Fundur Delta og Epsilon 26. apríl 2025
Síðasti fundur Deltadeildar á starfsárinu var haldinn laugardaginn 26. apríl 2025 í Landnámssetri Íslands Borgarnesi. Gestir fundarins voru félagskonur í Epsilondeild.Theodóra Þorsteinsdóttir formaður Deltadeildar setti fundinn og Margrét Guðmundsdóttir formaður Epsilondeildar kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi.
Sigríður Guðnadóttir Epsilonkona las upp úr dagbók sinni skemmtilega frásögn af verslunarferð í Smáralindina og atviki sem hún lenti í við lok ferðarinnar og sýndi fram á heiðarleika og hjálpsemi fólks.
Margrét Guðmundsdóttir var með „orð til umhugsunar“ og flutti fallega hugleiðingu út frá orðum okkar vinátta, trúmennska og hjálpsemi.
Theodóra sagði síðan frá Landnámssetrinu, tilurð þess og umfangi, talaði um nágrennið í neðribænum í Borgarnesi og Skallagrímsgarðinn. Í framhaldinu komu spruningar meðal annars um Tónlistarskóla Borgarfjarðarog starfið þar sem Theodóra leiddi í 30 ár. Hún sagði frá starfi sínu og söngleikjunum sem hún hefur sett upp frá árinu 2004 en það ár fékk skólinn sitt eigið húsnæði. Síðustu árin hafa dætur hennar unnið með henni við uppsetningu söngleikjanna. Nú er hún hætt hér í Borgarnesi, en setti upp tvo söngleiki í Tólistarskólanum á Akranesi í vetur með dóttur sinni og Jónínu Ernu Arnardóttur Deltakonu og skólastjóra þar.
Því næst æfðum við afmælislagið okkar nokkrum sinnum og þá var komið að hádegisverðarhlaðborði. Happdrættið var á sínum stað og fékk Harpa Björnsdóttir Epsilonkona vinninginn sem Sigrún Jóhannesdóttir Deltakona kom með.
Áður en haldið var heim á leið sungum við afmælislagið okkar og nú tilbúnar að taka lagið á afmælisráðstefnunni 10. maí næstkomandi ásamt konum úr öllum deildum landsins.
Góður dagur í góðum félagsskap. Fundi slitið kl. 13:30.
Fréttin byggir á fundargerð fundarins.
ÁE