar um námið framundan eru ekki í samræmi við raunveruleikann.

Að lokum flutti Bernharður Guðmundsson erindi sem hann kallar „Starfslok eru þau lán eða ólán nema hvorutveggja sé?“ Fyrrverandi starfsmaður er gildishlaðið hugtak og segir margt, hann hefur ekkert kennivald og vinnandi fólk tekur ekki mark á honum. Bernharður er orðinn sérfræðingur um starfslok og hefur hljómgrunn þar að lútandi. Starfslok vegna aldurs gerast ekki óvænt og það er engin undankomuleið. Mögulegt er að fagna frelsinu og því að hafa nægan tíma til að vinna að hugðarefnum sínum.

Að dagskrá lokinni var farið í ferð um Uppsveitir Árnessýslu undir leiðsögn Ásborgar Arnþórsdóttur ferðamálafulltrúa Uppsveitanna. Friðheimar í Reykholti voru skoðaðir og listakonan Anna Magnúsdóttir á Flúðum heimsótt. Við fengum höfðinglegar móttökur á báðum stöðum. Hátíðarkvöldverður beið okkar og Þóra Gylfadóttir söngkona söng undir borðum við undirleik Jóns Magnússonar. Hvílíkur söngur!

 Á aðalfundi félagsins seinni daginn voru þær Rannveig Löve í Gammadeild og Jenna Jensdóttir í Alfadeild sem báðar hafa unnið að menntamálum allan sinn starfsaldur heiðraðar. Rannveig sagði okkur hvað er mikilvægt að hafa trú á nemendum og efla sjálfstraust þeirra. Það er ef til vill mergurinn málsins þegar  menntun er annar vegar.

Rósa Marta Guðnadóttir í Epsilondeild tók saman.

Fundargerð aðalfundar á landssambandsþingi 2013


Síðast uppfært 05. mar 2024