Jólafundur Deltadeildar 2025
Jólafundur Deltadeildar haldinn fimtudaginn 4. desember 2025 í Garðabæ á heimili Soffíu Sigurjónsdóttur.
Theodóra formaður setti fundinn og Soffía kveikti á kertum vináttu, trúmennsku og hjálpsemi. Formaður færði Soffíu gestgjafa blómaskreytingu frá félögum sem þakklætisvott fyrir rausnarlegt jólaboð. Að loknu nafnakalli kynnti formaður gesti fundarins og bauð þá sérstaklega velkomna.
Jónína Eiríksdóttir flutti orð til umhugsunar. Hún fjallaði um jólin, hátíð barnanna og spurði. m.a. hvað það væri sem skapaði hátíð í huga barns. Hún las einnig úr bókinni Strákurinn, moldvarpan, refurinn og hesturinn. Þessi saga er alhliða þroskasaga, sem ávarpar allar kynslóðir og á erindi til allra.



Soffía gestgjafi sagði í stuttu máli frá sínum efri árum og ekki hvað síst vakti hún athygli á hvað jákvætt hugarfar skiptir miklu máli og vera opinn fyrir nýjum hlutum, taka þátt í félagsstarfi grípa tækifærin þegar að þau gefast og hafa gaman af lífinu.
Soffía er mikil handverkskona og sýndi okkur glæsileg útsaumuð jólatrésteppi sem hún hefur unnið að frá því í Covid. Hún er búin að sauma teppi handa öllum barnabörnunum ellefu talsins, auk þess sem börnin hennar þrjú hafa líka fengið teppi.
Theodóra fór yfir fundaráætlun starfsársins sem felur m.a. í sér heimsókn í Safnahúsið í Borgarnesi, skólaheimsókn á Akranesi, heimsókn til Sambands sveitarfélaga á Vesturlandi, umfjöllun um nýjar íslenskar bækur og aðalfund.

Að lokinni formlegri dagskrá kynnti Theodóra Hönnu Ágústu Olgeirsdóttur óperusöngkonu til leiks. Hanna Ágústa sagði okkur frá söngnámi sínu, starfsferli að því loknu og námi á sviðshöfundabraut LHÍ sem hún stundar nú. Að því loknu söng Hanna Ágústa þrjú lög fyrir okkur við undirleik Jónínu Ernu Arnardóttur Deltakonu.
Eftir þessa ljúfu tóna bauð Soffía gestgjafi okkur upp á gómsætar veitingar sem samanstóðu af rækjukokteil, kjúkling í mangochutney og súkkulaðimús í eftirrétt.

Deltakonur sungu jólalög á milli rétta við undirleik Jónínu Ernu og happdrættið var á sínum stað. Andrúmsloftið var ljúft og afslappað og jólaandinn sveif yfir.
Vakin var athygli á bók Jóns Sigurðssonar heitins sem heitir Samvinnan og óskuðum við Sigrúnu okkar til hamingju með útgáfuna.
Formaður sleit fundi og slökkti á kertunum. Soffíu var sérstaklega þakkað fyrir höfðinglegar móttökur og öllum Deltakonum og gestum fyrir komuna og ljúfa samveru.
Fréttin er unnin upp úr fundargerð fundarins. Fréttaritari hvetur lesendur til að lesa fundargerðina sem komin er inn á vefinn og fá þar betri innsýn inn í fundinn okkar.
ÁE