Fréttir frá Jónínu fráfarandi formanni

Frá fundi í Deltadeild í febrúar 2020
Frá fundi í Deltadeild í febrúar 2020

Vegna covid-faraldursins gerði Deltadeildin hlé á öllum fundum frá því um miðjan mars og til vors 2020. Þrátt fyrir það stóð stjórnin vaktina yfir internetið og hafði með sér samráð og hélt sambandi við félagana með aðstoð tölvunnar að ógleymdum símanum. Við bjuggum vel að því að uppstillingarnefnd hafði verið virkjuð í tæka tíð, vefarar höfðu tekið ómetanlegan skurk á vefsíðunni og við höfðum skipt okkur í undirbúningshópa vegna umgjarðar ráðstefnu samtakanna, sem framundan er og verður væntanlega í september að hausti í Borgarnesi. 
Framkvæmdaráð deildarinnar hittist svo með formlegum og hefðbundnum hætti í Reykholti 9. maí. Þar ríkti fögnuður og hlýja. M.a. voru sagðar fréttir af félögum, sem ráðið hafði hringt til. Allar samþykktu tillögu uppstillingarnefndar að nýrri stjórn og höfðu komist vel frá breyttum lífsvenjum í faraldrinum, þakklátar fyrir símtalið. Allar voru minntar á að greiða árgjald samtakanna fyrir 30. júní. Ákveðið var að halda stjórnarfund 20. ágúst næstkomandi og deildarfund viku síðar, 27. ágúst. Við álítum það nægan tíma til að hefja starfið og huga að ráðstefnu haustsins 12. september í Borgarnesi eins og ráðgert hefur verið.
Send verður tilkynning til Landssambandsstjórnarinnar um nýja stjórn í Delta, sem tekur á pappírunum til starfa 1. júlí en í rauninni ekki fyrr en í haust þegar samkomubann verður vonandi liðin tíð:

Jónína Erna Arnardóttir formaður, Halldóra Jónsdóttir 1. varaformaður, Elísabet Jóhannesdóttir meðstjórnandi og Valgerður Janusardóttir ritari. 

Eitt af þeim verkefnum vorsins, sem við þurftum að fresta með eftirsjá var heimsókn Lambdadeildar í sveitasælu Vesturlands. Við hlökkum til að bjóða þær velkomnar á næsta starfsári.
Við óskum nýrri stjórn til hamingju með kjörið og óskum henni velfarnaðar. Við heitum þess að sjálfsögðu að standa vel að baki hennar svo að okkar góði félagsskapur vaxi og dafni um ókomna tíð. 
Ingibjörg Kristleifsdóttir hefur flutt búferlum úr Reykholti og býr nú í Reykjavík. Hún biður fyrir góðar kveðjur og hefur kosið að kveðja samtökin að sinni. Við sendum henni saknaðarkveðjur og þakklæti fyrir gleði og ánægju, sem hún geislar af og miðlar okkur. 

Með þakklæti til ykkar allra kæru félagskonur bið ég þess að sumarið verði ykkur öllum farsælt og
að við hittumst kátar og hresstar á hausti sem kemur.
Jónína Eiríksdóttir fráfarandi formaður.