Þriðji fundur vetrarins

Þriðji fundur Delta deildar starfsárið 2018 - 2019 var haldinn í Borgarnesi þann 30. janúar síðast liðinn. Fundurinn hófst á dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi þar sem Aldís Eiríksdóttir,iðjuþjálfi heimilisins, tók á móti okkur, fræddi okkur um iðjuþjálfun aldraðra og gekk með okkur um heimilið. Að því loknu var haldið yfir á nýja hótelið, B59 þar sem við snæddum góðan kvöldverð og hófum formlegan fund. Auk hefðbundinna fundarstarfa og fréttaflutnings frá stjórnum deildar og landsambandsins o.fl. var bókaspjall þar sem við ræddum bækurnar Sextíu kíló af sólskini undir stjórn Elísabetar og Soffíu og Ungfrú Ísland en Sigrún og Þrúður leiddu þá umræðu. Haldið var áfram að taka ljósmyndir fyrir félagatalið og happdrættið góða var á sínum stað. Í lok fundar var Valgerði Janusardóttur fagnað með rós en hún flutti sig úr Lambda deild yfir í Delta deild eftir að hafa flust búferlum frá Reykjavík til Akraness.