Fundargerðir Lambdadeildar

Undir þessum lið munu birtast fundargerðir deildarinnar.

Fyrsti fundur Lamdadeildar starfsárið 2022-2023

Fundarstaður: Leikskólinn Sólhvörf – Gestgjafi: Gerður Magnúsdóttir leikskólastjóri
Mættar voru 12 félagskonur

 1. Sigurborg formaður þakkaði fyrr móttökurnar og setti fundinn með því að kveikja á kertunum þremur.
 2. Fundargerð síðasta fundar lesin en það var aðal – og inntökufundur 4. maí sl.
 3. Orð til umhugsunar- Birna Sigurjónsdóttir las ljóðið „Slyppugilshryggur“ úr bókinni „Við Hæfi“ eftir Heiðrúnu Ólafsdóttur
 4. Gerður Magnúsdóttir kynnti mastersrannsókn sína „Milli stúdentsprófs og heimsreisu“ sem er eigindleg rannsókn byggð á viðtölum við 9 unga starfsmenn á leikskólum um ástæður þess að þau velja ekki leikskóla sem framtíðar starfsvettvang. Niðurstöður rannsóknarinnar eru mjög áhugaverðar og eru m.a.
 • Slæm upplifun unga fólksins af eigin skólagöngu og lítil trú á eigin getu koma í veg fyrir að fólk fer í háskólanám
 • Áhrif foreldra þessa unga fólks á starfsvali þ.e. neikvæð áhrif sýn foreldra á starfið fæla frá því að ungt fólk velur þennan starfsvettvang
 • Sumt ungt fólk var einfaldlega búið að ákveða hvað það vildi læra og námsval þeirra löngu ákveðið
 • Upplifun unga fólksins á opinberri umræðu um leikskólastarfið hafði fælandi áhrif. Hér er átt við s.s. laun, álag, vinnutíma o.fl.
 • Áhrif vinnustaðarins á upplifun unga fólksins af starfinu. Hér spilar inn í hvernig starfsmenn tala um starfið og vinnustaðinn „ kaffistofu tuðið“

Áhugaverðar umræður um rannsóknina og mikilvægi þess að tala upp starfið sem og hversu mikilvægt það er að vera góðar fyrirmyndir.

 1. Gerður sýndi fundarmönnum leikskólann og þar standa m.a. yfir miklar framkvæmdir þar sem bæta á við heilli deild við skólann

 

 1. Sigurborg kynnti hugmyndir að fundartíma fundanna sem myndi vera á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum kl. 17-18.30 Fundartíminn var samþykktur

 

 1. Sigurborg og Steingerður kynntu hugmyndir að þema vetrarins og drög að starfsáætlun vetrarins. Um starfsáætlunina sköpuðust góðar umræður og nokkrar hugmyndir komu til viðbótar:
 • Nýsköpun og þróun í kennslu og menntun á Menntavísindasviði. Hæg heimatökin að fá Kolbrúnu forseta sviðsins til að kynna það - samþykkt
  Ábyrgð: Steingerður
 • Menntastefnan – Gerður sagði frá því að þar sem eiginmaður hennar vinnur í ráðuneytinu væri hann tilbúin til að koma og kynna hana og bauð fram Sólhvörf sem fundarstað aftur fyrir þá kynningu næst. Sá fundur yrði þá þriðjudaginn 20. september
  Ábyrgð: Sigurborg og Gerður
 • Farsældarlögin – hvaða áhrif hafa þau á störf þeirra sem vinna með og fyrir börn- samþykkt
  Ábyrgð: Steingerður
 • Fleiri hugmyndir ræddar s.s. Jóhanna sagði frá spennandi þróunarverkefni í Kópavogsskóla sem fjallar um að nemendur gera sjálfir sínar eigin bækur í Ipad
  Iðunn sagði frá skóla sem er starfræktur á netinu- Ásgarður
  Hólmfríður hefur líka boðið okkur í heimsókn í Þorrasel sem við vorum búnar að setja í drögin að starfsáætluninni
 1. Fleira ekki rætt. Sigurborg formaður sleit fundi kl. 18.35

Ársskýrsla Lambdadeildar

fyrir starfsárin 2020-2021 og 2021-2022

Inngangur

Ársskýrslan tekur til tveggja starfsára, þ.e. áranna 2020 til 2021 og 2021 og 2022. Formanni deildarinnar ber að skila ársskýrslu til forseta landssambandsins mánuði fyrir lands-sambandsþing. Fundargerðir allra félagsfunda Lambdadeildar hafa verið vistaðar á heimasíðu DKG en fundir urðu færri en áætlað var vegna heimsfaraldursins. Á þessum tveimur starfsárum voru haldnir átta félagsfundir og sex formlegir stjórnarfundir þar sem stjórnarmenn hittust og réðu ráðum sínum. Þess á milli voru þeir í samskiptum sín á milli í gegnum tölvupóst, lokaða facebook síðu eða í gegnum samskiptaforritið messenger.

Sautján konur eru skráðar í deildina. Félagsfundir voru boðaðir í gegnum samfélagsmiðilinn Facebook þar sem konur skráðu mætingu sína eða forföll. Að jafnaði mættu átta til tíu félagskonur auk gesta, sem við vorum duglegar að bjóða til okkar en markmiðið með því var að kynna starfsemi deildarinnar fyrir áhugasömum konum sem hefðu áhuga á að ganga til liðs við okkur síðar.

Fundirnir voru hefðbundnir, hófust á því að formaður setti fund með því að kveikja á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Þar á eftir voru orð til umhugsunar og fræðslukynningar í framhaldinu. Fundirnir hófust ávallt kl. 17.00 og stóðu í eina og hálfa klukkustund. Eftir að búið var að slíta fundi á formlegan hátt höfðu félagskonur tækifæri til að spjalla. Ávallt var boðið upp á veitingar á félagsfundum.

Starfsárið 2020 til 2021

Ný stjórn var kosin til tveggja ára á aðalfundi í Húsi Vigdísar Finnbogadóttur í júní 2020. Í september sama ár hittist ný stjórn og skipti með sér verkum á eftirfarandi hátt. Jódís Káradóttir formaður, Sigurborg Kristjánsdóttir ritari, Birna Sigurjónsdóttir og Ólafía Guðmundsdóttir meðstjórnendur og Iðunn Antonsdóttir gjaldkeri.

Á fyrsta stjórnarfundinum sem haldinn var í september 2020 var meðal annars; a) starfsáætlun fyrir komandi starfsár rædd og samþykkt, b) rætt um leiðir til þess að fjölga félögum, c) farið yfir uppfærslu félagatalsins og d) greint frá tilnefningu í samskipta og útgáfunefnd DKG en Birna Sigurjónsdóttir og Iðunn Antonsdóttir sitja nú í nefndinni fyrir hönd Lambdadeildar. Á þessum fundi var ákveðið að halda fjóra fundi á haustönn og fjóra á vorönn. Vegna heimsfaraldursins var enginn fundur haldinn á haustönn en tveir á vorönn. Á fyrri fundi vorannar flutti Birna Sigurjónsdóttir kynningu á samtökum fólks á þriðja æviskeiðinu U3A sem eru alþjóðleg samtök fólks á aldrinum 50+ og á síðari fundinum tók Þorgerður Anna Arnardóttir skólastjóri á móti félagskonum og sagði frá starfi, starfsháttum og byggingarsögu Urriðaholtsskóla.

 Starfsárið 2021 til 2022

Sex félagsfundir voru haldnir á síðara starfsárinu. Við heimsóttum listasafn Einars Jónssonar í boði ÖlmuDísar Kristinsdóttur Lambdasystur á fyrsta fundi okkar. Á öðrum fundi okkar fengum við kynningu á sjálfboðastarfi í Suður Afríku. Á þriðja fundi okkar var Anna Magnea Hreinsdóttir með fræðsluerindi um yngstu börnin í leikskólanum. Jólasamvera var í desember þar sem Arndís Þórarinsdóttir las úr bók sinni Bál tímans, örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár.  Fimmti fundurinn okkar var haldinn í Gerðubergi. Á þann fund mætti forseti landssambands DKG og kynnti samtökin fyrir væntanlegum félagskonum.

Síðasti fundur starfsársins er inntökufundur og síðan aðalfundur sem haldinn er í húsnæði Menntavísindasviðs og þar eru teknar inn þrjár nýjar félagskonur. Á aðalfundinum ganga Birna Sigurjónsdóttir og Jódís Káradóttir úr stjórn og í þeirra stað bjóða sig fram Björg Melsted og Steingerður Kristjánsdóttir. Sigurborg Kristjánsdóttir býður sig fram til formanns og Ólafía Guðmundsdóttir býður sig fram til að sitja áfram í stjórn. Iðunn Antonsdóttir verður áfram gjaldkeri deildarinnar.

Allar fundargerðir félagsfunda má nálgast á heimasíðu DKG undir Lambdadeild.

Lokaorð

Heimsfaraldurinn var þrándur í götu starfseminnar síðustu tveggja starfsára en þó tókst okkur að halda alls átta félagsfundi á þessum tveimur árum. Með hækkandi sól þá lítum við björtum augum til framtíðarinnar og erum staðráðnar í að efla starf deildarinnar með fjölgun félagskvenna og enn fjölbreyttara starfi á næstu árum.

 

Fundargerðir 2021-2022

Inntöku-og aðalfundur  Lambdadeildar 4. maí 2022

Sjötti félagsfundur Lambdadeildar sem jafnframt var inntöku- og aðalfundur var haldinn 4. maí  kl. 17.00 á Menntavísindasviði HÍ við Stakkahlíð.

Setning fundar. Formaður hóf fundinn með því að þakka, Kristínu Jónsdóttur deildarforseta í kennslu og menntunarfræðum við HÍ og DKG systur  fyrir móttökuna og í framhaldi setti hún fund með því að kveikja á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.

Nafnakall. Eftirtalar félagskonur mættu á fundinn; Birna Sigurjónsdóttir, Björg Melsted, Esther Ágústsdóttir, Guðbjörg Emilsdóttir, Iðunn Antonsdóttir, Jódís Káradóttir, Ólafía Guðmundsdóttir og Sigurborg Kristjánsdóttir sem ritaði fundargerð. Eftirtaldar félagskonur boðuðu forföll; AlmaDís Kristinsdóttir, Gerður Magnúsdóttir, Þóra  Halldóra Pétursdóttir, Helga Guðjónsdóttir, Jóhanna Ólafsdóttir og Kolbrún Pálsdóttir.

Eftir nafnakall var Ingibjörgu Einarsdóttur úr Gamma deild  boðin sérstaklega velkomin og henni þakkað fyrir að aðstoða og leiðbeina stjórninni við inntöku nýrra félaga.

Orð til umhugsunar. Kristín Jónsdóttir deildarforseti við HÍ var með orð til umhugsunar. Þar velti hún upp áhrifum nýrra laga frá 2019 um hæfni, menntun og ráðningum kennara og stjórnenda á þróun kennaramenntunar og kennarastarfa.

Eftir ræðu Kristínar og umræður um efnistökin var henni færð rós fyir framlag til fundarins. 

Inntaka.  Formaður kynnti nýjar félagskonur sem hafa ákveðið að gerast félagar í alþjóðasamtökunum Delta Kappa Gamma. Þær eru;

 • Alla Dóra Smith
 • Hólmfríður Steinunn Sveinsdóttir
 • Særún Albertsdóttir

Að inntöku lokinni voru þeim færðar rósir.

Aðalfundur. Formaður fól Iðunni Antonsdóttur fundarstjórn. Hefðbundin aðalfundarstörf hófust með því að ritari las skýrslu stjórnar og gjaldkeri fór yfir reikninga félagsins. Hvort tveggja var samþykkt samhljóða. Þar næst var tekin ákvörðun um  óbreytt félagsgjöld, kr. 12.000,-. 

Sagt var frá því að Birna Sigurjónsdóttir og Jódís Káradóttir ganga úr stjórn, Ólafía Guðmundsdóttir verður áfram og Björg Melsted og Steingerður Kristjánsdóttir bjóða sig fram til stjórnarsetu.  Þessar breytingum voru samþykktar með lófataki. Því næst var upplýst að Sigurborg Kristjánsdóttir er tilbúin til þess að taka að sér að vera formaður og Iðunn Antonsdóttir er tilbúin að vera áfram gjaldkeri deildarinnar. Nýkjörin stjórn var samþykkt með lófataki.

Eftir hefðbunin aðalfundarstörf færði formaður Ingbjörgu rós fyrir framlag til fundarins og Birnu rós fyrir langa stjórnarsetu.  Eftir fundarslit settust félagskonur niður og spjölluðu góða stund áður en lagt var af stað á Nauthól til samveru og kvöldverðar.

Fundinn ritaði Sigurborg Kristjánsdóttir

 

Félagsfundur Lambdadeildar 16. mars 2022

Fimmti félagsfundur Lambdadeildar á vorönn 2022 var haldinn í Gerðubergi miðvikudaginn 16. mars kl. 17.00

Mættar voru níu félagskonur og sex gestir auk fyrirlesarans Guðrúnar Eddu Bentsdóttur. Átta félagskonur boðuðu forföll.

Efni fundarins:

 • Orð til umhugsunar
 • Kynning á DKG samtökunum
 • Önnur mál

Birna Sigurjónsdóttir setti fundinn með því að kveikja á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og því næst var gengið til dagskrár.

Orð til umhugsunar

AlmaDís Kristinsdóttir var með orð til umhugsunar en kveikjan að orðum hennar voru sótt í kvæði Laxness  Dáið er allt án drauma sem lesið var upp í hlaðvarpi Gljúfrasteins. Draumur ÖlmuDísar vaknaði við hlustunina um að koma upp sambærilegu hlaðvarpi um Listasafn Einars Jónssonar þar sem hún er safnstjóri. Hún tengdi ljóðið líka hörmungunum í Úkraníu og mikilvægi þess að missa ekki vonina og láta sig dreyma bjartari tíma. Þá vék hún að styrkumsóknum sínum þegar hún var í doktorsnáminu. Vonin og þrautseigjan hélt henni við við efnið svo hún gæti fjármagnað doktorsnámið og lokið því og hún sagði frá því að DKG veitti henni styrk til námsins sem hún lauk árið 2019. Styrkir eins og samtökin veittu ÖlmuDís eru til þess að viðhalda draumunum, en þeir þurfa að vera raunhæfir og taka mið af raunveruleikunum sagði AlmaDís að lokum. Í dag situr hún í námsstyrkjanefnd samtakanna hér á landi.

Kynning á DKG alþjóðlegum samtökum kvenna sem starfa í fræðslumálum

Guðrún Edda Bentsdóttir forseti landssambands DKG á Íslandi hóf kynnningu sína með því að rekja söguna á bak við veru sína í samtökunum. Því næst fór hún yfir upphaf og hlutverk samtakanna sem voru stofnuð í Austin í Texas í Bandaríkjunum árið 1929 en frumkvæðið að þeim átti dr. Anni Webb Blanton við háskólann í Texas. Hlutverk DKG er að stuðla að auknum fræðilegum og persónulegum þroska kvenna í fræðslustörfum og gæðum í menntun og uppeldisstörfum. Þá fór  GEB yfir heiti og tákn samtakanna. Heitið Delta Kappa Gamma er fengið úr gríska stafrófinu og er skammstöfun fyrir þrjú grísk orð:

 • Didascotiiki sem merkir kennari
 • Kleidouchi sem merkir lykill
 • Gynaikes sem merkir konur

Ýmis önnur tákn eru notuð í starfsemi samtakanna og eru þau hluti af starfshefðum. Helsta táknið er félagslykilinn, gyllt sporöskjulöguð barmnæla, sem hver félagskona fær afhenta þegar hún gengur í samtökin. Ýmsar aðrar nælur eru notaðar sem tákn um stöðu þeirra sem bera þær.

Litir samtakanna eru rauður og gylltur. Rauði liturinn er tákn hugrekkis sem þarf til þess að ná árangri. Gyllti liturinn er litur tryggðarinnar sem ætlast er til að konur beri hver til annarra og til hugsjóna samtakanna.

 Blóm samtakanna eru rauðar rósir sem endurspegla andríki og sköpunargáfu. Rósirnar prýða inntökuathafnir og aðrar formlegar samkomur. Rósirnar eru líka notaðar til að færa þakkir þeim sem koma með framlag á fundum og þingum.

 DKG eru starfandi í tólf löndum og eru 75-80 þúsund félagskonur í samtökunum. Alþjóðasamtökin sjá um stjórnun og ýmsa þjónustu við landssambönd og deildir, gefa út fréttabréf og ritrýnd tímarit.

 Ísland gekk í samtökin árið 1975 og eru um það bil 350 félagskonur í þrettán deildum. Deildir eru grunneining samtakanna og þar fer mestöll fagleg starfsemi fram. Deildir kjósa sé formann og stjórn á aðalfundi á tveggja ára fresti þegar ártalið er slétt tala. Landssamband er sameiginlegur vettvangur allra deilda.

 GEB fór yfir ávinninginn af þátttöku í DKG en þau helstu eru:

Stjórnunarþjálfun, samskipti við fólk í fræðslustörfum út um allt land og út um allan heim, vinátta, samvera og nám í gegnum deildarstarfið, vettvangur til þess að kynna og segja frá þróunarverkefnum og öðru áhugaverðu skólastarfi og þátttaka í faglegum ráðstefnum svo eitthvað sé nefnt. Að lokum vakti Guðrún athygli á vorráðstefnu DKG sem haldin verður á Grand Hótel laugardaginn 7. maí en þátttökugjaldið er kr. 6000.- og innifalið í ráðstefnugjaldinu er matur og kaffi.

 Birna þakkaði Guðrúnu Eddu Bentsdóttur fyrir kynninguna og færði henni rós sem þakklætisvott fyrir framlag til fundarins.

Önnur mál

Fundarhlé var gert meðan fundargestir snæddu kjúklingasalat og hélt svo fundurinn áfram með því að Sigurborg færði Þorgerði Önnu Arnardóttur rós fyrir framlag hennar til fundar sem haldinn var í Urriðaholtsskóla 10. maí 2021 þegar  hún tók á móti Lambdadeild, sýndi skólann og sagði frá skólastarfinu.  

Undir þessum lið ræddu félagskonur og sögðu frá persónulegum ávinningi með veru sinni í samtökunum og að lokum kynntu þær sig hver og ein í stuttu máli áður en fundi lauk.

Fundinn ritaði Sigurborg Kristjánsdóttir

 

Jólafundur 6.desember 2021
Fjórði félagsfundur Lambdadeildar á haustönn 2021 var haldinn á heimili Birnu Sigurjónsdóttur stjórnarkonu Lambdadeildar mánudaginn 6. desember kl. 17.00. Mættar voru níu félagskonur, sex gestir auk upplesara kvöldsins, rithöfundurinn Arndís Þórarinsdóttir.
Efni fundarins:
• Jólasamvera
• Upplestur
• Orð til umhugsunar
Jólasamvera
Fundur var settur með því að kveikja á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Gestir voru sérstaklega boðnir velkomnir og í framhaldi var boðið upp á glæsilegar veitingar. Fundarmenn og gestir þeirra spjölluðu góða stund meðan þeir neyttu veitinganna.
Upplestur.
Eftir góða spjallstund las Arndís Þórarinsdóttir upp úr bók sinni Bál tímans, örlagasaga Möðruvallabókar í sjö hundruð ár. Stoðirnar í bókinni eru sóttar í Möðruvallarbók eins og fram kemur í titlinum en Arndís lagði á sig mikla rannsóknarvinnu við heimildarsöfnun til ritunar bókarinna enda tók það hana tvö ár að skrifa hana. Fundarmenn voru sammála um að efni bókarinnar væri mjög áhugavert og ætti að gagnast kennurum á miðstigi vel til kennslu þótt svo hún væri áhugaverð öllum aldurshópum.
Orð til umhugsunar
Gerður Magnúsdóttir var með orð til umhugsunar og voru hefðirnar á aðventunni henni hugleiknar bæði þær sem taka breytingum og þær sem halda velli. Sængurfatahefðin í hennar fjölskyldu heldur velli en sagði þó að samvera og samvistir með fjölskyldunni væru þó það sem skiptir mestu máli. Góðar umræður sköpuðust út frá orðum Gerðar.
Eftir umræðuna um jólahefðir voru fundir eftir áramót áréttaðir og efnistök þeirra s.s. að Guðrún Edda Bentsdóttir verði með kynningu á samtökunum DKG og á öðrum fundi eftir áramót verði inntaka nýrra félaga. Jódís Káradóttir formaður sleit síðan fundi með því að færa Birnu þrjár rósir, eina fyrir vináttu, aðra fyrir trúmennsku og þriðju fyrir hjálpsemi. Eftir formleg slit fundarins sátu félagskonur í góða stund við spall í notalegri samveru og umvefjandi umhverfi á heimili Birnu.
Fundinn ritaði Sigurborg Kristjánsdóttir
 
Félagsfundur 28.nóvember 2021

Þriðji fundur starfsársins var haldinn í leikskólanum Hlíðarbergi hjá Ólafíu Guðmundsdóttur Lambdasystur og stjórnarmanni og á þann fund mætti Anna Magnea Hreinsdóttir doktor og lektor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Hún fjallaði um yngstu börnin í leikskólanum og sagði frá nýlegri rannsókn um viðhorf barna til dvalartímans í leikskólanum sem hún og Kristín Dýrfjörð gerðu.

 
Félagsfundur 11.október 2021
Annar félagsfundur Lambdadeildar á haustönn 2021 var haldinn í Námsflokkum Reykjavíkur mánudaginn 11. október kl. 17.00. Mættar voru sex félagskonur, þrír gestir auk tveggja fyrirlesara.
Efni fundarins:
• Kynning á sjálfboðastarfi í Suður Afríku
• Orð til umhugsunar
• Önnur mál
Kynning á sjálfboðastarfi í Suður Afríku
Eftir setningu fundar formanns sem kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi var félagskonum og gestum þeirra boðið að hlýða á Ólöfu Sigurðardóttur fyrrverandi Lambdasystur og dóttur hennar, Oddnýju Einarsdóttur sem sögu frá afar áhugaverðu sjálfboðastarfi þeirra í bænum Knysna í Suður Afríku. Þær sögðu kveikjuna að sjálfboðastarfinu vera ferð sem Ólöf fór með manni sínum til S-Afríku.
Það sem einkenndi stöðuna í bænum Knysna að þeirra sögn er fátækt og menntunar-og heilsuleysi íbúanna. Sem dæmi þá þróa hátt í 60% barna með sér eyðni og skortur á næringarríku fæði hrjáir stóran hluta innfæddra. Um 80% landsmanna í S-Afríku eru svartir eða litaðir en restin hvít. Hagkerfinu er stjórnað af hvíta manninum. Þær sögðu þó aðskilnaðarstefnan í S-Afríku hafi verið lögð niður með lögum upp úr 1990 þá væri hún enn við lýði í reynd.
Þær mæðgur tóku með sér spjaldtölvur í ferðina, sem voru ekki nettengdar og búið var að leggja til hliðar hér á landi og nýttu þær í kennslunni.
Þær voru í þrjá mánuði í Knysna, fóru í 21 skóla og kenndu 370 börnum að nýta sér spjaldtölvur m.a. til þess að spora og læra stafina og þjálfa þau í ýmsum þrautum sem og grunnforritun. Þær tóku tölvurnar með sér heim á hverju kvöldi til þess að hlaða þær fyrir næsta dag. Þær skildu síðan spjaldtölvurnar eftir í skólunum þegar þær yfirgáfu landið. Það sögðu að lífsgleði, þrautseigja, þakklæti og hugrekki hafi verið einkenni fólksins í þorpunum sem þær voru í. Þær mæðgur sýndu myndir af lífinu sem studdu frásagnir þeirra.
Orð til umhugsunar
Birna Sigurjónsdóttir var með orð til umhugsunar þar sem hún sagði frá ferð sinni á slóðir Auðar djúpúðgu í Skotlandi undir leiðsögn rithöfundarins Vilborgar Davíðsdóttur sem skrifaði sögurnar Auður, Vígroði og Blóðug jörð. Birna sagði að með ferðinni hefði hún verið að sameina lífsgildin sín að lifa lífinu lifandi og halda áfram að ferðast og fræðast.
Önnur mál
Ólöfu og Oddnýju voru færðar rósir fyrir þeirra framlag til fundarins og í framhaldi kynntu fundarmenn og gestir sig. Eftir kynninguna var fundi slitið en fundarmönnum var boðið að sitja lengur til að spjalla, næra sig og skoða húsnæði Námsflokkanna.
Fundaritari var Sigurborg Kristjánsdóttir
 
Félagsfundur 29. september
Fyrsti félagsfundur Lambdadeildar á haustönn 2021 var haldinn í listasafni Einars Jónssonar miðvikudaginn 29. september kl. 18.00. Mættar voru níu félagskonur og einn gestur.
Allir fundarmenn héldu fjarlægðarmörk í samræmi við sóttvarnarreglur og báru grímur þegar þess þurfti.
Efni fundarins:
Heimsókn í listasafn Einars Jónssonar
AlmaDís Kristinsdóttir forstöðumaður listasafnsins og Lambdasystir gekk um safnið og sagði sögu þess. Hún tók við sem forstöðumaður á vormánuðum árið 2020. Einar Jónsson gaf íslensku þjóðinni safnið og ævistarf sitt og heyrir því safnið undir Mennta- og menningarmálaráðuneytið. AlmaDís sagði frá því að safnið er fyrsta listasafnið sem var opnað fyrir alþjóð í eigin húsnæði. Hún hefur þurft að klífa nokkrar brekkur frá því hún tók við sem forstöðumaður s.s. Covid19 og myglu í skrifstofuhúsnæðinu en er bjartsýn á framhaldið enda brennur hún fyrir starfinu og að nýta safnakennslufræðina sem verkfæri til að miðla listaboðskapnum til barna og ungmenna.
Setning fundar
Eftir leiðsögn um safnið setti formaður fundinn og rætt var um mikilvægi þess að fundarmenn bjóði gestum með sér á alla fundi í vetrar sem kveikju til að fjölga félagskonum.
Orð til umhugsunar
Björg Melsted var með orð til umhugsunar og voru henni hugleikin gildin um þolinmæði og þrautseigju í kennslu og í lífinu almennt, sér í lagi í tengslum við Covid19 þar sem allir hafa þurft að taka á honum stóra sínum. Þá tengdi hún þolinmæðina við eigið sjálf þar sem hún lenti í því að handleggsbrotna tvisvar, fyrra brotið seint í vetur og seinna brotið í sumar. Braut sem sé sitthvora hendina. Björg sagðist vera þekkt fyrir að sýna öðrum þolinmæði en sýndi sjálfri sér ekki sömu mildina. Þá ræddi hún um þrautseigju og þolinmæði nemenda og mikilvægi þess að vera til staðar fyrir börn sem falla ofan í holu. Kennarar og foreldrar eru oft fljótir til og grípa þau áður en þau falla en það þurfi að gæta þess að taka ekki fallið af börnunum því það þroski þau að glíma við vandamál og eflir þolinmæði, seiglu og þrautseigju þeirra. Út frá orðum Bjargar spunnust áhugaverðar umræður.
Eftir umræðurnar var fundi slitið en fundarmönnum boðið að sitja áfram og ræða málin.
Fundargerð ritaði Sigurborg Kristjánsdóttir
 

Fundargerðir 2020-2021

Félagsfundur Lambdadeildar 10. maí 2021
Annar félagsfundur Lambdadeildar árið 2021 var haldinn í Urriðaholtsskóla mánudaginn 10.maí kl.17.00. Mættar voru átta félagskonur og þrír gestir. Sjö félagskonur boðuðu forföll.
Allir fundarmenn viðhéldu fjarlægðarmörk í samræmi við sóttvarnarreglur og báru grímur.
Efni fundarins:
Kynning á starfi, starfsháttum og byggingarsögu Urriðaholtsskóla
Ritari opnaði fundinn í fjarveru formanns (sem seinkaði vegna umferðar) og sagði í stuttu máli frá DKG og sögu Lambdadeildar. Í lok framsögu bauð ritari Þorgerði að gerast félagsmaður við næstu inntöku. Í framhaldi tók Þorgerður við boltanum og bað fundarmenn að gera stuttlega grein fyrir sér áður en hún hóf sína kynninguna.
Í stuttu máli starfar Urriðaholtsskóli á tveimur skólastigum, leik- og grunnskóla og fullvaxinn verður hann fyrir börn á aldrinum 1 til 15 ára. Skólinn tók á móti sínum fyrstu nemendum í byrjun apríl 2018 en þá voru opnuð tvö heimasvæði fyrir leikskólastig. Árið 2018 tók svo grunnskólastig til starfa og í dag eru nemendur frá 1 árs og upp í 6. bekk grunnskóla en það er sá árgangur (börn fædd 2009) sem mun vaxa upp.
Byggingu fyrsta áfanga lauk haustið 2019. Í honum eru sex heimasvæði leikskólabarna fyrir um 120 heilsdagspláss og fjögur heimasvæði grunnskólabarna sem rúma vel 240 nemendur. Þá verður í framtíðinni útibú frá Bókasafni Garðabæjar á neðri hæð hússins sem og útibú frá Tónlistarskóla Garðabæjar.
Teymisvinna og samkennsla árganga er ríkjandi í skólanum þar sem hverju barni er mætt þar sem það er statt. Gildi skólans eru Virðing - Umhverfi - Ábyrgð. Mikið er lagt upp úr því að vinna með skapandi og opinn efnivið þar sem leikurinn fær mikið pláss á báðum skólastigum. Færni og fimi í leik og starfi er höfð að leiðarljósi til að byggja sterkan grunn og áhersla á að vinna með fjölbreyttar en um leið gagnreyndar kennsluaðferðir.
Barnið og þarfir þess eru ávallt í brennidepli um leið og starfsfólk skapar gott skólasamfélag fyrir börn, foreldra, samstarfólk og nærumhverfið. Kennt er í færnimiðuðum hópum þar sem allt að þrír árgangar eru saman í hóp.
Þorgður sagði frá nokkrum brekkum sem hún og stjórnendateymi skólans hefur klifið og vóg þar hæst starfsmannavelta. Hún sagði líka að það hafi verið ævintýri líkast að reka skóla með starfsfólki frá mörgum þjóðernum. Í dag eru eru þrettán starfsmenn af áttatíu í kennaranámi.
Á næsta starfsári verður gerð starfendarannsókn í samstarfi við Háskólann á Akureyri þar sem kennarinn sjálfur verður í brennidepli þar sem ýmsir bæði innan og utan skólans veita leiðögn í kjöfar áhorfs.
Þorgerður gekk með fundarmönnum um skólann og svaraði á göngunni ýmsum fyrirspurnum um fagleg og rekstrarmálefni.
Eftir góðar mótttökur snæddi hópurinn saman kvöldverð á veitingahúsinu Sjálandi.
Fundargerð ritaði Sigurborg Kristjánsdóttir
 
 
 Fundur 22. febrúar 2021

Fyrsti félagsfundur Lambdadeildar árið 2021 var haldinn á Sautjándajúnítorgi 7 í Garðabæ föstudaginn 22. febrúar kl. 17.00.  Mættar voru sjö félagskonur og átta boðuðu forföll.

Efni fundarins:

 • Kynning á samtökum fólks á þriðja æviskeiðinu
 • Orð til umhugsunar
 • Önnur mál

Jódís Káradóttir, formaður deildarinnar setti fundinn með því að kveikja á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og því næst var gengið til dagskrár.

Kynning á samtökum fólks á þriðja æviskeiðinu. Birna Sigurjónsdóttir sagði okkur frá samtökum fólks á þriðja æviskeiðinu sem hún gegnir nú formennsku fyrir. U3A eru alþjóðleg samtök fyrir fólk á aldrinum 50+. Samtökin voru stofnuð árið 2012 og hefur fjölgað jafnt og þétt í samtökunum frá þeim tíma en félagsmenn eru nú hart nær níuhundruð. Samtökin standa fyrir vikulegum fundum á þriðjudögum kl. 16.30 sem ýmist innihalda fyrirlestra, heimsóknir í stofnanir, fyrirtæki og söfn og ferðalög innanlands og utan. Markmið samtakanna er stuðla að fræðslu og virkni félagsmanna, efla kynni við aðra innan og utan U3A hvar sem er í heiminum og taka þátt í rannsóknum og samstarfsverkefnum innanlands sem utan. Hægt er að nálagast allar upplýsingar um félagið á vefslóðinni www.u3a.is og þar er jafnframt  hægt að sækja um félagsaðild en félagsgjaldið er afar hóflegt eða kr. 2000.- á ári. Birnu var þakkað fyrir áhugaverða kynningu og í kaffipásu var áfram rætt um þau fjölmörgu tækifæri sem bíður fólks á  þriðja æviskeiðinu.

Orð til umhugsunar. Ólafía Guðmundsdóttir var með orð til umhugsunar og var henni efst í huga mikilvægi sí- og endurmenntunar  fyrir fólk sem mætir mótlæti í lífi og starfi. Hún sagði frá persónulegri reynslu þegar hún hafi þurft að klífa brekkur og hve endurmenntun í stjórnun og jákvæðri sálfræði  hafi veitt henni mörg verkfæri til að grípa til við ýmsar aðstæður í lífinu.

Önnur mál. Ýmis mál voru reifuð undir þessum lið svo sem tímasetningar fundanna, lengd þeirra,  huga betur að fundardagsetningum í framtíðinni svo sem vegna vetrafría og ýmis málefni tengd menntun. Fundi slitið kl. 18.30.  

Fundinn ritaði Sigurborg Kristjánsdóttir

Fundargerðir 2019-2020

Aðalfundur 3. júní 2020
Lambda-deild hélt aðalfund í Veröld, Húsi Vigdísar Finnbogadóttur 3. júní. Tekið var á móti hópnum og við fengum kynningu á starfseminni og húsinu. Að því loknu var fundur settur. Birna flutti skýrslu stjórnar og Jódís reikningana í fjarveru Iðunnar gjaldkera. Tillaga að nýrri stjórn var samþykkt með lófataki en hana skipa:
Jódís Káradóttir, Birna Sigurjónsdóttir, Ólafía Guðmundsdótti, Sigurborg Kristjánsdóttir og Iðunn Antonsdóttir, gjaldkeri.
Gerður Magnúsdóttir gengur úr stjórninni og var henni þakkað með rós fyrir stjórnarstörfin.

 

Fundur 9. mars 2020
Félagskonur í Lambda hittust hjá Sigurborgu á Sautjandajúnítorgi í Garðabæ kl. 18:00 mánudaginn 9. mars 2020. Jóhanna sagði frá verkefni í skóla hennar þar sem markmiðið er að gefa nemendum með frávik í hegðun og námi aukið vald til að móta, með aðstoð kennara, sína eigin námskrá. Samþykkt var að fresta áætluðum fundur á vorinu vegna sóttvarnarviðbragða.
 
Lambdafundur 29. janúar 2020
Mættar voru Gerður, Iðunn, Þóra, Ingibjörg, Birna, Steingerður, Jóhanna, Helga, Sigurborg og Jóhanna.
Birna bauð allar velkomnar og setti fund með því að kveikja á kertunum.
Við fengum okkur veitingar og síðan var Bogga með orð til umhugsunar. Það var tvennt sem lá á henni, annars vegar var hún að velta fyrir sér starfslokum sem eru framundan og hins vegar það hvernig við eigum að halda við flottu starfi. Hvernig höldum við góðum hlutum gangandi? Þessi umræða var komin til vegna þess að leikskólinn hennar, Hæðarból fékk úrvalseinkunn í ytra mati Menntamálastofnunar.
Í framhaldi af þessum orðum fórum við að ræða um framtíð leikskólans, tengslamyndun, langan vistunartíma, erfiðleika foreldra og fleira. Við hefðum vel getað rætt þetta áfram en nú var komið að aðalerindi fundarins.
Gestur fundarins var Hulda Karen Daníelsdóttir. Hún hefur starfað með ÍSAT nemendum undanfarin 20 ár. Hún fór yfir þróun mála á þeim tíma og við ræddum fram og til baka um málaflokkinn.
Það sem hæst bar var hversu mikil aukningin á þessum tíma hefur orðið. Fjöldi barna hefur margfaldast og þar með þörfin fyrir stuðning, bæði í formi fjármagns svo hægt sé að vinna í hverjum skóla fyrir sig en einnig í formi utanaðkomandi stuðnings. Hulda Karen hefur unnið fyrir Jöfnunarsjóð og er með ólíkindum hversu ólík nálgun þeirra og Reykjavíkurborgar hefur verið. Það sem Huldu Karen finnst vera einna stærsti ávinningurinn af hennar starfi er að Jöfnunarsjóður treystir skólastjórum við úthlutun og tekur mið að því hvernig þeir skilgreina þörfina.
Mikilvægasta vinnan framundan er að að vinna að nýrri ÍSATnámskrá og kemur greining sem Hulda Karen og Hulda Skogland unnu fyrir Menntamálastofnun til með að nýtast í þeirri vinnu. Hulda Karen sagði að ein helsta gagnrýnin sem kom í ljós í þeirri greiningarvinnu er að það er engin heilstæð lína í gangi.
Umræðurnar voru fjörugar og fóru um víðan völl enda margir sem hafa þurft á stuðningnum að halda eða eru að vinna með börn sem falla í þennan hóp. Einnig var gaman að ræða þær breytingar og þróun á áherslum sem hafa orðið á þessum 20 árum. Þar fer fremst sú breyting að leggja minni áherslu á móðurmálskennslu og meiri áherslu á íslensku því skólinn er eina umhverfið sem bÝður upp á nám í þeirri mikilvægu grein. Ef maður nær ekki góðum tökum á íslenskunni í skólanum hvar á maður að gera það?
Við hefðum sennilega getað haldið lengi áfram en um kl 19:30 sleit Birna fundi. EinhverjAr héldu þó spjallinu áfram enda margt að ræða.
Fundarritari Gerður
 
Fundur 9. desember 2019
Jólafundur Lambdadeildar var haldinn 9. desember á heimili formanns. Mættar voru níu konur glaðar í bragði. Birna setti fund og kveikti á kertum. Yfir veitingum flutti hún orð til umhugsunar og ræddi hefðir tengdar jólum og breytingar á þeim. Sæunn Kjartansdóttir, sálgreinir og rithöfundur kom á fundinn og las úr bók sinni Óstýriláta mamma mín - og ég. Henni var færð rós sem þakkir fyrir lesturinn og umræðuna sem skapaðist. Í lok fundar færði Iðunn Birnu rós fyrir móttökurnar.
 
Fundur 7. nóvember 2019
Annar fundur vetrarins í Lambdadeild var fimmtudagskvöldið 7. nóvember. kl. 17:30. Átta konur hittust í Hofstaðaskóla ásamt 9 konum úr Alfadeild en fundurinn var sameiginlegur með þessum tveimur deildum. Kristín Jóhannesdóttir formaður Alfadeildar setti fund og kveikti á kertum. Ingibjörg Ásgeirsdóttir úr Lambdadeild flutti Orð til umhugsunar og sagði okkur frá skólaheimsókn kennarahóps úr Grandaskóla til skóla í Riga í Lettlandi. Skólinn er veganskóli og úti- og skógarkennsla stór hluti af námi nemenda. Birna formaður Lambdadeildar kynnti síðan Dr. Hjördísi Þorgeirsdóttir sem flutti fræðsluerindi kvöldsins. Hún fjallaði um starfendarannsóknir og sagði okkur frá því hvernig þær hafa stuðlað að starfsþróun kennara og skólaþróun í Menntaskólanum við Sund. Fundi lauk um kl. 19:00 eftir ánægjulegan og fróðlegan fund.
 
 Fundur 25. september 2019
Fyrsti fundur haustsins með félagskonum í Lambdadeild var haldinn 25. september kl. 18:00 í húsnæði Námsflokka Reykjavíkur að Suðurlandsbraut 32. 
Dagskrá var í anda þemans fyrir veturinn: Skóli margbreytileikans/ skóli fyrir alla.
María Sigurjónsdóttir, Þroskaþjálfi og MS í atferlisgreiningu og fagstjóri nýstofnaðs Arnarskóla kom til okkar á fundinn og fræddi okkur um starfsemina, stefnu skólans og áherslur.
.

Fundargerðir 2018-2019

Fundur 14. mars ásamt Deltadeild
Fimmti fundur starfsársins var semeiginlegur með konum úr Deltadeild. Alls voru 22 konur mættar, 12 úr Lambdadeild og 10 úr Deltadeild. Fundurinn hófst á heimsókn í Capacent, Ármúla 13. Hlín Helga Guðlaugsdóttir tók á móti okkur með góðum veitingum og kynnti ráðgjafastarf fyrirtækisins, sem byggir á hugmyndafræði, sem kennd er við Design Thinking.
Þaðan var haldið í hús Menntavísindasviðs HÍ þar sem Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs tók á móti okkur. Birna og Jónína settu fund og kveiktu á kertum. Eftir borðhald var orðið látið ganga og konur kynntu sig. Síðan tók Kolbrún við og kynnti námið á Menntavísindasviði sem skiptist nú í fjórar deildir en sviðið menntar kennara fyrir öll skólastig. Menntavísindasvið menntar, auk kennara, þroskaþjálfa, tómstunda- og félagsmálafræðinga, uppeldis- og menntunarfræðinga og íþrótta- og heilsufræðinga, sem sagt, gríðarlega fjölbreytt nám og frábær nemendahópur sem síðan vinnur saman í menntakerfinu. Sviðið hefur frá árinu 2007 einnig boðið upp á starfstengt tveggja ára diplómanám fyrir ungt fólk með þroskahömlun og hefur námið skilað miklum árangri og undirbúið nemendur fyrir ólík störf innan menntakerfisins. Þá eflir námið samfélagið okkar og rennur tryggari stoðum undir menntun án aðgreiningar, við erum stolt af þessu námi, segir Kolbrún. Nemendur á Menntavísindasviði eru alls um 2100. Aukning hefur orðið í kennaranámi en ekki nóg til að mæta þörf fyrir nýja kennara á grunnskólastigi. Að lokum söng hópurinn saman Mér um hug og hjarta nú undir stjórn félagskonu úr Deltadeild. Birna sleit fundi sem var bæði fróðlegur og ánægjulegur.
 

Fyrsti fundur ársins, miðvikudaginn 30. janúar 2019 í Melaskóla.

Melaskóli opnaði arma sína á móti 11 köldum konum kl. 18 síðastliðinn miðvikudag. Byrjað var á leiðsögn um skólann þar sem sagan var rakin í stuttu máli, gengið um friðaða bygginguna og skólastofur skoðaðar. Eldri byggingin er frá 1946 og hefur grunnskólinn verið starfræktur þar fyrir 1.-7. bekk síðan þá. Einar Sveinsson teiknaði húsið og var það skreytt af listamönnunum Barböru Árnason og Ásmundi Sveinssyni. Ekki gafst tími til að skoða nýrri bygginguna en hún er tengd við þá eldri með neðanjarðargöngum og hefur hýst skólastofur eldri bekkjanna frá því um síðustu aldamót.

Endað var á kennarastofunni yfir kringlunni og byrjað á að snæða ljúffengt „mæðgnasalat“ Birnu og Bjargar. Á meðan var Steingerður með orð til umhugsunar og las upp áhugaverðan texta um fórmóður sína, hinn fróðleiksfúsa kvennskörung, Sigurfljóð ljósmóður sem hún hefur sótt innblástur til á námsferli sínum.

Björg var síðan með greinargóða og áhugavekjandi kynningu á leiðsagnarmatinu eins og kennarar í Melaskóla hafa verið að vinna að því undanfarin misseri. Þrátt fyrir smá tæknilega örðugleika vakti kynningin gefandi umræður um gagnsemi þessarar nálgunar í kennslu og voru lambdakonur spenntar að fá myndböndin sem vildu ekki birtast á tjaldinu, hér inn í hópinn.

Fundi var svo slitið rétt um kl. 20.

Jólafundur miðvikudaginn 12. desember

kl. 18 heima hjá Birnu formanni í Skógarselinu.

Mættar voru 13 konur á fundinn sem hófst á því að bjóða Steingerði formlega velkomna í félagsskapinn með skírteini, rós og nælu.

Formaður sagði frá boði Deltadeildar (sem er nýja deildin hennar Valgerðar okkar) um sameiginlegan fund fimmtudaginn 14. mars kl. 18, að fara á kynningu hjá Capacent og svo út að borða saman. Hjá Capacent tæki á móti okkur Hlín Helga Guðlaugsdóttir ráðgjafi hjá fyrirtækinu. Hún segði okkur frá fyrirtækinu og þeirri aðferðafræði, sem hún aðhyllist og hefur tileinkað sér í ráðgjafarstarfinu, Design Thinking.

Þá var boðið upp á léttar og glæsilegar jólaveitingar áður en Sigríður Hagalín Björnsdóttir kom og kynnti bók sína Hið heilaga orð. Sigríður sagði frá sér, aðdraganda bókarinnar og söguþræði áður en hún las spennandi kaflabrot úr bókinni og svaraði spurningum. Margar félagskonur keyptu bókina og fengu hana áritaða.

Góður tími var gefinn í spjall áður en Birna var með Orð til umhugsunar og kynnti Bleiku skólaljóðin fyrir okkur sem frænka hennar hafði gefið út í litlu upplagi en frænka hennar hafði kynnt þetta verkefni fyrir okkur á jólafundi heima hjá Kolbrúnu áður. Bleiku skólaljóðin eru eingöngu ljóð eftir íslenskar konur, mörg sem ekki höfðu ekki birst á prenti áður. Birna las fallegt ljóð upp úr bókinni eftir Halldóru B. Björnsson.

Fundi var slitið stundvíslega með óskum um gleðilega hátíð og héldu Lambdakonur saddar á sál og líkama út í jólaljósaskreytt skammdegið.

Fundur 5 nóvember 2018
Birna kveikti á kertum og setti fund og fór yfir nokkur praktísk atriði. Hún minnti á greiðslu félagsgjalda en árgjaldið er 12.000 kr og fer 10.000 af því til samtakanna og þarf deildin að standa skil á því fyrir 10 nóvember. 
Vefsíða - þar eru m.a. fundargerðir og félagatal. Nú er verið að biðja um að settar séu inn myndir af félögum á síðuna. Sjá t.d. hjá Betadeild. Ákveðið var að Birna sjái um að setja þær inn og a við sendum myndir af okkur til hennar.
Fengum póst frá Delta-deild með ósk um samstarf. Tillaga kom um að bjóða þeim á fund með okkur í vor, annaðhvort í mars eða maí. Var mjög vel tekið í það af fundarmönnum.
Fundir á vorönn verða 30 janúar, 9 mars, í maí og vorfundur 11 júní. Umræður urðu um að fá áhugaverða fyrirlesara til að ná betri mætingu. Rætt um að fá á jólafundinn rithöfund með einhverja af jólabókunum t.d. Auði Övu eða Gerði Kristnýju. Eða einhverja af þeim konum sem er að gefa út bók.

Orð til umhugsunar. Lífspeki sem Esther deildi með okkur „Allt fer á besta veg í hinum besta heimi allra heima“ Halda í bjartsýnina og horfa á hið góða var kjarninn í því sem hún setti fram á einlægan og persónulegan hátt.
Sigurborg sagði frá þróunarverkefninu „Skólinn minn“ í leikskólanum Hæðarbóli sem snýst um að jafna aðstæður barna til náms með því að nýta styrkleika starfsmanna og leyfa starfsmönnum að blómstra hver á sínu áhugasviði og börnin njóti öll góðs af.
Borin fram gómsæt fiskisúpa og kaffi, spjallað saman um starfið framundan í deildinni og hvert við viljum stefna.

Fundargerð 27. september 2018

Á fyrsta fundi vetrarins heimsóttu 11 konur í Lambdadeild Austurbæjarskóla og Skólamunastofuna sem Hollvinafélag Austurbæjarskóla (https://www.facebook.com/groups/120012415406796/) kom á laggirnar og sér um í sjálfboðaliðavinnu. Sigrún Lilja stærðfræðikennari og einn af stofnendum Hollvinafélagsins og Skólamunastofunnar tók á móti okkur.

Við byrjuðum á að skoða skólann sem er frá 1930. Hann var einn fullkomnasti skóli á Norðurlöndunum og jafnvel í Evrópu á sínum tíma, með bíósal, leikfimisal, sundlaug, ljósastofu og list- og verkgreinastofum. Það voru tvær íbúðir í skólanum fyrir skólastjóra og húsvörð, ásamt herbergjum fyrir kennara sem komu til kennslu utan af landi. Byggingin er fyrsta húsið sem var hitað upp með hitaveitu á Íslandi og kom það breska hernum mjög að óvörum þegar þeir hernumdu skólann í seinni heimstyrjöldinni. Í kjölfar Vestmanneyjagossins var skólinn einnig notaður til að hýsa fjölskyldur úr Eyjum. 

Við héldum fundinn á Skólamunastofunni þar sem líklega allar okkar fundu fyrir „nostalgíu“ við að sjá bækur og hluti sem við könnuðumst við úr eigin skólagöngu. Svo vorum við að minnsta kosti þrjár úr hópnum sem höfðum verið i Austurbæjarskóla sjálfar og heimsóknin hefur án efa vakið margar minningar. Skólamunastofan var full af fjársjóðum, kennslugögnum og skólabúnaði allt frá 1930. Ásamt því voru persónulegir hlutir frá merkum kennurum skólans.

Birna setti fundinn og kveikti á kertum og Ingibjörg flutti orð til umhugsunar. Hún minnti okkur á þakklætið og talaði um „fjölskyldusjúkdóminn“ að hneigjast til kennslu. Á meðan hún snart okkur með hugvekjandi orðum gæddum við okkur á ljúffengum veitingum við upprunalega langborðið af kennarastofu skólans. Þökkum við Sigrúnu Lilju og skólanum fyrir þessar góðu móttökur og hlökkum til að fá að fylgjast með Skólamunastofunni áfram.

Fyrir þær sem ekki komust má geta þess að Skólamunastofan er opin á Vorhátíð Austuræjarskóla og Menningarnótt. Einnig ef einhver er að leita að viðfangi í ritgerð eða langar að skrifa sögu skólans hefur það ekki veirð gert enn.

Fundargerðir 2017-2018:

Vorfundur 5. júní

Á vorfundi Lambda-deildar hittust 10konur og heimsóttu vinnustofu Önnu Jóelsdóttur myndlistakonu. Hún sagði okkur frá vinnu sinni og tilurð verkanna. Henni var færð rós og þakkað fyrir móttökurnar.http://www.annajoelsdottir.com/exhibits-2016-2011/
Að svo búnu hélt hópurinn á Marshall- veitingahúsið og naut þar góðrar samveru, líflegs spjalls og góðra veitinga. Héldum svo glaðar út í sumarið.

Aðalfundur 3. maí

Aðalfundur Lambda-deildar var haldinn í Grandaskóla 3.maí kl. 20:00. Mætttar voru 11 konur. Gerður setti fund og kveikti á kertum. Fundurinn hófst á aðalfundarstörfum. Gerður stýrði fundi og Birna las skýrslu stjórnar um starfið á árinu. Gerður greindi frá því að Iðunn tekur nú að sér gjaldkerastörf fyrir deildina en stjórn velur gjaldkera skv. reglum félagsins. Iðunn mun gera grein fyrir stöðu reikninga á fundi síðar. Greidd voru félagsgjöld til samtakanna DKG fyrir 20 konur alls 240 þúsund. 
Kosning til stjórnar - tvær konur ganga úr stjórn: Sigurborg Kristjánsdóttir og Sif Stefánsdóttir. Þeim var þakkað fyrir sitt framlag til starfsins. Í framboði til stjórnar eru: Birna Sigurjónsdóttir, Gerður Magnúsdóttir, Jódís Káradóttir og Ólafía Guðmundsdóttir. Kallað var eftir því hvort aðrar vilja bjóða sig fram, svo var ekki og stjórnin samþykkt með lófataki. Stjórnin skiptir með sér verkum á fyrsta fundi en jafnframt var sagt frá því að Birna býðst til að taka að sér formennsku. Fundarmenn undirrituðu vottorð um nýja stjórn. 
Félagatal var látið ganga og fundarkonur beðnar að fylla inn upplýsingar sem verða settar á vefsíðu deildarinnar.

Að loknum aðalfundarstörfum sagði Þóra frá Grandaskóla og starfi hans og sérstöðu, hún ig Ingibjörg sýndu okkur skólann.

Eftir kaffiveitingar flutti Jódís orð til umhugsunar og ræddi um lestur, læsi og lestrarhvatningu í ljósi eigin reynslu,

Í lok fundar var rætt um starfið framundan; hvað eigum við að leggja áherslu á, hvað getum við sjálfar lagt af mörkum, s.s. kynnt starf okkar eða áhugasvið og verkefni sem við erum að vinna að. Hugmyndum sem komu fram verður haldið til haga.
Fundi var slitið kl. 9:55..

Fundur 21. mars

Tíu konur voru mættar á fund Lambda-deildar í Menntamálastofnun 21. mars kl. 18:00. Gerður setti fund og kveikti á kertum og bauð konur velkomnar og gaf síðan orðið til Erlings R. Erlingssonar, sviðsstjóra miðlunarsviðs og Óskars Níelssonar, þróunarstjóra sem tóku á móti hópnum. Erling sagði okkur frá því að á miðlunarsviði starfa 14 manns að þróun og útgáfu námsefnis fyrir grunnskóla en á Menntamálastofnun starfa alls um 60 manns. Á hverju ári eru gefnir út 30-50 nýir titlar auk eldra námsefnis. Flest af því efni er aðgengilegt á vef stofnunarinnar. Helstu verkefni í þróun eru útgáfa námsefnis fyrir heyrnarlausa nemendur og einnig fyrir efni fyrir blinda. Nýjum Íslendingum hefur ekki verið sinnt nóg en námsefni fyrir þann hóp er nú í vinnslu. Hann greindi einnig frá því að krónutala per nemanda til námsefnisútgáfu hefur ekki breyst í 14 ár. Óskar tók síðan við og greindi nánar frá þróun námsefnis í íslensku fyrir heyrnarlausa nemendur en stofnunin hefur ekki áður útbúið námsefni fyrir þá. Þetta námsefni er dýrt í framleiðslu. Hann sagði okkur frá því að nú væði verið að móta stefnu um námsgögn á öllum þremur skólastigum, leikskóla, grunnskóla og framhaldsskóla. Af nýju efni nefndi hann handbók í bókmenntakennslu þar sem samin er skáldsaga yrir nemendur og henni fylgia síðan leiðbeiningar til kennara þar sem leiðbeint er um atriði í bókmenntum sem koma fyrir í sögunni og kennari vekur athygli á.
Nýjung er einnig að nú verða tveir útgáfudagar á ári í stað eins áður. Einnig er verið að bæta við námsefni í list- og verkgreinum á sérstökum listavef. Að loknu kaffihléi héldu umræður og spurningar áfram.
Í lok fundar var Kolbrún með orð til umhugsunar og sagði okkur frá bókinni Strength-based Leadership sem hún er með á náttborðinu. Í máli hennar kom fram að við erum öll leiðtogar og við höfum ólíka styrkleika til að efla leiðtogahæfni okkar.
Fulltrúum Menntamálastofnunar eru þakkaðar góðar móttökur, veitingar og fræðandi upplýsingar.
Fundi slitið kl. 20:00.
fundarritari Birna

Fundur 20. febrúar 2018

Á fund Lambda-deildar 20. febrúar mættu 8 konur og áttu góða stund kringum borðið í stofunni í Skógarseli 43. Gerður setti fund kl. 20:00 og kveikti á kertum. Birna tók við fundarstjórn og gaf orðið til Guðbjargar Emilsdóttur sem fræddi okkur um læsi og lestur fyrr og síðar og kynnti lestrarkennsluaðferðina: Að skrifa sig til lesturs. Þar er lögð áhersla á að börn noti tölvuna til að læra stafina og skrifi orð og texta út frá tali til að læra að lesa. 
Miklar umræður sköpuðust út frá erindi Guðbjargar enda snertir lestur okkur allar í lífi og starfi. Þóra flutti orð til umhugsunar og sagði okkur frá nemanda úr fyrsta árgangi sem hún kenndi og var bráðger, hún telur að kennurum hafi farið nokkuð fram í að koma til móts við einstaklingsbundnar þarfir nemenda sinna.

Fundi var slitið kl. 10:00 og Guðbjörgu og Þóru þakkað fyrir þeirra innlegg.

--------------------------------------------

Fundur í Lambdadeild 13. desember

Alls voru 13 konur voru mættar á jólafundinn 13. desember sem haldinn var í Austurgerði 7 í Kópavogi heima hjá Gerði. Kristín Helga Gunnarsdóttir rithöfundur kom á fundinn og sagði okkur frá tilurð bókar sinnar „Vertu ósýnilegur“ og las fyrir okkur kafla úr henni. Líflegar umræður sköpuðust í kjölfarið enda búum við flestar yfir reynslu af því að vinna með börnum og foreldrum af erlendum uppruna. 
Eftir að hafa gætt okkur á veitingum las Gerður orð til umhugsunar og sagði frá kynnum sínum af tveimur 
erlendum konum sem hún kynntist í vinnu sinni á leikskóla í Noregi. Af þeim lærði hún margt svo sem að meta eigið ríkidæmi.

Gerði voru þakkaðar móttökurnar í lok ánægjulegs fundar.

--------------------------------------------

Fundur í Lambdadeild 23. nóvember kl. 20:00 haldinn í leikskólanum Sólhvörfum í Kópavogi.

Á fundinum voru 15 konur, þar af 6 nýjar konur og tveir gestir þær Ingibjörg Elsa Guðmundsdóttir, formaður Alfa-deildar og Phyllis Hikey frá höfuðstöðvum DKG í Austin Texas.

Fundurinn hófst á því að kveikt var á kertum og síðan var inntökuathöfn sem Gerður stýrði. Nýjar félagskonur samþykktu markmið samtakanna og fengu afhent skjöl og nælur því til að staðfestingar að þær væru nú fullgildir félagar í DKG. Þetta eru þær: Björg Melsted, Esther Ágústsdóttir, Guðbjörg Emilsdóttir, Halldóra Pétursdóttir, Helga G. Guðjónsdóttir og Jóhanna G. Ólafsdóttir.

Síðan var kynning þar sem fundarkonur tóku tal saman tvær og tvær og kynntu síðan hvor aðra fyrir hópnum.

Phyllis Hikey sagði okkur frá því að hún er komin til landsins til að velja stað fyrir Evrópuráðstefnu samtakanna sem haldin verður hér á landi í júlí 2019.

Kolbrún greindi síðan frá fyrirhugaðri ráðstefnu FUM Félags um menntarannsóknir sem haldin verður á komandi ári. Þar verða leiddir saman allir aðilar sem koma að þróun menntakerfa.https://www.facebook.com/felagummenntarannsoknir/

Ólafía lauk fundinum með orðum til umhugsunar og Gerður sleit fundi um kl. 9:30

-------------------------

Fyrsti fundur vetrarins var haldinn í leikskólanum Hæðarbóli 22. október kl. 17:30. Mættar voru 8 konur þar af þrír gestir.

Sigurborg leikskólastjóri í Hæðarbóli bauð fundarkonur velkomnar og Birna setti fundinn og kveikti á kertum. Hún hóf síðan fundinn á því að lesa ljóðið Haustlitasinfónían eftir Sigurð Pálsson úr bók hans Ljóð muna rödd.

Iðunn flutti því næst orð til umhugsunar og sagði frá samveru með gömlum bekkjarfélögum úr Melaskóla og reynslu þeirra af skólagöngunni í Mela- og síðan Hagaskóla.

Þá var komið að kynningu á starfi Delta Kappa Gamma samtakanna sem Jóna Benediktsdóttir forseti sá um. Áður en hún hóf sína kynningu var farinn kynningarhringur þar sem fundarkonur sögðu á sér deili.

Í kynningu sinni sagði Jóna frá uppruna samtakanna í Austin Texas og upphafi starfsins hér á landi og lagði áherslu á gildin: Vinátta - Trúmennska - Hjálpsemi sem móta starfið en einnig að hver deild mótar sínar áherslur. Hún sagði frá sameiginlegum fundum og ráðstefnum hér á landi og erlendis og tækifærum til að taka þátt í alþjóðastarfi samtakanna. Hún nefndi að næsta vorþing verður haldið 5. maí nk. á Egilstöðum.

Eftir stutt kaffihlé var sest aftur og spurt og spjallað um starfið, þátttakan getur verið bæði gerandi og þiggjandi og hver og ein ræður hvað hún leggur til starfsins.

Jónu var þakkað fyrir sitt framlag og fundarkonum fyrir komuna og fundi slitið um kl. 19:00.

 

 


Síðast uppfært 21. sep 2022