Afmælisfundur Delta deildar

Fundarkonur á 25 ára afmælisfundi Delta deildar
Fundarkonur á 25 ára afmælisfundi Delta deildar
Á árinu 2012 fyllti Delta deild 25 árin og fyrirhugað var að halda hátíðarfund í tilefni af því í Reykholti við upphaf aðventu. Undanfarin ár hefur deildin haldið síðasta fund ársins í tengslum við aðventutónleika Tónlistarfélags Borgarfjarðar, en af óviðráðanlegum ástæðum var þeim fundi frestað til laugardagsins 12. janúar s.l. í hátíðarsal gamla Héraðsskólans í Reykholti. Vert er að þakka Snorrastofu fyrir aðgengi að þeim glæsilegu salarkynnum. Fyrir fundinn fengum við Guðlaug Óskarsson til að taka hópmyndir annars vegar af fundarkonum og hins vegar af þeim félagskonum sem starfað hafa ötullega í deildinni frá stofnun hennar og þar um bil. Landsambandsforsetinn okkar hún Sigríður Ragna Sigurðardóttir hafði áformað að fagna afmælinu með okkur, en því miður varð hún að boða forföll á síðustu stundu vegna veikinda. Við upphaf fundarins fórum við í svolitla samkvæmisleiki til að raða okkur til borðs og einnig til að fullgera ávarp formanns. Fram voru bornar veitingar frá nokkrum heimakonum, þ.e. Dagnýju Emilsdóttur, Ingu Stefánsdóttur og Þórunni Reykdal og undir borðum stjórnaði Theodóra Þorsteinsdóttir söng um leið og hún gaf deildinni afmælissöng sem sunginn var undir laginu Tryggðapantanir: Tuttugu‘ og fimm ár nú teljum við saman, trúlegt er ekki, en hratt flýgur stund. Hittumst við konur og höfum þá gaman hlæjum og njótum, því létt er vor lund. Fræðsla í Delta það fag okkar er en fjörið þó höfum og gleðina hér. Tra-la-la-la-la-la..... Þrúður Kristjánsdóttir, Jóhanna Karlsdóttir og Sigrún Jóhannesdóttir rifjuðu upp gamla góða tíma, sem Jónína Eiríksdóttir fylgdi eftir með myndasýningu og Guðlaug Sverrisdóttir sá fundarkonum fyrir hreyfingu, bæði skemmtilegu samskipta-bingói og dansi  - Gangman style.... Áður en heim var haldið var Gyða Bergþórsdóttir með orð til umhugsunar, happdrættið góða var á sínum stað með kaffinu og ísnum og að endingu var hugað að félagsstarfinu, fréttum og næstu fundum. Eftir fjögurra tíma samveru héldu konur heim á leið endurnærðar og fullar af þeirri orku sem starfið í deildinni gefur.