Fréttir af deildarfundum í Deltadeild í febrúar og mars 2022

Jónína EiríksdóttirTveir deildarfundir hafa verið haldnir í Deltadeild það sem af er árinu 2022. Fyrri fundurinn var haldinn í Reykholti í Borgarfirði miðvikudaginn 16. febrúar og hófst á heimsókn í gamla héraðsskólann sem nú geymir varaeintakasafn Landsbókaafns Íslands. Jónína Eiríksdóttir, Deltakona, tók á móti hópnum en hún er eini starfsmaður safnsins, sem sinnir því reglulega á staðnum. Hlutverk safnsins er að varðveita prentuð íslensk gögn, ætluð almenningi, einnig prentanir erlendis. Í gildi eru lög um skylduskil og safnið er einn af varðveislustöðum þjóðarinnar, lokaður almenningi. Gegnir, landskerfi bókasafna á Íslandi heldur utan um forða safnsins og á leitir.is er hægt að fletta upp og sjá, hvaða efni er til og hvar það er. Varaeintakasafnið er fyrst og fremst til varðveislu og er því afnot almennings af gögnum þess óheimil.

Formlegur fundur fór síðan fram á heimili Jónínu en hún er búsett á staðnum. Sjöfn G Vilhjálmsdóttir sagði okkur á áhugaverðan hátt frá uppvexti sínum undir liðnum “Hver er ég?”, en Sjöfn er leikskólakennari, alin upp í vesturbæ Kópavogs í nálægð við náttúru, við frjálsan leik og mikla þátttöku í félagslífi, s.s. skíðaiðkun, skátastarfi og sundi en seinna gerðist hún formaður sundfélagsins og þjálfari. Nú er Sjöfn leikskólastjóri og bóndi á bænum Ásgarði í mynni Reykholtsdals.

Ásta Egilsdóttir flutti okkur orð til umhugsunar þar sem hún gaf okkur innsýn inn í líf sitt eftir formleg starfslok sem kennari í Grundaskóla og áherslu hennar á að halda virkni og heilbrigðum lífstíl til þess að njóta þriðja æviskeiðsins og allra tækifæranna sem felast í því.

Eva Björg Ægisdóttir og Jónína Erna ArnardóttirEva Björg Ægisdóttir, rithöfundur, kom á fundinn til þess að fjalla um verk sín en Eva er fædd og uppalin á Akranesi. Eva hefur skrifað fjórar bækur og eru ritstörfin hennar aðalstarf. Nýjasta bók hennar sem kom út um síðustu jól heitir Þú sérð mig ekki en Deltakonur höfðu valið þá bók til að lesa yfir jólin. Eva sagði frá því hvernig það atvikaðist að hún fór að skrifa og hvernig hún hagar ritstörfum sínum. Það fór ekki fram hjá fundarmönnum að Eva hefur ríka ástríðu fyrir bókum og ritstörfum og verður spennandi að fylgjst með henni í framtíðinni. Nú þegar hafa bækur hennar verið þýddar á nokkur tungumál og um 200.000 eintök verið seld í Evrópu.

Á fundinum bar Jónína fram dýrindis kjúklingasúpu með öllu tilheyrandi, kaffi og marengsköku sem fundarmenn gæddu sér á af mikilli ánægju og happdrættið var á sínum stað. Áður en heim var haldið minntu þær Elísabet og Jónína Erna á vorráðstefnu DKG 7. maí og á netfyrirlestra samtakanna.

 

 

Inga Dóra Halldórsdóttir og Gunnhildur BjörnsdóttirSeinni fundurinn var haldinn á Akranesi þann 24. mars síðastliðinn á veitingastaðnum Grjótinu. Halldóra Jónsdóttir var með orð til umhugsunar og fjallaði hún um vináttuna og mikilvægi hennar. Að því loknu var inntaka nýrra félaga og voru þær Gunnhildur Björnsdóttir og Inga Dóra Halldórsdóttir teknar inn í Delta-deild við hátíðlega athöfn sem þær Elísabet Jóhannesdóttir, Halldóra Jónsdóttir og Jónína Erna Arnardóttir leiddu. Við fögnum þeim Gunnhildi og Ingu Dóru og bjóðum þær innilega velkomnar í félagið.

Vera Knútsdóttir og Anney Ágústsdóttir

Að inntökuathöfn lokinni fengum við athyglisverða kynningu sem þær Vera Knútsdóttir, heimsmarkmiðasérfræðingur og Anney Ágústsdóttir, leikskólastjóri í leikskólanum Akraseli á Akranesi sáu um. Vera kynnti fyrir okkur heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna, sem eru 17 talsins. Ræddi hún meðal annars gæði þeirra og hversu sjálfsagt það er að samþætta þau inn í líf okkar og  þeirra stofnanna sem við vinnum í. Benti hún á skólavef Félags Sameinuðu þjóðanna https://www.un.is/skolavefur/ en þar er að finna fjölbreytt námsefni um Sameinuðu þjóðirnar og þau margvíslegur málefni sem þær standa fyrir. Skólavefnum var komið á laggirnar til að halda utan um námsefni fyrir þá skóla sem taka þátt í UNESCO-skólaverkefninu. Anney fræddi okkur um starfið í leikskólanum og hvernig þar er unnið markvisst með heimsmarkmiðin en Akrasel er eini leikskólinn á landinu sem er svokallaður Unesco-skóli. Sagði hún frá því hvernig endurnýting kemur við sögu í mjög heillandi og skapandi verkefni með börnunum sem að lokum verður að jólagjöf til foreldra barnanna. Einnig eru þau mjög öflug við að jarðgera og skoða hversu mikill úrgangur fer frá þeim í formi matarafganga og rusls. Sköpuðust mjög fjörlegar umræður um þetta áhugaverða málefni og svöruðu þær stöllur ýmsum spurningum. Til gamans má geta þess að Fjölbrautaskóli Vesturlands er einnig Unesco-skóli.

Í lok fundar fór Jónína Erna yfir fundargerðir það sem af er starfsárinu. Gaman var að líta yfir veturinn, því þrátt fyrir veður og covid þá höfum við náð að hafa fjóra fundi hingað til og gert svo margt skemmtilegt og uppbyggilegt. Stefnt er að því að halda aðalfund 12. maí n.k.

Áður en Jónína Erna sleit fundi minnti hún á Vorráðstefnuna sem verður haldin 7. maí á Grand Hótel í Reykjavík. Happdrættið okkar góða fór fram meðan á borðhaldi stóð.