Fundur í Deltadeild 8. febrúar 2024

Jónína EiríksdóttirFjórði fundur Deltadeildar var haldinn í Bókasafni Akraness - Svöfusal 8. febrúar 2024. Um undirbúninginn sáu þær Jensína, Ásta og Guðlaug í samráði við formann. Halldóra formaður setti fundinn, Jónína kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi og Guðlaug var fundarritari.

Halldóra Jónsdóttir og Ingibjörg JúlíusdóttirHalldóra kynnti fyrirlesara fundarins Ingibjörgu Júlíusdóttur forstöðumann bókasafnsins og bauð hana velkomna. Ingibjörg sagði frá fjölbreyttri starfsemi bókasafnsins, m.a. blómlegu barnastarfi með sögustundum og foreldramorgnum þar sem er lesið, leikið og föndrað. Sumarlestur barna er vinsæll og fastur liður í starfseminni og á safninu er skiptimarkaður með búninga fyrir öskudag og hrekkjavöku sem og skiptimarkaður með sparifatnað fyrir jólin.
Safnið heldur úti verkefninu Bókin heim sem er í boði fyrir þá sem ekki eiga heimangengt en þar fer starfsmaður heim til fólks með bækur í samræmi við óskir þess og áhuga. Einnig hafa þeir sem eiga bókasafnskort aðgang að rafbókasafni sem geymir erlend tímarit. Tveir leshringir eru starfandi á bókasafninu sem hittast einu sinni í mánuði og á Vökudögum að hausti eru bókmenntakynningar. Bókasafnið heldur úti virkri síðu á Facebook (Bókasafn Akraness) en þar er að finna allar upplýsingar um starfsemina og sagði Ingibjörg þess vert að fylgjast með henni því margt skemmtilegt væri framundan.
Í lokin ræddi hún um eigin bókaáhuga og las upp úr bókinni Undir yfirborðinu eftir Fridu McFadden. Þakkaði Halldóra Ingibjörgu fyrir og færði henni rós og upplýsingaritið um DKG.

Halldóra lagði fram tillögu að skipan uppstillinganefndar sem verða þær Jónína Erna, Elísabet og Valgerður. Tillagan var samþykkt einróma. Nefndarkvenna bíður m.a. það verkefni að finna nýjan formann Deltadeildar. Halldóra minnti á vorráðstefnu DKG 2024 og sagði frá erindi laganefndar um lagabreytingar á næsta alþjóðaþingi DKG sem verður í National Harbour, Maryland dagana 9. – 13. Júlí 2024. Einnig minnti hún á að umsóknarfrestur til að sækja um styrk í Lucile Cornetet-sjóðinn rennur út 1. mars nk. Skagakonurnar Gunnhildur, Ruth, Brynja og Jónína munu svo sjá um undirbúning næsta fundar.

Bókaspjallið var næst á dagskrá þar sem rætt var um bækurnar Högni eftir Auði Jónsdóttur og Aksturslag innfæddra eftir  Þórdísi Gísladóttur. Sú fyrrnefnda þótti í heildina góð þó svo sumar hafi lagt hana frá sér tímabundið! Bókin skiptist í þrjá kafla, í fyrstu tveimur er fjallað um Högna í 3. persónu og birtist hann þar sem óttaleg remba og sá sem allt veit best og hefur rétt fyrir sér en í þeim þriðja tekur hann sjálfur yfir, segir frá sjálfum sér og lífshlaupi sínu og er þar að finna skýringar á ýmsu í fari hans. Við vorum sammála um að lífsreynsla Högna hafi verið mikil og erfið, bæði sú lífsreynsla að lenda í slaufun nútímans sem fer að mestu fram á samfélagsmiðlum og sú sem fylgdi örlögum föður hans sem var útskúfað úr samfélaginu á sínum tíma fyrir samkynhneigð sína og leiddi til þess að hann fyrirfór sér. Þeirri spurningu var varpað fram hvort Högni væri sjálfur  samkynhneigður. Í umræðunni kom fram að Auður sjálf hafði upplifað slaufun á samfélagsmiðlum.

Bókin Aksturslag innfæddra samanstendur af sjö smásögum úr samtímanum sem byggðar eru á raunverulegum atburðum og auðvelt að spegla sig í. Fram kom að bókin væri notaleg og fljótlesin og sumar sögurnar áhugaverðari en aðrar t.a.m. sagan sem ber sama titil og bókin og segir frá Tedda sem býr alla ævi á æskuheimili sínu. Það er vissulega þægilegt og þurfa aldrei að kaupa sér íbúð, flytja að heiman og koma sér upp búslóð en getur líka haft vissa ókosti sem kemur berlega í ljós í sögunni. Sagan Listarnir þótti afar góð og höfðaði til okkar því margar sem könnuðust við að gera ýmsa lista í sínu daglega lífi.

Halldóra JónsdóttirSíðasta mál á dagskrá var Orð til umhugsunar í umsjá Halldóru formanns. Byrjaði hún á því að ræða stöðu Grindvíkinga í yfirstandandi náttúruhamförum, sagði huga okkar hjá þeim og vonaði að allt færi á besta veg. Því næst fjallaði hún um orð ársins 2023 sem er orðið gervigreind, valið bæði af hlustendum RÚV og Árnastofnun en um orðið segir á RÚV: „Gervigreind er hæfileiki búnaðar til að vinna verk sem venjulega eru tengd mannlegri greind.“ Rifjaði Halldóra upp að fluttur var fróðlegur fyrirlestur um gervigreind í skólastarf á Landsambandsþingi DKG sl. vor þar sem fram kom að hún geti verið gagnleg í  skólastarfi og sparað vinnu. Sagði Halldóra þakkarvert að ískenskir aðilar vinni að því að íslensk tunga eigi sinn sess í þróun þessarar tækni. Hún sagði einnig að við yrðum að vera vakandi gagnvart notkun gervigreindar eins og sást m.a. í síðasta ármótaskaupi. Vegna umræðu á fundinum má geta að færeyska orðið yfir gervigreind er „vitlíki“. Fallegt og lýsandi orð. Að lokum ræddi Halldóra um lestur og hæfileikann til að lesa sér til gagns. Nefndi hún m.a. niðurstöður Pisa kannana í því sambandi og þörfina á að ná til þeirra barna sem ekki ná grunnfærni í lestri og hjálpa þeim áfram. Sagði hún þá einstaklinga missa af miklu sem ekki ná þeirri færni í lesti að geta gleymt sér við bókalestur.

Að loknum fundi var kvöldverður snæddur á veitingahúsinu Galito. Þar var dregið í happdrættinu góða og fékk Jónína Erna vinninginn að þessu sinni.

 Jónína Erna Arnardóttir Deltakonur snæða kvöldverð

Deltakonur héldum heim á leið um kl. 21.30, glaðar í sinni eftir skemmtilega samveru og góðan kvöldverð.