Fyrsti fundur Deltadeildar starfsárið 2021-2022

Fyrsti fundur Deltadeildar starfsárið 2021 – 2022 var haldinn miðvikudaginn 29. september í Tónlistarskólanum á Akranesi. Áður en formlegur fundur hófst heimsóttum við Helenu Guttormsdóttur, lektor við Landbúnaðarháskóla Íslands, á heimili hennar við Bjarkargrund 20 þar sem jafnframt var vinnustofa föður hennar Guttorms heitins Jónssonar myndlistarmanns og nú hennar. Helena sagði sögu sína og þróun þess að hún er það sem hún er í dag og kom þar við sögu saga föðurleggs hennar frá Uppsala í Svíþjóð. Mjög áhugaverð frásögn og fjölbreytt efni sem hún sýndi okkur.

Eftir heimsókn til Helenu færði hópurinn sig yfir í tónlistarskólann þar sem Jónína Erna, skólastjóri skólans og formaður Deltadeildar, tók á móti hópnum, setti fund og stýrði umræðu um málefni deildarinnar, m.a. um inntöku nýrra félaga.
Þórunn Reykdal sagði okkur á sinn skemmtilega hátt „hver hún væri" og sagði okkur frá mikilvægum áhrifum í lífshlaupi sínu, fyrirmyndum, löngunum og ákvörðunum. Áhugverð frásögn lífsglaðrar konu sem sagði um leið sögu þjóðfélagsbreytinga og viðhorfa. Þórunn varð nýlega 70 ára og fékk af því tilefni rós frá Delta-konum.
Jensína Valdimarsdóttir fór með Orð til umhugsunar og fjallaði um orðið Traust, sem er landsmönnum ofarlega í huga um þessar mundir. Fjallaði hún um skilgreiningu á hugtakinu, um þróun trausts í íslensku samfélagi frá hruni og mikilvægi traust í samskiptum fólks og samfélaginu öllu.
Jónína Erna sá um Lagið mitt að þessu sinni. Valdi hún þjóðlagið Kvölda tekur sest er sól og spilaði hún undir hópsöng.
Dregið var í happdrættinu góða meðan á kvöldverði stóð og fékk Dagný vinninginn að þessi sinni.

Fréttin er unnin upp úr fundagerð sem Valgerður Janusardóttir, ritari Deltadeildar, skráði.
Ásta Egils.