Um DKG

The Delta Kappa Gamma Society International eru alþjóðasamtök kvenna í fræðslustörfum sem voru stofnuð af 12 konum í Austin í Texas 1929. Höfuðstöðvar samtakanna eru í Austin og þar er heimasíðu Delta Kappa Gamma Society International ritstýrt. Alþjóðasamtökin hafa nú landsdeildir í mörgum þjóðlöndum auk Bandaríkjanna.

Íslenska landsdeildin var stofnuð 7. nóvember árið 1975 með Alfa - deild í Reykjavík en landssambandið var stofnað 28. mars 1977. Í  skjölum alþjóðasambandsins er þó landsambandið talið stofnað 7. nóvember 1975 um leið og fyrsta deildin var stofnuð. Á Íslandi eru starfandi þrettán deildir með u.þ.b. 332 félagskonum. Fimm eru á höfuðborgarsvæðinu og ein í hverjum landshluta nema á Norðurlandi þar sem þær eru tvær. Deildirnar starfa sjálfstætt og halda a.m.k. fjóra fundi á ári. Deildirnar mynda landssamband og tilheyrir íslenska landssambandið Evrópusvæði sem stofnað var 1998. Annað hvert ár, á oddatölu, er haldið landssambandsþing og skiptast deildir á að halda þingið ásamt landssambandsstjórn. Nýjar deildir eru stofnaðar við hátíðlega athöfn og einnig eru nýir félagar teknir inn í starfandi deildir með viðhöfn. Konum er boðin þátttaka í Delta Kappa Gamma samtökunum. Þær sem ganga í samtökin hljóta full réttindi sem félagar í deild, landssambandi og alþjóðasamtökunum.

Hver deild starfar sjálfstætt og velur sér verkefni eftir áhuga og þörfum félaga í deildinni. Öll tengjast störfin markmiðum alþjóðasamtakanna. Landssambandið getur lagt fram tillögur að verkefnum og deildir geta ákveðið að vinna að sameiginlegu verkefni. Hægt er að sækja verkefni eða hugmyndir til alþjóðasamtakanna þar sem sérstakur starfsmaður vinnur við að aðstoða deildir og landssambönd.

Af viðfangsefnum sem deildir hafa unnið að má m.a. nefna:

  • Útgáfu bókar, bæklinga og veggspjalda.
  • Blaðaskrif um mennta- og menningarmál.
  • Fræðsluerindi um það sem er efst á baugi í fræðslu- og menningarmálum og/eða tengt verkefnum deilda.
  • Skoðun og umfjöllun um frumvörp til laga og áhersla lögð á að hafa áhrif á löggjöf.
  • Skoðun og umfjöllun um nýjar námskrá hverju sinni og önnur skólamál.
  • Unnið að gagnkvæmum kynnum milli skólastiga og fræðslustofnana.
  • Heimsóknir á ýmsar stofnanir og á menningarviðburði.
  • Bókmenntaumræða.
  • Land- og náttúruskoðun.

 

 


Síðast uppfært 08. maí 2019