Annar fundur Deltadeildar starfsárið 2021-2022

Annar fundur Deltadeildar var haldinn í Reykjavík miðvikudaginn 27. október 2021. Hann hófst á heimsókn til Mixtúru, sköpunar-og upplýsingartæknivers Skóla- og frístundasviðs Reykjavíkurborgar. Þar tóku þær Bjarndís Fjóla Jónsdóttir, sem er félagi Gammadeild og Þorbjörg S. Þorsteinsdóttir á móti okkur og sögðu okkur frá hinum ýmsu hlutverkum Mixtúru, en þar er t.d. starfrækt snillismiðja, fullbúið ljós-og hljóðstúdíó, LEGO herbergi og svonefndur „Búnaðarbanki“ SFS sem lánar út tæki til skóla.
Eftir kynninguna fengum við svo að ganga á milli herbergja og skoða, prufa og spyrja. Þótti okkur magnað að sjá að sjá hvernig hægt er að nýta tæknina á fjölbreyttan hátt með nemendum í öllum aldurhópum í skólakerfinu okkar og mikilvægt að hafa stað eins og Mixtúru þar sem starfsfólk vinnur eingöngu við að prufa tæknina, finna hvað virkar og miðla því til skólanna.

Við afhentum þeim stöllum í Mixtúru rósir og einnig var Sigrúnu Jóhannesdóttur afhentur blómvöndur frá okkur öllum með samúðarkveðjum vegna andláts eiginmanns hennar Jóns Sigurðssonar. Sunginn var afmælissöngurinn fyrir Halldóru Jónsdóttur sem átti afmæli þennan dag.

Að því loknu fluttum við okkur yfir á Spíruna, veitingastað í Garðheimum, borðuðum þar góðan kvöldmat og héldum formlegan fund. Á fundinum sagði Ruth Rauterberg Jörgensdóttir undir liðnum „Hver er ég“ og Jónína Eiríksdóttir var með „Orð til umhugsunar“ og tók hún fyrir orðið hugsun. Að lokum var happdrættið og vann Ruth vinninginn að þessu sinni. Aðrir dagskrárliðir féllu niður vegna tímaskorts. Fundi slitið kl. 20:20 og allar héldu heim í blíðviðri.

Fréttin er unnin upp úr fundargerð sem Jónína Erna ritaði í fjarveru Valgerðar Janusdóttur fundaritara Deltadeildar.
Ásta Egils