Bókafundur Deltadeildar 21.01. 2026
Þriðji fundur starfsársins var haldinn í Hallsteinssal í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi, miðvikudaginn 21. janúar 2026.
Theodóra formaður setti fund og Sóley Sigurþórsdóttir kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Að loknu nafnakalli og umræðu um fundargerð síðasta fundar tók Þórunn Kjartansdóttir menningarfulltrúi Borgarbyggðar til máls og fræddi okkur um starfsemi Safnahúss Borgarfjarðar sem geymir bókasafn, byggðasafn, listasafn, náttúrugripasafn og skjalasafn. Sagði hún okkur meðal annars frá grunnsýningu sem opnuð verður á safninu á næsta ári og ber hún vinnuheitið „Baðstofulíf“. Í Safnahúsinu hafa verið allskonar viðburðir og uppákomur þar sem börnin eru helsti markhópurinn og allt frítt fyrir gesti. Nú stendur yfir listsýning sem heitir „Sjónarafl“ og er í samstarfi við Listasafn Reykjavíkur. Tilgangurinn er meðal annars að börn fái þjálfun í læsi á myndmál. Verður einnig haldið námskeið í tengslum við það.



Elísabet Jóhannesdóttir var með „Orð til umhugsunar“ og sagði okkur frá bókaklúbbi sem hún er í í bókasafninu á Akranesi. Nú er hún að lesa bókina Konan sem elskaði fossinn sem er söguleg skáldsaga eftir Eyrúnu Ingadóttur. Elísabet var mjög heilluð af þessari sögu, fór meðal annars að Brattholti og aflaði sér allskonar efnis um Sigríði í Brattholti. Hún fékk barnabarnið með sér í að gera fróðlega glærusýningu um Sigríði. Nýttu þær sér aðstoðar gervigreindar og kom það vel út.
Síðan var rætt um bækurnar Kvöldsónata eftir Ólaf Jóhann Ólafsson og Þú sem ert á jörðu eftir Nínu Ólafsdóttur. Konur voru sammála um að bók Ólafs Jóhanns væri mjög vel skrifuð og efnið áhugavert. Færri höfðu lesið bók Nínu sem fjallar um lífshlaup konu sem elst upp á heimskautasvæði á tímum mikilla umhverfis- og samfélagsbreytinga. Þetta er fyrsta bók höfundar, sérlega vel skrifuð og bæði átakanleg og áhugaverð.
Undir liðnum önnur mál sagði Jóhanna Karlsdóttir frá útför Sjafnar Ásbjörnsdóttur sem lést nýlega, en hún var stofnfélagi Delta. Theodóra kynnti ritið okkar góða og fróðlega 50 ára afmælisrit Delta Kappa Gamma á Íslandi og sagði frá aðkomu Deltakvenna að útgáfunni. Sigrún Jóhannesdóttir var í ritstjórn, Ásta Egilsdóttir og Jónína Eiríksdóttir skrifuðu söguágrip Deltadeildar og Ásta var í stjórn landsambandsins þegar ákveðið var að gefa afmælisritið út. Deildin mun kaupa eintak til eignar.
Því næst færðum við okkur yfir á Barabar þar sem við fengum mjög góðan mat og þar vorum við með happdrættið. Sóley hreppti vinninginn að þessu sinni.
Það var mjög létt yfir fundinum og konur fóru heim um kl. 20:30, sælar eftir vel heppnað kvöld.



Fréttin er unnin upp úr fundargerð fundarins.
ÁE